26.12.2011 | 08:32
1569 - Eldkyndillinn, framhald
Gamla myndin.Bjarni Þór Ólafsson. Rámar í að hafa beðið Bjarna um að hafa skeiðina í vinstri hendi svo betra væri að taka myndina.
Jú, mér tókst að kveikja á henni. En nú ætla ég að halda mönnum í talsverðri spennu og ekki segja frá því strax hvernig mér gekk að slökkva á henni aftur og hlaða batteríið og þess háttar. Auðvitað er allt slíkt algjört grundvallaratriði þegar um spjaldtölvu af þessari gerð er að ræða.
Já, hún er svört, tæpur sentimetri á þykkt giska ég á og á stærð við ofvaxna ljósmynd sem kölluð er 10x15. Satt að segja er hún u.þ.b. sentimetri á þykkt stærðin er 12x19 sentimetrar og ég held að hún sé uppundir hálft kíló að þyngd.
En nú segi ég ekki meira um hana nema mér verði mútað til þess. Sjáumst í næsta bloggi.
Konan mín er búin að starfa að því óslitið frá fyrstu snjóum að lokka til sín fugla himinsins með allskyns matargjöfum og eplaskrælingi en þeir láta ekki blekkjast. Stöku sinnum sjást þeir þó hoppa grein af grein i garðinum og kallar það á mikinn æsing. Skyldu þeir nú láta fallerast og taka til matar síns? Nei, er þá ekki köttur nágrannans kominn á kreik líka og því sjálfhætt við allar matmálstilraunir.
Lægi líf mitt við og ég ætti að búa til lista yfir alla þá staði þar sem ég hef átt heima þá yrði hann víst einhvernvegin svona:
Bláfell.
Breiðamörk eitthvað (hjá Steinu og Tedda.).
Heiðmörk hjá Sigmundi og Kristínu.
Frumskógar 1.
Hveramörk 6.
Bifröst í Borgarfirði herbergi 219.
Bifröst í Borgarfirði herbergi 205.
Breiðamörk 25 Hveragerði.
Smáratún 9 Selfossi.
Hjarðarhagi 54 Reykjvík.
Lynghagi 17 Reykjavík.
Hávallagata 44 Reykjavík.
Vegamót Snæfellsnesi.
Valbjarnarvelli í Borgarhrepp.
Helgugata 8 Borgarnesi.
Þorsteinsgata 15 Borgarnesi.
Hrafnaklettur 6 Borgarnesi.
Þórufell 8 Reykjavík.
Borgarhraun 2 Hveragerði.
Álftamýri 12 Reykjavík.
Tungusel 9 Reykjavík.
Vífilsgata 22 Reykjavík.
Auðbrekka 29 Kópavogi.
Af gefnu tilefni tek ég fram að ekki er öruggt að þessi listi sé í réttri tímaröð. Fyrir því er þó engin sérstök ástæða.
Þennan langa lista fann ég í skjali á tölvunni minni. Bjó hann semsagt ekki til núna. Athyglisvert er hve dvöl mín á hverjum stað lengist sífellt. Þetta endar sennilega með ósköpum.
Jú, ég held að ég sé að ná mér af ritstíflunni. Einhversstaðar endar þetta þó alltsaman. Í síðasta lagi hætti ég að skrifa þegar ég drepst. Þetta var mikil speki. Jafnvel spekileki.
Heimskautanóttin er löng. Hún er öllum erfið. Þó hefur lífið sigrað hana. Svarið felst í dvalanum. Allt, eða næstum því allt, stöðvast. Dvalinn er næsti bær við dauðann og hefur jafnmarga bókstafi. A.m.k. á íslensku. Þessvegna er íslenskan fullkomnari öðrum tungumálum. Heimskautanóttin er innbyggð í hana. Tölum svo ekki meira um heimskautadauðann fyrr en við vöknum. Einbeitum okkur að því að þreyja Þorrann og Góuna.
Já, það er kalt, en ekki svo kalt að ekki sé hægt að viðhalda blóðhitanum ef réttum aðferðum er beitt. Kætumst meðan hægt er. Étum okkar jólamat, förum jafnvel á jólafyllirí, en gætum okkar umfram allt á heimskautanóttinni. Hún liggur í leyni og reynir að yfirbuga okkur. Sjaldan tekst henni það því við erum svo snjöll. Samansöfnuð vineskja kynslóðanna hjálpar okkur. Við bætum meira að segja við hana. Jafnvel án þess að vita það. Bíðum bara eftir vorinu og reynum að gera eitthvað skemmtilegt á meðan. Nú er sagt að sólin sé tekin að hækka aftur á himninum. Hægt gengur það, en hefst þó áreiðanlega.
Veðurstofa Íslands. Kofinn í forgrunninum er ansi veðurlegur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)