1145 - Leikrit í einum þætti

B = Bloggarinn mikli; M = Myndasmiðurinn óviðjafnanlegi.

M: Kjörorð mitt er: Ein mynd á dag kemur skapinu í lag.

B: Nú, er ritað blogg þá einskis virði?

M: Segi það kannski ekki. En minna virði er það örugglega en almennilegt myndablogg. Getur þetta ekki bara verið svoleiðis blogg?

B: Ha? Myndablogg? Bloggið mitt?

M: Já, eða eitthvað svoleiðis.

B: Frekar blogg með myndum.

M: Eða myndir með viðfestum bloggum.

B: Jæja. Ég er nú hræddur um að ég hafi byrjað talsvert á undan þér hérna. Myndunum var bara bætt við seinna til skrauts.

M: Það getur vel verið. En hvort heldurðu að fólk komi hingað til að skoða myndirnar eða lesa ruglið úr þér?

B: Örugglega frekar til að lesa. Það veður allt allsstaðar í myndum. En úrvalsskrif eru ekki á hverju strái.

M: Góður þessi. Myndirnar eru það sem heldur þessu bloggi uppi.

B: Þú mátt halda það.

M: Það geri ég alveg hikstalaust.

B: Eigum við ekki frekar að ræða um eitthvað annað? T.d. Moggabloggið eða fésbókina.

M: Þú hugsar ekki um annað. Mér finnst Flickr mun merkilegra en fésbókin.

B: Flickr, hvað er nú það? Eitthvað um myndir geri ég ráð fyrir.

M: Já, svo sannarlega og það eru sko engar slormyndir.

B: Jæja, en þú vilt ekkert tala um hitt af því þú hefur ekkert vit á því.

M: Vit á bloggrövli. Það hafa allir. En það skilja ekki nema sumir myndasmiði eins og mig.

B: Já, það er satt. Þú ert frekar torskilinn.

M: Jæja, er það?

B: Já, það finnst mér.

M: Það geta bara sumir hugsað í myndum.

B: Nú?

M: Já, sumir hafa myndskynjun en aðrir ekki.

B: Og ég hef semsagt ekki slíka skynjun?

M: Jú, kannski smá.

B: Mér finnst nú tíðarandinn ráða þessu að talsverðu leyti. Nútildags er til siðs að segja allt í myndum eða hreyfimyndum. Sama hvaða bull er um að ræða. Aðallega er það vegna leti.

M: Jæja. Þetta segirðu bara af því að þú skilur illa myndmál. Jú, tíðarandinn ræður nokkru. Menn skilja myndmál miklu betur nú en áður. Það er framför en ekki leti.

B: Mér finnst það bara leti að geta ekki tjáð hugsanir sínar nema með því að ýta á takka og láta einhverja vél ákveða hvað er sagt. Halda því svo fram í fullri alvöru að ein mynd segi alltaf meira en þúsund orð. Gott ef það er ekki mest misnotaði málshátturinn ever.

M: Nú?

B: Já. Það er alveg eins hægt að segja að eitt orð segi stundum meira en þúsund myndir. Þetta er allt undir svo mörgu komið.

M: Það er nú oft miklu betra að lýsa einhverju með mynd en orðum.

B: Bara stundum. Nokkur hnitmiðuð orð geta sagt meira en hægt er að segja með þúsund myndum.

M: Það er óþarfi að rífast um þetta. Fólk ákveður svona lagað bara sjálft. Það er mjög ólíkt að þessu leyti.

B: Það getur vel verið. Mér finnst orð bara merkilegri en myndir.

M: Myndir eru miklu listrænni.

B: Huh. Sér er nú hver listrænan.

M: Já. Ljós og skuggar. Litir og litbrigði. Myndbygging og ótal atriði önnur hafa áhrif.

B: Geta skrif ekki verið listræn?

M: Jú, kannski. Stundum.

B: Eiginlega alltaf. Finnst mér.

M: Það er nú misskilningur.

B: Jæja. Sleppum listrænunni. Sleppum lýsingunni og litbrigðunum. Það geta allir tekið ljósmyndir.

M: Það geta líka allir skrifað.

B: Nú. Er það? Ég kalla það nú varla skrif. Bablið í sumum.

M: Eins er það með myndir. Þær eru nú ekki allar merkilegar.

B: Mér finnst þær allar vera eins.

M: Nú. Þú ert þá svona vanþroskaður.

B: Já einmitt. Eins og fleiri. Þroskaheftur kannski?

M: Já. Hvað myndir snertir.

B: Af hverju ertu þá að tala við mig. Ef ég er svona þroskaheftur.

M: Þú ert það ekki neitt.

B: Nú? Þú sagðir það samt.

M: Nú ertu orðinn reiður og þá er ekkert hægt að tala við þig.

B: Jæja.

Löng þögn.

M: Mér finnst nú samt gaman að taka myndir.

B: Og þú ert svosem ágætur í því.

M: Má ég þá kannski hafa tvær í hverju bloggi hjá þér?

B: Kemur ekki til mála.

M: Kannski eina á hver þúsund orð.

B: Ha?

M: Já. Svona eina mynd á hver þúsund bloggorð.

B: Þú meinar það.

M: Já, einmitt.

B: Ég reyni alltaf að hafa bloggin stutt. Það er þá helst í svona leikritum eins og þessu sem þau verða svolítið löng því greinaskilin eru svo mörg og setningarnar stuttar.

M: Ég skil.

B: Við skulum segja að það megi íhuga að leyfa þér að hafa fleiri myndir en eina ef bloggin hjá mér eru óhóflega löng.

M: Segjum það þá.

B: Já, já.

IMG 3010Hér er stokkið af mikilli list og lendingarstaðurinn athugaður um leið.

IMG 2988Jæja, en er hegningarhúsið kannski til sölu?


Bloggfærslur 20. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband