1571- IKEA

Scan94Gamla myndin.
Í Langholtsrétt. Hafursfell í baksýn. Þekki bara Guðbjart á Hjarðarfelli þarna.

Nú er jólin liðin og ekki annað að gera en bíða eftir áramótunum. Ég hef aldrei verið mikill sprengjukall svo ég er ekki vanur að eyða miklu í flugelda, blys og þ.h.

Þegar áramótin eru búin þá er ekki um annað að gera en bíða eftir vorinu. Það kemur á endanum þó hægt fari. Spurningin er bara hvort það vorar seint eða snemma. Líka hvort það kemur páskahret, sýslufundarhret eða eitthvað slíkt. Hitastigið ætti að fara eitthvað hækkandi og birtan að aukast. Ég reyni að fylgjast með þessu svo vorið komi ekki alveg aftan að manni.

Sýnist veðrið bjóða uppá að maður fari út að labba. Snjór er talsverður svo hálkan er kannski minimal. Auk þess er ekkert víst að það sé í rauninni nokkuð kalt. A.m.k. er ekki mikill vindur.

ikeaSumar myndir beinlínis kalla á að þeim sé stolið. Þannig er því t.d. varið með þessa mynd. Þetta er greinilega IKEA-auglýsing og örugglega gerð í því eina augnamiði að henni sé stolið og hún fari sem víðast. Hérmeð er það framkvæmt.

Ég er ekkert neyddur til að trúa því að öll sú orka sem sagt var í E-númeraþættinum að væri fólgin í einni teskeið að sykri sé endilega rétt. Hún gæti hæglega verið fólgin í sprengiefninu sem sett var saman við. Kannski er bara best að fara að leika eldspúandi dreka!! Saltpétri og sykri blandaði maður saman í gamla daga og ef kveikt var í blöndunni fékk maður heilmikinn reyk.

IMG 7538Haustmorgunn í Kópavogi.


1570 - Falleraðir fuglar (eða englar)

Scan90Gamla myndin.
Allir að teikna. Ingólfur Gísli Garðarsson, Gerður Garðarsdóttir, Bjarni Sæmundsson og Benedikt Sæmundsson.

Enn er fjallað um stóra Vantrúarmálið. Egill Helga er nú kominn í það og ekki geri ég ráð fyrir að sérfræðingum fækki við það. Hingað til finnst mér að sérfræðingar um kennslu með glærum hafi látið ljós sitt skína á kostnað sérfræðinga um notkun siðanefnda við háskóla heimsins. Undirskriftasafnanir hafa gengið á víxl og áreiðanlega eru þeir ekki margir landsmennirnir sem með öllu eru ókunnugir þessu máli. Niðurstaða í það fæst varla úr þessu. Hver étur úr sínum poka og þykist hafa að langmestu leyti rétt fyrir sér.

Auðvitað er ekkert að marka sumt sem ég skrifa. T.d. eru fuglarnir vitlausir í það sem þeim er boðið og enginn köttur í nágrenninu. Svo er líka mestallt sem ég skrifaði um Kindle fire öfugt og snúið. Sumt er svosem satt og rétt en þeir sem ekki geta greint þar á milli verða bara að sætta sig við að kannski er eitthvað fært í stílinn einsog þetta með fugla himinsins. Það hljómaði einfaldlega betur að hafa það þannig. Villi í Köben ætlast til að allir sjái hvenær hann meinar ekki það sem hann segir og skrifar. Mér er ekkert vandara um en honum. Ari fróði segir að hafa skuli það sem sannara reynist. Hann hélt líka að hann væri að skrifa sagnfræði og trúði öllu sem hann setti á blað. (Nú, eða skinn.)

Með þessu sífellda bloggstússi er ég smám saman að verða ónæmur fyrir því að láta allan fjandann flakka bara ef það hljómar sæmilega. Mér er nær að vera búinn að venja mig á að blogga svona mikið.

Mér leiðist líka að vera algerlega hefðbundinn. Kannski er ég það samt. Enginn veit sín skrif fyrr en á blað eru komin. Þá er líka erfitt að koma þeim í burtu. Nema henda þeim fyrir fullt og fast. Það er ekki minn stíll. Frekar fimbulfamba ég eitthvað óskiljanlegt en ekki neitt.

Nú er ég aftur kominn í þann ham að skrifa endalaust. Verð samt að hætta einhverntíma. Það töpuðust nokkrir blaðsíðumetrar hjá mér undanfarna daga svo ég verð að reyna að vinna það upp. Engan hvet ég þó til að hlaupa yfir þá speki sem hér verður væntanlega sett á blað.

Nei, það mistókst. Veðrið er svo vont. Get ekki skrifað neina speki í svona veðri. Það er skítkalt og snjór útum allt.

IMG 7522Drungalegur haustmorgun í Kópavogi.


Bloggfærslur 27. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband