1112 - Trúmál enn og aftur

Ég þykist vera búinn að sjá af hverju trúmáladeilur fara oftast út í einhverja vitleysu. Flestir vilja eingöngu ræða slík mál útfrá einhverju einu sjónarmiði. Verða gjarnan mjög einstrengingslegir ef aðrir vilja ekki fallast á það. Jafnvel æstir og ofsafengnir. Séra Baldur í Þorlákshöfn segir að trúardeilur þeirra vantrúarmanna séu lítils virði og gefur í skyn að þeir séu einstrengingslegir í hugsun.

Kristinn Theódórsson vill til dæmis alltaf ræða trúmál en rökræðurnar verða að vera á hans forsendum. Þá getur hann notið sín. Grefillinn gerði þá reginskyssu að fallast á (óbeint þó) að Kristinn stjórnaði umræðunum í kappræðum þeirra um daginn.

Nú er ég kannski að vekja upp mál sem menn voru loksins búnir að svæfa að mestu. Það verður bara að hafa það. Ekki er ég lausari við að vera einstrengingslegur í hugsun en aðrir. Trúmáladeilur finnst mér vera eins og ég segi að þær séu. Amen.

Illugi Jökulsson segir í Trésmiðju sinni á DV.is eftirfarandi:
"Þetta stöðuga tusk við lögregluna af þessu tilefni gerir alla vega lítið til bæta málstað níumenninganna."

Þarna er ég ósammála Illuga. Meðan einhverjir nenna að mótmæla þessari heimsku sem komin er frá Alþingi Íslendinga er von til þess að vitleysan verði stöðvuð. Dómari á ekki að þurfa að úrskurða um svona lagað. Réttur til mótmæla er skýlaus.

Neikvæðni er auðveld. Jónas Kristjánsson segir að löggan sé ofbeldishneigð. Alhæfingar ganga oft vel í fólk. Skapa jafnvel stundarvinsældir. Auðvelt er að finna dæmi um hitt og þetta og alhæfa útfrá þeim. Til að breyta þjóðfélaginu þarf þó samningsvilja og sanngirni. Sjá málin frá fleiri hliðum en einni. Gagnrýnisleysi og meinleysi hverskonar er þó hættulegt líka. Svartsýnismenn eins og Jónas eru vissulega nauðsynlegir. Svo skrifar hann svo fjandi vel.

Oft má segja það sama um Sigurð Þór Guðjónsson og Jónas. Hann skrifar þó miklu sjaldnar en hann og er jafnvel á móti blogginu líka. Hefur samt þennan sama sans fyrir því sem skiptir máli og er ekki síður gagnrýninn og vinstrisinnaður en Jónas. Hávær mótmæli eru líka ær og kýr vinstri skribenta. Hægri sinnuðum skrifurum verður það oft á að reyna að verja það sem óverjandi er.


Bloggfærslur 18. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband