1113 - Blogg vs. fésbók

Því segi ég það. Bloggið er betra en árans fésbókin. Hún hentar samt ágætlega til sumra hluta. En séu menn haldnir messufíkn eins og ég þá er bloggið betra. Þetta með messufíknina tengist þó ekki Guðsorði. Ég er heldur á móti því en finnst gaman að messa yfir fólki og er vanur því. Semsagt einskonar besservisser. Verst hvað fáir nenna að kommenta hjá mér. Skil það samt vel. Ekki kommenta ég víða. Les þó talsvert af því sem á Netið fer. Fréttir líka. 

Gera má greinarmun á bloggi og greinaskrifum. Sumir sem látast vera að blogga eru í rauninni að skrifa greinar. Slík blogg les ég oft. Einkum ef greinarnar eru ekki of langar. Ef þær eru það þreytist ég gjarnan og hætti. Ímynda mér að það sé vegna þess að ég veð oftast úr einu í annað sem fólk les bloggin mín. Nú er ég farinn að skilgreina blogg. Blogg er bara það sem ég segi að sé blogg. Svona vinna besservisserar.

Er búinn að finna ný nöfn á Facebook. Fjasbók gæti hún sem best heitið eða til dæmis Skvaldurskinna. Annars dettur mér jafnan í hug málshátturinn sem er einhvernvegin svona: „Kært barn hefur mörg nöfn." Það er alveg rétt. Ef menn hafa nenningu til að fjasa um nafnið á fyrirbrigðinu þá finnst þeim það einhvers virði.

Minntist á trúmál í síðustu færslu. Það var eins og við manninn mælt, margur þurfti að kommenta. Rök eru að mestu ónýt í trúmálaumræðu, þessvegna verður hún oft svona illvíg. Bíð eftir bókinni um netofbeldið.

Tölvur og tölvutækni allskonar skipar æ stærri sess í lífi nútímmannsins. Margt sem ekki þekktist fyrir nokkrum áratugum þykir sjálfsagt núna. Ætla ekki í neina upptalningu á slíku, en þessi þróun á mikinn þátt í þeim lífsgæðum sem við Íslendingar höfum notið undanfarið. Nýjungagirni okkar er talsverð og stundum sjáumst við ekki fyrir og ýmislegt fer aflaga. Nú er ég farinn að nálgast hrunumræðu og stjórnmál svo það er best að hætta.


Bloggfærslur 19. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband