1492 - Stagley

Á blaðsíðu 10 í því tölublaði Spegilsins sem út kom 23. janúar árið 1943 er þessi klausa:

Fyrir Alþingi liggur frumvarp um sölu á Stagley á Breiðafirði,

og er það Flateyjarhreppur, sem vill kaupa. Vér vonum innilega,

að Alþingi SPEGILSINS sjái sér fært að drauja þessu þannig til,

að það sjálft verði kaupandinn, því að einmitt í þessari eyju ætti það

að vera og hvergi annnarsstaðar.

Úr þessu varð ekki og enn staglast alþingismenn afturábak og áfram á því sem ætti að vera fljótsagt eða jafnvel ósagt.

Spillingin hér á Íslandi er mikil. Hún er að ýmsu leyti falin og sumir trúa því að hún sé lítil. Meðal annars er það vegna þess að hún mælist illa í sumum alþjóðlegum könnunum. Það segir þó ekki neitt um spillinguna, en hugsanlega heilmikið um kannanirnar. Pólitísk spilling og smákóngaveldi grasserar hér á landi ef við hugsum okkur um. Við erum bara orðin svo vön henni að okkur finnst hún eðlileg. Þegar við segjum að útlendingar séu ekki búnir að aðlagast íslensku kerfi (tungumáli) fyrr en eftir talsverðan tíma þá meinum við í rauninni (og þeir líka) að þeir séu ekki búnir að sætta sig við hina íslensku spillingu.

Á ýmsan hátt höfum við Íslendingar þó bætt lífskjör okkar umfram aðra og er það auðvitað jákvætt fyrir okkur, en stundum neikvætt fyrir aðra.

Ef ég byrja á heimsstyrjöldinni síðari þá voru Evrópubúar (og reyndar fleiri) á þeim árum uppteknir við að drepa hvern annan og við það hækkaði matvælaverð. Það nýttum við Íslendingar okkur og græddum vel á styrjöldinni meðan flestir aðrir töpuðu miklu á henni. Auðvitað urðum við Íslendingar líka fyrir barðinu á styrjöldinni og heimskreppunni sem á undan henni fór. Í Bretavinnunni var okkur svo kennt að svíkjast um.

Bandaríki Norður-Ameríku fóru líka ágætlega út úr styrjöldinni því lítið var barist þar. Þeir komu á fót svonefndri Marshall-aðstoð og reistu Evrópu í úr rústum með henni. Við Íslendingar nutum líka góðs af þeirri aðstoð.

Upp úr 1960 þegar stríðsgróðinn var að mestu horfinn var farið í það hér á Íslandi að minnka höftin og skömmtunina sem ríkisstjórnin hafði komið á í stríðinu. Flestar aðrar þjóðir voru þá búnar að því fyrir löngu.

Öllu sparifé í landinu var um þetta leyti stolið frá þeim sem það áttu. Þetta var gert með óðaverðbólgu og þegar spariféð var búið var verðtryggingin fundin upp svo hægt væri að halda áfram að stela.

Næst var fiskinum í sjónum stolið og gefinn helstu gæðingum smákónganna. Hægar gekk að stela öðrum auðlindum landsins og því var gripið til þess ráðs að stela einnig frá útlendingum. Telja þeim trú um að á Íslandi mundi fljótlega rísa upp fjármálamiðstöð heimsins.

IMG 6746Illilegt blóm.


1491 - "Nú er ekki meiri rjómi"

Hjól réttlætisins mala hægt, en við verðum að vona að þau mali rétt. Við höfum komið okkur upp kerfi sem við köllum lýðræði. Á því eru gallar. Eggjakast og annað líkamlegt ofbeldi lagar ekki þá galla. Kosningar geta gert það en þeir sem þar verða undir verða þá að sætta sig við það. Ef við treystum ekki dómstólunum og því kosningakerfi sem við höfum komið okkur upp er lýðræðið í mikilli hættu. Traust á dómstólunum er ein af grundvallarforsendunum fyrir virkni kerfisins.

Samtök allskonar reyna auðvitað að hafa áhrif á stefu ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma. Við því er ekkert að segja. Fjölmiðlarnir eiga ekki bara að segja frá. Þeir eiga ekki síður að útskýra mál fyrir fólki og mennta það. Þeir virðast þó flestir hafa einhver pólitísk markmið. Kannski er það eðlilegt meðal annars vegna þess að fjárhagsleg áhrif á þá koma frá aðilum sem vilja e.t.v. ekki að fjölmiðlarnir sinni sínu hlutverki.

Ríkisfjölmiðlarnir eiga að vera óháðir markaðnum. Þeir eiga ekki að þurfa að styðja ríkisstjórnir á hverjum tíma og samt að vera nægilega fjársterkir til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Þeir eiga ekki að taka þátt í froðusamkeppni við aðra fjölmiðla.

Alþingi er nánast óstarfhæft. Meðal annars er það vegna stórgallaðra þingskapa. Lög þaðan eru líka oft gölluð, og flokkarnir sem þar starfa eru gallaðir,  Von margra er að nýir flokkar og ný stjórnarskrá ráði bót á þessum göllum.

Með Sprengisandinum, sem er útvarpsþáttur á sunnudagsmorgnum á Bylgjunni, er Sigurjón Egilsson á margar hátt að reyna að taka yfir stjórnmálaumræðuna sem Egill Helgason hefur hingað til haft næstum einokun á í Silfri sínu (Sem nú er á RUV). Margt er gott um Sprengisandinn að segja og fullyrða má að stór hluti stjórnmálaumræðunnar eigi mun betur heima í útvarpi en sjónvarpi.

„Nú er ekki meiri rjómi.“ Sagði Stefán Jón Hafstein í Silfrinu í dag og telur hið íslenska spillingar- og smákóngakerfi sem ríkt hefur allar götur frá lokum síðari heimsstyrjaldar (og reyndar lengur) ekki eiga framtíð fyrir sér. Auðvitað er samt á margan hátt þægilegra að eyða og spenna eins og við höfum gert. Einhverntíma hlýtur því tímabili samt að ljúka og kannski er einmitt rétti tíminn núna. Lífskjörin á Íslandi þurfa að vera í samræmi við það sem landið býður uppá.

IMG 6744Sígarettustubbur.


Bloggfærslur 3. október 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband