1000 - Já, þúsundasta færslan

Jæja, þá er komið að því. Þetta er hvorki meira né minna en mín þúsundasta bloggfærsla. Það er að segja ef ég hef alltaf númerað rétt. Hef ekki fundið missmíði þar á. 

Kannski er þetta mikið og kannski ekki. Í seinni tíð hef ég alltaf bloggað á hverjum degi hafi ég ekki verið mjög upptekinn við annað. Það sem auðveldar mér að halda númeraröðinni réttri er að ég byrja alltaf á næstu færslu strax og ég hef sett eina upp. Oftast er það auðvitað bara númerið, en með því verður það þó rétt.

Hef tekið eftir því að fólk horfir helst ekki á ljósmyndir hjá öðrum núorðið. Lætur nægja að skoða sínar eigin. Allir (að minnsta kosti flestir) eiga jú myndavélar og mikill fjöldi farsíma er með myndavél. Áður fyrr var jafnvel til siðs að myrkva stofur og sýna skuggamyndir þegar gestir komu. Slíkt þætti eflaust dónaskapur nú á tímum stafrænna myndavéla. Útaf þessu hef ég tekið upp þann sið að smygla öðru hvoru myndum með blogginu mínu. Þá geta þeir sem það lesa illa komist hjá því að sjá þær. Svo er líka möguleiki að einhverjir séu svo spenntir fyrir myndunum að þeir komi þeirra vegna og lesi bloggið mitt í leiðinni.

Umræðan um hrunið, Icesave og allt það einkennist of mikið af hatri, ofstæki og leiðindum. Jú, stjórnmálamenn brugðust einsog margir aðrir í aðdraganda hrunsins og jafnvel í hruninu sjálfu líka. Útrásarvíkingarnir stálu fjármunum okkar en samt sem áður finnst mér óþarfi að tala eins og sumir gera. Það er ekkert unnið með því að hvetja aðra til sem mestrar reiði. Hún skilar engu. Eyðileggur þá sem henni eru haldnir og er verkfæri andskotans eins og meistari Jón Vídalín sagði forðum.

Og myndir:

IMG 1654Tré ársins 2005. (svo segir á skilti við tréð)

IMG 1659Læks-mynd úr Kópavogi.

IMG 1678Þessi tré hafa víst verið fyrir einhverjum.

IMG 1687Hálfa húsið við Víghólastíg.

IMG 1688Skarðsheiðin í skini sólar.


Bloggfærslur 24. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband