969 - Molar um málfar númer 7

Þetta á að vera málfarsblogg og til að vekja athygli á því hermi ég svolítið eftir Eiði Guðnasyni í fyrirsögninni. Ekki er það þó illa meint - fyrirgefðu Eiður.

Sæmundarháttur í bloggi er að mínum skilningi að skrifa um blogg. Að skrifa um málfar er þá Eiðsháttur. Og held ég svo áfram.

Eiður Guðnason skrifar oft um málfar og fylgist vel með málfari í fjölmiðlum. Gagnrýninn finnst mér hann þó úr hófi og smámunasamur. Tilgangi sínum nær hann þó líklega. Þeir sem áhuga hafa á að vanda mál sitt lesa gjarnan það sem hann skrifar og kætast mjög ef honum verður á.

Fyrstu greinina í dagblað skrifaði ég fyrir tvítugsaldur svo mikð vatn hefur runnið til sjávar síðan. Þá var ekkert Net og ritstjóri Vikunnar (hugsanlega Sigurður Hreiðar) hafði neitað að birta greinina þó hún fjallaði um efni sem þar hafði verið. Eykon (Eyjólfur Konráð Jónsson) vildi þó birta hana, ef ég breytti henni svolítið. Slíkt var sjálfsagt.

Í þann tíma og lengi á eftir var prófarkalestur tíðkaður á dagblöðunum og sjaldan kom fyrir almenningssjónir annað en sæmilega vel gerður texti.

Með tilkomu Netsins (með stórum staf) breyttist þetta allt. Allir gátu skrifað eins og þá lysti. Lesendur voru að vísu fremur fáir framanaf en það skipti ekki öllu. Til að sem flestir skrifuðu á þennan nýja miðil voru menn hvattir til að skrifa þó kunnátta í meðferð máls væri kannski ekki mjög mikil. Ekki var vel séð að fundið væri að málfari.

Ég er enn dálítið hallur undir þetta sjónarmið. Með harðri gagnrýni á málfar er komið í veg fyrir að margir skrifi sem vissulega ætti að heyrast í. Síst af öllu vilja menn gera sig að athlægi. Að hæðast að mönnum fyrir að skrifa ekki vel er beinlínis illa gert. Þeir sem í vinsæla og útbreidda fjölmiðla skrifa eiga þó skilið að vera teknir í gegn en þegar farið er að gagnrýna bloggara fyrir að skrifa ekki kórrétt er skörin farin að færast upp í bekkinn og beinlínis verið að vinna gegn því að sem flestir tjái sig.

Stjórnmál eru mörgum hugleikin og það er ósköp lítið að geta aðeins beitt sér á þeim vettvangi á fjögurra ára fresti með því einu að tala yfir hausamótunum á vinum og kunningjum og kjósa svo. (Rétt eða vitlaust eftir atvikum.)

Eins og búast mátti við á ég í erfiðleikum með að hemja mig þegar ég skrifa um málfar en er þó þeirrar skoðunar að því styttri sem texti er þeim mun áhrifameiri geti hann verið.


Bloggfærslur 24. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband