1085 - Tónlist og trúmál

Sigurður Þór Guðjónsson getur skrifað um tónlist eins og það sé eitthvert vit í henni. Auðvitað er þetta bara háttbundinn hávaði sem margir þykjast geta lesið allar fjárann í. Láta sér jafnvel detta í hug að spá í hvað tónskáldið meinar. Eins og hægt sé að setja það í orð. Þá væri nær að semja greinargerð um tónverkið og láta það duga.

Svokallað tóneyra hef ég aldrei haft. Hróðmar kennari sem eitt sinn kenndi okkur söng þegar ég var í barnaskóla úrskurðaði mig laglausan. Það var stórgott því þá þurfti maður ekki að mæta í söngtíma og gat í staðinn ærslast eitthvað eða jafnvel farið í sund. Einhverjir voru í sama bát og ég að þessu leyti. Man eftir að Lalli Kristjáns var það. Atli Stefáns var hinsvegar látinn reyna aftur. Man ekki hvort betur tókst til hjá honum í það sinnið.

Á þennan hátt losnaði ég við alla söngónáttúru og lét duga að hreyfa varirnar pínulítið þega skólasöngurinn var sunginn á hverjum morgni og fáein önnur lög að auki. Snemma hef ég farið að hafa gaman af textaútúrsnúningum því textinn við eitt lagið byrjaði alltaf svona hjá mér: „Nú blikar við sólarlag sætsúpan köld." Annað byrjaði hinsvegar svona: „Eldgamalt ýsubein, hrökk onaf sveskjustein, langt út á sjó."

Best eru blogg þegar bloggarinn er ekkert að hugsa um lesendur sína. Lætur bara eins og hann sé að tala við sjálfan sig. Man eftir manni á elliheimilinu Ási í Hveragerði sem gekk mikið fram og aftur um göturnar þar í hrókasamræðum við sjálfan sig. Þetta var fyrir daga pínulitlu og handfrjálsu farsímanna sem láta notendur sína líta út eins og þeir séu að tala við sjálfa sig.

Kristinn Theódórsson og Grefillinn sjálfur eru að fara í gang með trúmálaumræðu á bloggi Kristins sem hann kallar „Gruflað og pælt". Þar verður rætt um hvort trúleysi sé trú og reynt að hafa svolitla stjórn á galskapnum. Mín reynsla er að trúmálaumræður fari oftast út um víðan völl og skili engu. Þeir ætla að reyna að hafa þetta bæði kurteislegt og „under control". Vona bara að það takist. Veit að talsvert margir munu fylgjast með þessu.

Yfirleitt er ég afskaplega seinþreyttur til undirskrifta. Er til dæmis ekki enn búinn að ganga í Ómarshópinn á fésbókinni hvað sem síðar verður. Sumir eru svo undirskriftaglaðir og mótmælasinnaðir að það tekur engu tali. Vil helst hugsa mig vandlega um áður en ég tek þátt í svona löguðu. Veit heldur ekki betur en það sé í september í haust sem Ómar á afmæli. Vonandi verð ég búinn að hugsa mig um þá.

Uppá síðkastið hefur veðrið verið þannig að ekki hefur verið hægt að haldast súrmúlandi við innandyra. Nokkrar úðflúgtir höfum við því farið í og ljósmyndalager minn hefur vaxið að undanförnu.


Bloggfærslur 20. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband