1249 - Nýtt ár

Á nýbyrjuðu ári ætla ég að reyna að spara. Bæði bloggskrif og annað. Reikna samt með að nóg verði um að skrifa. Reyni engu að síður að stilla mig. Spái engu um stjórnmálin á þessu ári. Margt mun þó gerast. Ekki efa ég það.

Því skyldi ég vera að skrifa áramótapistil? Ég þrífst á því að skrifa um allt og ekkert. Aðallega ekkert. Þó mikið sé af því um áramót er óþarfi að skrifa um það.

Merkilegt hvað flestir sem um stjórnmál blogga persónugera hlutina. Það er eins og í huga þeirra séu engin stefnumál til, bara persónur. Stjórnmálamenn eru sumir svona líka, svo ég tali nú ekki um fjölmiðlamenn. Þeir virðast beinlínis þrífast á því að persónugera alla hluti.

Þetta er ein aðalástæðan fyrir því að mér leiðast stjórnmál yfirleitt. Menn geta fjasað endalaust um sum mál án þess að minnast á aðaltriði þess.

Margt er mannanna bölið
og misjafnt drukkið ölið.

Segir í fornu heimsósómakvæði. Fór snemma að sofa í gærkvöldi og er að hugsa um að fara út að labba núna. Kannski sé ég einhver ummerki um alla þá drykkju sem væntanlega hefur farið fram í nótt.

Mikið er rætt um áramótaskaupið núna eins og vant er í byrjun árs. Mér fannst það hvorki betra né verra en vanalega og þó mér hefði þótt annaðhvort er það eiginlega ekkert fréttnæmt. Tók auðvitað mest eftir gríninu um frænda minn Bjarna Harðarson.

Einu sinni var ég að safna fésbókarvinum. Nú held ég að þeir séu 354. Það eru of margir. Ein af afleiðingum þess er að það er ansi miklum tilviljunum háð hvað ég les og hvaða myndir ég skoða þar. Setja mætti fésbók í stað ferskeytlu í vísunni alkunnu:

Fésbókin er Frónbúans
fyrsta barnaglingur.
En verður seinna í höndum hans
hvöss sem byssustingur.

Ég er ekkert að kveinka mér. Held bara ótrauður áfram að blogga. Blogga semsagt eins og brjálaður Færeyingur.

Hér fyrir neðan er eldgömul mynd sem ég held að ég hafi samt fullt leyfi til að birta. Ef svo er ekki þá kemur það bara í ljós.

reynir petur kemur í borgarnesReynir Pétur í Borgarnesi.


Bloggfærslur 2. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband