997 - Davíð í stað Bjarna?

Nei, ég held ekki. Altalað er að Bjarni Benediktsson sé að hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins og leit standi yfir að eftirmanni hans. Það getur vel verið rétt en ég held ekki að Davíð Oddsson sé rétti maðurinn í það embætti eða hafi möguleika á að fá það þó hann vilji. Veðja frekar á Kristján Þór. Annars ráða sjálfstæðismenn þessu sjálfir og þurfa ekki að fara eftir því sem öðrum finnst.  

Skamma stund verður hönd höggi fegin. Þeir sem mærðu Ólaf Ragnar sem mest fyrir að skrifa ekki undir Icesave-lögin óskapast nú yfir því að hann skuli hafa sagt sannleikann í einhverjum sjónvarpsþætti. Það er greinilega vandasamt að vera forseti. Kannski hann eigi bara skilið að fá þessi háu laun sín.

Það er ekki sanngjarnt að ég skuli alltaf þurfa að vera ég. Miklu eðlilegra væri að geta flakkað á milli sjálfa. Auðvitað væru einhver vandræði með það þegar margir væru sá sami og sumir með ekkert sjálf en eflaust mætti ráða framúr því. Mestu vandræðin væru að koma þessu á.

Hef undanfarið verið að lesa bók sem heitir „Sagnabrot Helga í Hólum" sem er að stofni til úrval úr greinum Helga Ívarssonar í Sunnlenska fréttablaðinu árin 2004 til 2008. Afar fróðlegur og skemmtilegur lestur.

Finnst fésbókin ennþá dálítið ruglandi. Samþykki þá sem ég þekki og vilja gerast vinir mínir en veit lítið um hvað ég á að gera næst eða hvernig þetta virkar alltsaman. Finn eflaust útúr því fljótlega.

Hjá hundum er veröldin eitt völundarhús af lyktarferlum. Sjón og heyrn koma svo inn með meira og minna ruglingslegar myndir sem taka þarf tillit til. Kettir heyra betur en flest dýr og eiga ekki í neinum vandræðum með að vita nákvæmlega hvaðan tiltekin hljóð koma. Þetta með að þeir sjái í myrkri er ekki alveg rétt. Þeir þurfa hinsvegar litla birtu til að sjá sæmilega.


Bloggfærslur 21. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband