1075 - Bekkjarmynd

bekkurHér er bekkjarmynd frá Miðskólanum í Hveragerði. Veit ekki með vissu hvenær hún er tekin. Líklega í kringum 1957 eða svo. 

Á myndinni eru: Aftasta röð frá vinstri. Einar Sigurðsson, Ásgeir Jónsson, Atli Stefánsson, Sæmundur Bjarnason, Jóhann Ragnarsson, Theódór Kristjánsson og Guðmundur Bjarnason.

Næstaftasta röð talið frá vinstri: Guðrún Gunnarsdóttir, Ágúst Guðmundsson, Þórhallur Hróðmarsson, Magnús Karlsson, Frank Michelsen, Jósef Skaftason og Kristinn Antonsson.

Næstfremsta röð talið frá vinstri: Jónína Jónsdóttir, Auður Sigurðardóttir, Sigurbjörg Lundholm, Ástríður Baldursdóttir, Karitas Eyþórsdóttir, Kolbrún Gunnarsdóttir, Erla Traustadóttir og Þyrí Magnúsdóttir.

Fremsta röð frá vinstri: Þórður Jóhannesson, Hjörtur Jóhannsson, séra Helgi Sveinsson, Guðbjartur Gunnarsson skólastjóri ásamt syni og eiginkonu, Guðfinna kennari (man ómögulega hvers dóttir hún var) og Heiðdís Gunnarsdóttir.

Það er ótrúlegt hvað myndir af þessu tagi geta kallað fram margar minningar. Fólkið á þessum myndum stendur manni ljóslifandi fyrir hugskotssjónum með öllum sínum kostum og göllum. Myndin er beinlínis afmarkaður partur úr eilífðinni.

Þessa mynd er hægt að stækka töluvert án þess að hún láti mikið á sjá. Að sjálfsögðu mega allir sem vilja prenta hana út eða afrita með öðrum hætti. Líka væri gaman að heyra frá einhverjum sem muna vel eftir þessu fólki. T.d. til að leiðrétta villur sem eflaust hafa slæðst inn hjá mér, eða til að fá hjá mér afrit af myndinni úr því að ég er búinn að hafa fyrir því að skanna hana. Stærðin á henni er 1,77 MB segir tölvan mér.

Óeðli í Árborg. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson er bloggvinur minn. Oft stóryrtur og orðljótur mjög. Ísraelsvinur og fornleifafræðingur með meiru. Skrifar samt skemmtilega. Nú nýlega skrifaði hann bloggpistil með áðurnefndri fyrirsögn. Hélt fyrst að óeðlið sem hann væri þarna að vísa til væri viðkomandi uppgreftrinum á líki RJF, en svo var ekki.

Óeðlið sem hann var að tala um þarna var kattabandsfréttin sem var í fjölmiðlum um daginn. Alveg er ég sammála honum. Fuglaveiðar katta geta farið fyrir brjóstið á einhverjum og ekkert er einkennilegt við það. Samlíkingin við hunda sem skylda er að hafa í bandi er hinsvegar alveg útí hött. Kettir ráðast ekki á fólk nema þeir séu neyddir til þess.

Og svo er einn helsti og frægasti kattavinurinn hér á Moggablogginu búinn að læsa blogginu sínu. Þetta er að sjálfsögðu Sigurður Þór Guðjónsson. Kannski opnar hann það fljótlega aftur en ég hef áhyggjur af köttunum. Það er ekki nóg að þeim sé hampað af fáeinum fésbókarskrifurum. Meira þarf til.


Bloggfærslur 10. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband