976 - Páskafrí og dýradráp

Ég er að hugsa um að blogga ekki mjög mikið um þessa páska. (Gæti þó brugðist).

Dýradráp bar á góma í kommentum hjá mér alveg nýlega. Datt þessvegna í hug að birta hér tvær gamlar færslur frá mér (Reyndar ekki eldri en svo að þær eru skrifaðar í febrúar 2009.

Þeir sem muna eftir þessu þurfa ekki að lesa lengra. Ekkert nýtt og engu breytt.

 

Sigurbjörn Sveinsson læknir skrifar bloggpistil hér á blog.is sem hann nefnir "Veiða og sleppa". Þar ræðir hann um þann sið laxveiðimanna að veiða sama fiskinn helst margoft og pína hann sem mest. 

Á sama hátt og golfíþróttin er oft notuð sem afsökun fyrir hollri útivist eru hvers kyns veiðar oft einskonar afsökun fyrir heilbrigðum ferðalögum og náttúruskoðun. Það er þó mun viðfelldara að sjá menn lemjandi litla bolta en drepandi allt og alla.

Maðurinn er herra jarðarinnar og ber því ábyrgð á öðrum dýrategundum. Sportveiðar af öllu tagi eru forkastanlegar. Það er hægt að réttlæta það sem fram fer í sláturhúsum með nauðsyn og að efnahagslegu áhrifin séu hagstæð. Vel er þó hægt að komast hjá því að borða kjöt eins og grænmetisætur vita best.

Tekjur veiðifélaga af veiðileyfum eru auðvitað efnahagsleg áhrif. Þær tekjur eru þó oft í litlu samræmi við þær afurðir sem úr ánum koma. Netaveiðar eru heilbrigðari að því leyti að þar er meira samræmi milli tilkostnaðar og afraksturs.

Með því að hirða veiðidýr og nota eru menn oft að búa sér til afsökun á villimennskunni. Við "veiða og sleppa" aðferðina er sú afsökun horfin. Erfitt er að sjá að nokkuð vaki fyrir þeim sem þetta stunda annað en að pína sem mest. Þetta getur líka orðið til þess að fleiri fái tækifæri til að láta undan veiðieðli sínu sem kallað er. Afrakstur veiðiáa í peningum talið verður meiri með þessu og þannig er þetta græðgis- og gróðahyggja af útrásarvíkingatoga.

Það er bara þjóðsaga að manninum sé veiðieðlið í blóð borið. Sportveiðar eru morð og ekkert annað. Auðvitað ekki sambærilegar við mannsmorð en argasti ósiður samt.

Ég hef ekkert á móti veiðimönnum og þekki þá marga. Heimspekin að baki veiðunum hugnast mér bara ekki

 

Blogg mitt frá í gær virðist hafa vakið athygli. Heimsóknir eru með meira móti segir teljarinn. Kannski er það einkum fyrirsögnin og fyrstu línurnar sem fólk tekur eftir. Hvað veit ég?

Mín grundvallarafstaða til allra veiða er sú að aldrei skuli taka líf að ástæðulausu. Sú ástæða að skemmtilegt sé að drepa finnst mér ótæk. Við drepum flugur og önnur kvikindi af því að þau pirra okkur og valda óþægindum. Húsdýr af ýmsu tagi eru einnig drepin til matar. Sumum finnst sú ástæða ekki merkileg en mun betra er að sætta sig við hana en skemmtanagildið eitt.

Það má endalaust deila um dýravernd. Mörg sjónarmið eru uppi. Þegar konur kasta klæðum í nafni dýraverndar er verið að rugla saman sjónarmiðum og vekja athygli á einu máli með allt öðru.

Einn af þeim sem gerði athugasemd við grein mína í gær taldi að auka mætti veiðar til matar og það getur vel átt við hér á Íslandi. Ég vil hinsvegar gjarnan horfa hnattrænt á málin og tel að svo geti alls ekki verið í heiminum sem heild. Mannkynið væri miklu betur á vegi statt hvað fæðu snertir ef menn legðu sér almennt ekki kjöt til munns. Alltof stór hluti ræktanlegs lands er notaður til að framleiða gras fyrir grasbíta sem síðan eru étnir.

Fiskveiðar í sjónum eru okkur Íslendingum mikilvægar. Veiðar á landi hafa núorðið takmarkaða efnahagslega þýðingu. Svo mun einhverntíma einnig fara með sjóinn. Hann mun samt lengi taka við og ástæðulaust er vonandi fyrir okkur Íslendinga að hafa áhyggjur af framtíð fiskveiða. Þó verðum við að einhverju leyti að taka tillit til umheimsins og eru hvalveiðar dæmi um það.


Bloggfærslur 31. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband