5.10.2011 | 23:11
1495 - Appaðu þig í gang
Meðan aðalvandamálin eru hvernig á að appa sig yfir alla erfiðleika og hvað nýi snjallsíminn og i-padinn eru dýrir finnst mér með öllu óþarft að henda eggjum og öðru lauslegu í þá sem sannanlega eru að reyna sitt besta.
Mér finnst margt annað meira aðkallandi en finna íslenskt orð yfir app-skrípið. Kannski er það orðið mjög algengt að tala um að appa allan andskotann en það hefur þó ekki flækst fyrir mér hingað til, en auðvitað er ég orðinn gamall og hættur að fylgjast með.
App er greinilega ensk stytting úr orðinu application. Það getur meðal annars þýtt forrit eða eitthvað þess háttar. App er sennilega notað yfir forritsbúta sem settir eru í nýjustu gerðir farsíma, sem hægt er að komast á netið með. Með því að keyra appið á símanum er hægt að virkja applicationina á netinu og gera eitthvað ákveðið.
Það er svo enskur siður að auðvelt er að breyta nafnorðum og jafnvel styttingum í sagnorð. Vel getur verið að appið sigri að lokum, en ég er orðinn svo vanur að orða hugsum mína á annan hátt að ég held að ég komist alveg hjá því að nota þessa sögn.
Þannig lít ég á þetta mál, en auðvitað getur verið að þetta sé tóm vitleysa. Auglýsinguna frá Neinum skil ég ekki almennilega. Sennilega er heldur ekki ætlast til að nema sumir skilji hana.
Aðalrifrildisefnið núna virðist vera verkfall sinfóníuhljómsveitarinnar eða réttara sagt fagn Sambands Ungra Sjálfstæðismanna útaf því. Það er lúxus að geta verið algjörlega hlutlaus í einhverju. Ég er það eiginlega í þessu efni. Hversvegna í fjáranum er ég þá að skrifa um það? Veit ég ekki að það er í tísku að hafa skoðun á þessu? Ég hef hana bara ekki. Því miður.
Ég er alinn upp við andstyggð á sinfóníugargi í útvarpinu, en get í mesta lagi fundið að því hvernig nefnd hljómsveit er fjármögnuð en ekki fjármögnuninni sem slíkri. Það er einfaldlega ekki möguleiki fyrir hana að fjármagna sig sjálf. Ef við Íslendingar viljum endilega vera sá menningarlegi útkjálki sem fjöldi okkar segir til um, ætti að leyfa okkur það ef meirihlutinn kýs svo.
Litadýrð á leikvelli. Perlan í baksýn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
5.10.2011 | 00:07
1494 - Neyðarlög
Í Ölfusinu bjuggu eitt sitt tveir ungir menn. Eldri bróðirinn var stundum nefndur broddskita. Enga hugmynd hef ég um hvernig það viðurnefni var til komið. Bróðir hans sem ég man eftir við skólann í Hveragerði var oftast kallaður broddskitubróðir. Hann var ekki í sama bekk og ég, en umgekkst okkur samt nokkuð. Man alls ekki hvað hans rétta nafn var, en það hef ég þó örugglega vitað. Strákgreyinu líkaði nafnið auðvitað stórilla og nú til dags hefði háttalag af þessu tagi verið kallað einelti og skólastjóra og kennurum borið skylda til að reyna að koma í veg fyrir það.
Í skólanum varð ég fyrir lítilsháttar einelti, en af því ég gat svarað fyrir mig var ég tekinn í klíkuna. Sú klíka stundaði einelti gagnvart öðrum (sérstaklega krökkunum úr sveitinni) og stóð ég mig nokkuð vel þar. Sá til dæmis til þess að nafngiftirnar Ingi lús og broddskitubróðir væru í stöðugri notkun. Ef til líkamlegs ofbeldis kom reyndi ég þó að halda mig fjarri, því ég var ekki góður í slíku og hræddur við það.
Þegar ég bjó að Vegamótum á Snæfellsnesi (1970 til 1978) fór ég eitt sinn á bændafund eða eitthvað þess háttar sem haldinn var á Breiðabliki. Þar held ég að flestir bændur úr sveitinni hafi verið. Þar var t.d. Gunnar Guðbjartsson á Hjarðarfelli sem þá var formaður Stéttarsambands bænda.
Hann skýrði m.a. frá því að samkvæmt lögum væri leyfilegt að flytja út allt að 10 prósentum af framleiðslumagni hverrar búgreinar. Allir vissu samt að miklu meira en 10% af dilkakjöti var flutt út (með ærnum útflutningsbótum) enda nálgaðist sláturfé hvers árs um þetta leyti eina milljón og sláturhús voru mörg. Hann sagði að lögin væru einfaldlega túlkuð þannig að ef útflutningur einhverrar búgreinar væri minni en 10% af framleiðslunni (mjólk, ostar, smjör, egg o.s.frv.) mætti bæta svipuðu verðmæti við útflutning annarrar búgreinar (dilkakjöts í þessu tilfelli) Þessi túlkun væri þó umdeild og ekki víst að hún héldi endalaust.
Í hæstarétti var einhverju sinni kveðinn upp dómur í máli vegna skyldu til greiðslu gjalda af allri búvöruframleiðslu til búnaðarfélaga eða einhverra félaga sem samtök bænda réðu yfir. Því var haldið fram að þetta samræmdist ekki eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Dómur hæstaréttar studdi málstað bændasamtakanna og ég man að ein röksemdin sem tilfærð var í úrskurði réttarins sneri að því að alltof kostnaðarsamt væri fyrir ríkissjóð að endurgreiða slíkt aftur í tímann ef dæmt væri samtökunum í óhag.
Þetta er að mörgu leyti sama sjónarmiðið og flestir gera ráð fyrir að verði ráðandi hjá réttinum varðandi neyðarlögin svonefndu. Ég held aftur á móti að rétturinn hafi þroskast svo að ekki sé horft á hvað er erfitt eða óframkvæmanlegt fyrir ríkið að gera, heldur hvað beri að gera lögum samkvæmt.
Á útvarpi Sögu og víðar er mikið rifist um hve margir hafi verið á mótmælunum um helgina. Þetta er hefðbundið. Einnig er rifist um hverjir hafi flutt bestu ræðurnar á Alþingi í gærkvöldi. Mér fannst Jóhanna betri en oftast áður, Steingrímur Jóhann fjarri sínu besta, en Guðmundur Steingrímsson fannst mér flytja ræðu sína best. Fylgdist þó ekki með öllum ræðunum. Missti t.d. af ræðu Vigdísar Hauksdóttur sem margir telja að hafi verið afar skrautleg. Alls ekki er þó víst að ræðumennska sé best til þess fallin að meta gæði þingmanna og stjórnenda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)