6.7.2010 | 00:10
1071 - Fésbók, Ólafslög o.fl.
Alltaf er ég að læra betur og betur á þessa blessaða Fésbók (eða Fasbók eins og Páll Bergþórsson og fleiri vilja kalla hana). Meira að segja Farmville er hætt að trufla mig eins mikið og áður. Bréfskákin er það sem ég sinni mest þarna og þó ég hafi um daginn verið lækkaður um meira en 500 stig þar þá er mér alveg sama. Þetta var útaf einhverjum misskilningi sem alveg eins getur verið mér að kenna.
Linkaðar myndir eru ekki minn tebolli. (allra síst í athugasemdum - þar er það of flókið mál) Hef samt notað slíkt en það vofir alltaf yfir manni að linkfjárinn bendi á eitthvað annað en til var ætlast. Veit að þetta er langsótt og stutta skýringin er sú að ég nenni helst ekki að linka í myndir annarra. Ég er ekki svona heiðarlegur þó ég vildi gjarnan vera það. Það sem viðgengst á Netinu í dag er það sem viðgengst í kjötheimum á morgun.
Verðtrygging og skyld mál eru ekki til vinsælda fallin hér á blogginu. Þeir sem um þau skrifa eru fyrst og fremst að láta ljós sitt skína. Eins gott að það ljós sé sæmilega skýrt. Mitt hefur varla verið það hingað til. Ég man vel eftir ástandinu sem hér var um og fyrir 1980. Þá var það orðið augljóst að sú kynslóð sem öllu réði var önnum kafin við að stela þeim peningum sem aðrir voru svo vitlausir að geyma á banka.
Með svokölluðum Ólafslögum sem mig minnir að hafi verið sett um þetta leyti var verðtryggingin fundin upp. Hún leiðrétti talsvert þá hrikalegu skekkju sem komin var upp en var látin lafa áfram án allra lagfæringa og er nú farin að valda vandræðum. Auðvitað eiga þeir sem fyrir verðbólgunni verða í formi hækkaðra verðbóta enga heimtingu á því að fá hlut í því sem hæstiréttur hefur nú dæmt gengistryggingarfólki.
Ef peningar eru hinsvegar til og sanngirni gætt ætti þó að bæta þeim í einhverju sem skaðast hafa á verðtryggingunni ekki síður en öðrum. Kynslóðir skarast að sjálfsögðu en þær sveiflur sem verða (að óþörfu) í þjóðfélaginu vegna verðbóta, gengismunar og þessháttar ætti ekki að nota til að auka viðsjár milli þeirra.
Ef til vill má líkja hinu íslenska ástandi við pendúlslátt. Pendúllinn hefur sveiflast mjög langt frá Ólafslögunum og því ástandi sem þá ríkti og hlýtur að fara til baka. Hvernig og hversu langt er bara spurningin.
Það væri að æra óstöðugan að ætla sér að tína upp undarlegheitin og villurnar hjá fjölmiðlum landsins. Í stuttu máli sagt þá eru þeir ekki nógu góðir og ekki er annað að sjá en prófarkalestur sé með öllu aflagður hjá þeim. Sé um vefmiðla að ræða þá er oft búið að leiðrétta bögumælin áður en aðfinnslan kemur. Hér koma nokkur fyndin dæmi um það sem ég á við. Flest þeirra eru mjög nýleg.
Í frásögn af tónleikum þar sem leitað var á tónleikagestum að eiturlyfjum var sagt að: Lögreglan hefði verið með hundinn í hurðinni." Það er svosem ekkert nýtt að orðunum dyr og hurð sé ruglað saman en blaðamenn ættu ekki að gera þessi mistök.
Í einhverri frásögn um daginn var sagt að drengur sem festist í sandbleytu hefði: Staðið í sandinum upp að mitti á öðrum fæti". Óskiljanleg ósköp.
Í frásögn af mótmælunum við seðlabankann var sagt að einhver hefði: Stuggað við aðaldyrunum." Vonandi að þær hafi ekki fælst alvarlega við það.
Blaðamenn eru oft ekki vel að sér í landafræði. Man ekki eftir neinum ákveðnum dæmum en oft hefur mér fundist að í þeirra huga næði t.d. Hellisheiðin alveg niður að Rauðavatni.
Eftirfarandi er orðrétt frásögn af visi.is: Andri Snær var í dágóðan tíma að elta köttinn til að koma honum út úr íbúðinni. Hann reyndi að fá köttinn til að fara út en hann hljóp alltaf frá honum. Hann fór meðal annars upp á sjónvarpið inn í stofu og braut styttu og kertastjaka. Hvers vegna Andri Snær fór uppá sjónvarpið er mér hulin ráðgáta.
Þetta er orðið ógislega langt hjá mér svo nú er ég hættur og farinn að sofa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)