1096 - Jónína Ben

Sölvi Tryggvason fékk fína auglýsingu fyrir bókina sína um Jónínu Benediktsdóttur í Kastljósi sjónvarpsins. Einhvers staðar las ég að Sölvi hefði fengið að fara með Jónínu og Gunnari í Krossinum í brúkaupsferðina þeirra því hann átti svo margt vantalað við Jónínu. 

Hún hefur eflaust frá mörgu að segja. Hefur vissulega verið meira á milli tannanna á fólki en algengt er um kvenfólk. Hugsjón Sölva er þó eflaust að græða sem mesta peninga í jólabókaflóðinu. Ekkert rangt við það. Sjálfur spara ég mér álitlegar fúlgur árlega á því einu að skipta fremur við bókasöfnin í landinu en bókabúðirnar.

Mér finnst hins vegar að sjónvarp allra landsmanna þurfi að hugsa sig vandlega um áður en það ákveður að taka á þennan hátt þátt í kapphlaupinu umhverfis gullkálfinn. Ekki hefðu unnendur RUV þó verið neinu bættari þó Stöð 2 hefði birt þetta viðtal. Já, það er vandlifað í henni verslu.

Það er ekki nóg með að mestallt lesefni sé orðið svo ódýrt núna að engu tali tekur heldur er það sama að segja um hvers kyns myndefni og tónlist með meiru. Allt á þetta sér stað vegna tölvutækninnar. Það er hún sem er að breyta heiminum eins og við þekkjum hann. Það eru samt alltaf einhverjir sem eru tilbúnir að borga jafnmikið og áður til þess eins að geta verið örlítið á undan náunganum í kjaftasögum og öðru og er það vel.

Á meðan er fjöldi fólks í þriðja heiminum skilinn eftir vonlaus með öllu. Við Íslendingar volum og vælum yfir því að geta ekki lengur farið oft á ári til útlanda að frílysta okkur á sama tíma og milljónir barna láta lífið af vatnsskorti einum saman. Getum ekki einu sinni fengið af okkur að breyta orðalagi á skýrslum hjá Sameinuðu þjóðunum.


Bloggfærslur 31. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband