977 - Mér heyrðist svartur ullarlagður detta

Maður kom á bæ og kvaðst vera nær því blindur og þess vegna ekki geta unnið neitt á kvöldvökunni, sem þó var vani hjá næturgestum. Hjálpsamur var hann þó og allt í einu segir hann við eina af konunum sem sátu í baðstofunni við tóvinnu. 

„Mér heyrðist svartur ullarlagður detta." Er það haft að orðtaki síðan.

Ódýrt slapp ég frá blogginu í gær. Endurbirti gamlar færslur. Það er ennþá betra en að vísa í færslurnar eins og sumir gera.

Hver er munurinn á Jóhannesi H. Laxdal og Jóhannesi Laxdal Baldvinssyni? Bara að spögúlera. Nenni ekki að fletta þeim upp í þjóðskrá, gúgla þá eða beita öðrum hefðbundnum aðferðum. Er ekki skráður á Facebook. Moggabloggið virðist þekkja báða.

Vorið er greinilega á næsta leyti. Smáfuglarnir farnir að láta í sér heyra. Ennþá er samt kalt og vel gæti átt eftir að koma hret (Páskahret). Fyrir austan var oft talað um Sýslufundarhret. Veit ekki hvort það er enn við lýði.

Jens Guð er að verða einn af uppáhaldsbloggurunum mínum. Kann að meta sögurnar hans. Ein er á boðstólum núna fyrir páskana og linkar á fleiri. Matar- og neytendaskrifin hans eru líka oft ágæt. Leiðist samt hljómsveitadellan í honum.

Nú mega kvótakóngarnir fara að vara sig. Ætli Jóhanna smali þeim bara ekki saman eins og óþægum köttum? Kattasmölunarmyndbandið sem Steini Briem setti link á hér í athugasemdunum í gær var ágætt. Ömmaliðið virðist ætla að sætta sig við frýjunarorð Jóhönnu þó þau hafi farið svolítið fyrir brjóstið á þeim í upphafi. Ætli stjórnmálahávaðinn verði ekki bara þolanlegur um þessa páska.

En það er hávaði annars staðar. Er að horfa á gosið á Fimmvörðuhálsi í beinni útsendingu þar sem nýja sprungan opnaðist í kvöld og má ekki vera að því að skrifa mikið núna. Þetta er líka orðið ágætt.


Bloggfærslur 1. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband