20.10.2011 | 23:19
1508 - Fallið og Saga Akraness
Gamla myndin.
Alltaf eru þeir til óþurftar þessir kettir gæti Pési verið að hugsa þarna.
Skárri eru það nú lætin þó einn maður detti í það. Hörpu Hreins fannst bókin hans Þráins um fallið í Færeyjum og flýtimeðferðina á Vogi ekki merkileg og bloggaði um það. Svo er að sjá að sumir séu svo heilagir að ekki megi anda á þá. Þráinn má vel vera alkóhólisti fyrir mér. Ef hann vill endilega skrifa bók um það þá má hann það líka. Það má alveg gagnrýna bókina einnig ef einhver kærir sig um það. Sé samt engan flöt á því að ég kaupi þessa bók. Kannski fæ ég hana lánaða á bókasafninu ef ég rekst á hana þar. Efnið finnst mér samt nauðaómerkilegt.
Úr því ég minnist á Hörpu þá er ekki úr vegi að minnast á Árna Múla Jónasson einnig. Ekki er að sjá að hann ætli að svara henni í neinu. Saga Akraness stendur þó fyrir sínu og ef menn vilja kynna sér málið er hægt að líta í þá bók og á bloggið hennar Hörpu.
Styrinn stendur um það að Páll Baldvin Baldvinsson og Harpa Hreinsdóttir (ásamt mörgum fleiri) telja þessa bók (einkum þó fyrsta bindið) afspyrnu lélega og að peningum þeim sem kastað hefur verið í þetta verkefni (á annað hundrað milljónum króna) hafi verið illa varið. Bæði Árni Múli og Páll Baldvin hafa hótað málaferlum en sennilega treysta þeir sér ekki í þau. Þöggunin er samt í fullum gangi og einkum virðist sumum illa við að Harpa tjái sig um þetta mál.
Ég geri mér engar vonir um að bæjarstjórinn láti svæla sig úr greninu enda hefur hann ekkert að vinna í þessu máli. Verður áreiðanlega hvort eð er ekki endurráðinn í þetta embætti. Bæjarstjórnin treystir vafalaust á að Akurnesingar verði búnir að gleyma þessu máli næst þegar kosið verður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.10.2011 | 00:04
1507 - Af hverju er ég að þessu bloggi?
Gamla myndin.
Ekki veit ég hvar þessi mynd er tekin, en þetta eru greinilega Bjarni og Benni á rugguhestum (kannski í Tivolíinu sem eitt sinn var í Hveragerði)
Mikið rosalega er ég duglegur við að blogga. Svona miðað við flesta aðra held ég. Hvað er það sem fær menn eins og mig til blogga svona upp um alla veggi? Von um frægð? Það að uppskera aðdáun nokkurra á hvað ég er flinkur að skrifa? Breyta heiminum? Taka þátt í vinsælasta samskiptaleik veraldarinnar sem kallaður er Samskipti á netinu.? Æfa mig að skrifa? En fyrir hvað? Vonast til að ættingarnir og kannski fleiri leiti til mín ef skrifa þarf eitthvað merkilegt? Já, allt þetta og fleira til sem ég á erfitt með að koma orðum að.
Ekki er langt síðan fjallgöngur og hverskyns gönguferðir voru líf mitt og yndi. Ekki er gott að maðurinn sé einn, svo á ferðum mínum hef ég oftast verið með allstórum hópum. Stundum líka bróður mínum, stundum krökkunum mínum. Það eru reyndar nokkur ár síðan ég reyndi svona nokkuð síðast, en kannski er tíminn að verða réttur aftur. Heyrði um einn í gær sem hljóp maraþonhlaup hundrað ára gamall. Auðvitað var hann ekkert fljótur að því. Ekki hefur mér farið fram með árunum og ekki er víst að fjallgöngur séu enn mitt meðfæri. Gönguferðir get ég þó stundað.
Það er undarleg rulla
þetta jarðlífi.
Annahvort drulla
eða harðlífi.
Segi bara svona. Ekki orti ég þetta. Nokkuð vel sagt samt. Þegar mannkynið kemst í samband við vitiborið líf annars staðar í alheiminum mun allt breytast. Ekki geri ég þó ráð fyrir að lifa það. Einhverntíma verður það samt. Enginn vafi er á því. Það er tímafaktorinn og fjarlægðirnar sem skapa mestu vandræðin. Samkvæmt nýjustu fréttum er ekki víst að ljóshraðinn sé mesti hraði sem efnislegar agnir geti hreyfst á. Þar með riðar afstæðiskenningin til falls, enda er hún orðin ansi gömul og götótt.
Ekki fellur mér vel við stefnu útvarps Sögu. Heldur ekki stefnu sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN. Eitthvað hlusta ég samt og horfi á báðar þessar stöðvar. Einkum er það vegna þess að það er ókeypis. Ef vinstri menn hafa ekki döngun í sér til að til að komast í loftið mun ég halda því eitthvað áfram. Þarna er framtíðin. Hún er ekki eingöngu á netinu og hún er ekki eingöngu í því fólgin að koma frá sér sæmilega vönduðum texta. Nei, það þarf að nota allt sem fáanlegt er. Auðvitað er erfitt að reka útvarps- og sjónvarpsstöðvar, en nauðsynlegt er það samt og sífellt að verða ódýrara og einfaldara, a.m.k tæknilega séð.
Leirfinnur á Þingvöllum. Var á sýningu í Listasafni Árnessýslu í Hveragerði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)