983 - Bloggábyrgð

Ég finn til ábyrgðar. Það eru svo margir sem lesa þessa síðu á hverjum degi. Hvað veit ég nema einhverjir taki mark á því sem ég segi og fari jafnvel eftir því. Sérstaklega þarf ég að fara varlega þegar um pólitísk og umdeild mál er að ræða. Það geri ég samt ekki. Eftirá finnst mér oft að ég hefði getað verið varkárari. 

Brjánn Guðjónsson (brjann.blog.is) talar um bloggara sem ekki leyfa athugasemdir við skrif sín og nefnir ýmis nöfn. Mikið er ég sammála honum. Til hvers er að blogga ef ekki má gera athugasemdir en bloggarinn vill bara messa yfir öðrum. Flestir vefmiðlar hafa opið fyrir athugasemdir. Veit ekki hvort nokkrir lesa þær en það er önnur saga. Mbl.is (Mogginn) kallar þessar athugasemdir reyndar blogg og meðhöndlar þær þannig.

Á dv.is þarf maður að passa hvar maður flækist með kursorinn því vissar auglýsingar eru þannig að þær taka fyrirvaralaust til máls ef farið er með hann yfir þær. Hrekkur maður þá í kút. Finnst það heldur ekki til fyrirmyndar hjá vefmiðlum að ef maður vill skoða fréttir þar í ró og næði þá er ekki að vita nema einhver auglýsingaræpa hellist yfir mann óforvarendis með hávaða miklum. Lágmark ætti að vera að leyfa manni að lesa frétt án hávaða vilji maður það. Kannski er ég bara svona viðkvæmur fyrir hljóðum og óhljóðum hverskonar.

Margt er það sem miður fer
hjá manna sonum.
En minnisstæðast alltaf er
að unna konum.

Minnir að ég hafi gert þessa vísu en er ekki viss. Gömul er hún áreiðanlega. Hef kannski prjónað hluta hennar við eitthvað sem ég hef heyrt eða lesið. Slíkt geri ég oft.

Minntist á hafragraut í færslu um daginn. Með því vinsælla sem ég hef skrifað. Uppskrifin góð. Matargerð er mér ekki lagin. Betri við skriftir. Var ekki vaninn á að nota sykur útá hafragraut þegar ég var lítill. Hafragrautur var skárri en hræringur (skyr og hafragrautur hrært saman - ógeðslegt) Tómt skyr var samt best. (Með sykri). Já, og meðal annarra orða, er búinn að prófa að setja kanel og hunang útá eða útí hafragrautinn eins og mér var ráðlagt í athugasemdum. Það er ágætt.


Bloggfærslur 7. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband