979 - Dómharka og fávitaskapur

Gaman er að lesa blogg annarra. Mikið er skrifað og væntanlega lesið líka. Sölvi talar um dómhörku og Grímur Atlason, eða einhver annar, talar um fávitaskap. Líka um Jónas Kristjánsson sem kallar alla fávita og er naskur á að finna dæmi um slíkt hjá öðrum. Hrannar Baldursson talar um hvernig komast eigi í efstu sætin á Moggalistanum. Svo birta menn myndir af síðum á Facebook bara til að ergja mig því ég hef aldrei viljað skrá mig þar. 

Best er að reyna að vera svolítið öðruvísi en aðrir. Mér líður best þannig. Stundum finnst mér raunar að ég sé ekki nærri nógu ólíkur öðrum en það er önnur saga. Einu sinni þóttist ég vera betur að mér um flesta hluti en allir aðrir. Það er liðin tíð. Núna berst ég við að vera ekki asnalegri en aðrir.

Eins og mig minnir að ég hafi sagt í kommenti hjá Hrannari þá er mín leið til ímyndaðra vinsælda sú að skrifa daglega og númera færslurnar. Svolítið í Ómars Ragnarssonar stílnum. Þó blogga ég ekki eins oft og hann, sem nú þegar bloggar á tveimur stöðum en þyrfti mun fleiri.

Framboð Jóns Gnarr og árangur þess eru merkilegustu tíðindin í þessu tíðindalausa landi. (Tel ekki eldgos og kreppur með). Borgarahreyfingin var eini kosturinn fyrir óánægjuöflin í síðustu Alþingiskosningum en er nú búin að spila rassinn rækilega úr buxunum og sennilega þurfum við einhvern svipaðan og Jón Gnarr í næstu Alþingiskosningum. Fyrirfram er ég alls ekki viss um að hann sé verri en aðrir þó þetta sé auðvitað grínframboð hjá honum. Sumum finnst kannski verst hvað hann er Jesúsinnaður.

Alvöruframboð eru nefnilega alltof alvörugefin. Sérstaklega hjá fjórflokknum sem mætti alveg taka sér ítarlegt frí mín vegna. Hugsið ykkur bara hve mikill munur það væri að vera laus við hann. Gnörrunum mundi auðvitað fjölga og jafnvel misheppnaðir þingmenn slæðast með en ráðherraræflana mætti sækja hvert sem er ef menn vildu endilega að þeir hentuðu bærilega í starf sitt.

Þjóðaratkvæðagreiðslan sem framin var um daginn er alveg gleymd. Nú tala menn bara um eitthvað annað. Til dæmis skötusel og ketti. Tek bara ekki þátt í svona vitleysu.


Bloggfærslur 3. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband