942 - Hverjir stjórna Íslandi?

Hverjir eru það eiginlega sem stjórna á Íslandi? Ekki er það ríkisstjórnin. Ekki er það stjórnarandstaðan. Ekki er það Alþingi. Ekki er það forsetinn. Ekki er það Baugur. Ekki eru það slitastjórnir bankanna. Ekki er það pressan. Ekki eru það bloggarar og stjórnmálaskribentar. Kannski það séu bara Bretar og Hollendingar núna eftir að Amríkanar nenna þessari vitleysu ekki lengur. Nú, eða útrásarvíkingarnir. Þeir eru allavega að reyna að hrifsa til sín stjórnartaumana. Almenningur ræður engu frekar en venjulega.

Einn er sá maður sem gjarnan vill verða frelsari fósturjarðarinnar í De Gaulle stíl. Það er að segja ef honum tekst að hræra nógu mikið í kjósendum og koma í veg fyrir að margboðuð hrunskýrsla sjái nokkurntíma dagsins ljós.

Gæti trúað að ríkisstjórnin ætli sér að ráða því að þjóðaratkvæðagreiðslan fari ekki fram. Það gæti vel orðið það síðasta sem hún réði. Almenningur lætur ekki bjóða sér hvað sem er.

Létt bank á klósetthurðina.

„Ekki sturta niður þegar þú ert búinn."

Andskotinn, hugsaði Jakob. Ekki fær maður einu sinni að skíta í friði.

„Nú. Af hverju ekki?"

„Ég þarf að skoða hvað er eiginlega að þér", svaraði mamma hans.

„Alt í lagi", sagði Jakob og reyndi að vera ekki mjög reiðilegur í röddinni. Skeindi sig svo og þveitti pappírnum í klósettið. Stóð upp og sturtaði niður með tilþrifum.

„Æ, af hverju gerðirðu þetta?"

„Ég steingleymdi þessu bara." sagði Jakob og skaust útaf klósettinu. Fór í úlpuna sína og snaraðist út án þess að kveðja.

Þetta á að verða annaðhvort örsaga, smásaga, skáldsaga eða kvikmyndahandrit. Einhvern vegin verður að byrja . Er ekki frá því að þessi hugmynd um að sturta ekki niður sé frá Philip Roth komin. Man að ég las einhverntíma hrafl úr „Portnoys Complaint" og gott ef það var ekki einhver svona sena þar.

Auðvitað á maður samt ekki að vera að koma með svona yfirlýsingar ef maður ætlar í alvöru að skrifa eitthvað bitastætt. Betra að láta það bara koma.

Mín hugmynd er sú að Jakob sé bankamaður og  undir hælnum á mömmu sinni sem hann býr hjá. Annars á þetta bara eftir að koma í ljós.


Bloggfærslur 25. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband