1078 - Skák og mát og kattaumræður

Þegar maður hefur einu sinni ánetjast tölvuskrapatólunum þá er maður aldrei búinn að öllu sem maður ætlaði að gera þar eða réttara sagt á árans Internetinu. Sama hve hraðvirk og fljót tölvan er að öllu. Alltaf verður eitthvað til að glepja mann og maður fer að lesa einhvern fjárann eða skoða og gleymir því sem maður ætlaði að gera. Rétta ráðið er að forðast þessa ánetjun. Hún er að minnsta kosti eins hættuleg og ofátið sem flestir (sérstaklega tölvuaðdáendur) eru búnir að tileinka sér. Nú er ég semsagt farinn að predika og best að fara út til að leika sér (eða eyða peningum).

Allt er að verða vitlaust útaf köttum (eða fótbolta eða bara Magma Energy). Reyndar vekja kettir mestan áhuga minn af ofantöldu. Í athugasemdum við bloggið mitt um bekkjarmyndina sem ég setti upp um daginn eru þónokkuð fjörugar kattaumræður en ekkert rætt um myndina þó ég hefði frekar búist við því.

Kattaumræður eru víða og allsekki víst að ég hafi séð þær allar. Það er aðalgallinn við Internetið að maður getur aldrei verið viss um að maður sé búinn. Í gamla daga las maður sinn Mogga (eða jafnvel Þjóðvilja) og henti honum svo.

Og svo var Karpov að flækjast á Bahamaeyjum um daginn og ekki sérlega vel tekið. Hann var þar í tilefni af því að þar var haldið svæðamót. (Bjarni sonur minn er á Bahamaeyjum þessa dagana vegna þess að konan hans er þaðan). Hann býður sig fram til embættis forseta FIDE. (Karpov altsvo).  Annars er fullsérhæft að vera að fjölyrða um þetta hérna. Þeir sem áhuga hafa á skák hafa eflaust lesið um þetta á skákhorninu eða á chessbase.com.

Mikið er ég feginn að menn eins og Loftur Altice Þorsteinsson og Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson eru andstæðir þeim skoðunum sem ég hef haldið fram varðandi ESB. Þetta segi ég vegna þeirra umræðna sem nú fara fram á Moggablogginu og víðar um nýjasta „afrek" Lofts. Man enn skrif hans um að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ættu skilið sömu örlög og Mussolini. Annars finnst mér að ekki eigi að vekja sérstaka athygli á skrifum sem þessum. Velþóknun Moggablokksguðanna á skrifum af þessu tagi er samt undarleg því oft virðast þeir ekki þola mikið.


Bloggfærslur 13. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband