29.12.2010 | 00:33
1245 - Jólalok
Jóhannes Laxdal kallar mig sjálfhælinn bloggara. Það getur vel verið rétt hjá honum. Ég þykist samt hæla sjálfum mér á svolítið Þórbergskan hátt og þannig að ekki sé nauðsynlegt að taka það alvarlega. Annars hef ég yfirleitt mjög gaman af að lesa kommentin við bloggin mín. Það eru oft þeir sömu sem kommenta en það gerir ekkert til. Ef kommentin koma mjög seint geta þau að vísu misst marks.
Er að lesa bókina eftir Sigurð A. Magnússon sem ég minntist á í síðasta bloggi. Mér finnst hann vera sjálfhælinn á allt annan hátt en ég. Hressandi samt að lesa slíkt. Ástæðulaust að leyna afrekum sínum. Ef aðrir hrósa manni ekki verður maður að gera það sjálfur. Erfitt að vera með öllu án hróss. Sigurður gerir stundum mikið úr göllum sínum líka og reynir með því að gera hrósið trúverðugra. Það er ein aðferð.
Jóhannes Laxdal kvartar líka undan því að skrifin hjá mér lognist útaf í leiðindum. Það er hans mat og ég get lítið við því gert. Takmarki mínu er þó náð ef hann lætur svo lítið að lesa þau.
Kannski er það einn helsti galli bloggskrifa að vaða svona úr einu í annað eins og ég geri. Mér finnst það bara tilheyra. Leiðist alveg geigvænlega að fabúlera lengi um sama hlutinn. Þó eru flestar blaðagreinar þannig. Þar er talað fram og aftur um það sama og höfundurinn telur sig eflaust vera að fjalla ýtarlega um málefnið. Mér leiðist bara.
Sennilega er það einmitt rithöfundaragi að sitja mánuðum eða árum saman við að semja bók. Hún má ekki fara útum víðan völl. Heldur verður hún að fjalla um það efni sem ákveðið er. Þá vil ég fremur agaleysið og óheftu tjáninguna. Því skyldi ég ekki þenja mig um hvað sem er? Kannski er þetta það eina sem ég get.
Íslenskir krimmar eru yfirleitt óttaleg froða. Hvort sem höfundurinn heitir Yrsa, Arnaldur eða jafnvel eitthvað annað virðist aðalmálið vera að teygja lopann sem allra mest. Auðvitað getur verið afþreying að lesa þetta en ekki skilur það mikið eftir. Verst er að höfundarnir eru mistækir. Það veit maður þó oftast ekki fyrr en eftirá. Þá er bókin sem maður var að enda við að lesa yfirleitt sú lakasta eftir viðkomandi.
Eiginlega eru jól og áramót hjá flestum ein samhangandi stórveisla. Nú eru flugeldamarkaðirnir farnir að spretta upp eins og gorkúlur um alla borg. En maður nær þó smáhvíld milli aðaldaganna. Rétt svona til að smakka plokkfisk og rúgbrauð og jafna sig. Svo endar þetta alltsaman gjarnan með glórulausu fylliríi. Svona er nú hækkandi sól fagnað hér um slóðir. Læt jesúbarnið liggja milli hluta. Það trúa hvort eð er svo fáir á það.
Enginn slær út hina ljósmyndaglöðu ElluHelgu í hverskyns matarbloggi. - Enda eru matarblogg svo vinsæl og skemmtileg. - Iss, svo þarf að skíta þessu öllusaman, ekki er það nú skemmtilegt. - Það er ekkert verra að skíta góðum mat en slæmum. - Ég vildi að ég væri enn að éta jólamatinn. Svo færi ég að sofa og svæfi vel og lengi og settist svo að jólaborðinu aftur. - Hvað, og engir afgangar eða fyrningar? - Jú, jú. Tvöfaldir afgangar og geymdust margfalt betur. Fengi ekki fisk fyrr en á næsta ári. - Ha? Jafnvel skötu? - Nei, ég segi það nú ekki.
Var að enda við að horfa í íslenska sjónvarpinu á heilmikla umfjöllun um WikiLeaks. Andstæðingar þeirra WikiLeaksmanna hafa eflaust ýmislegt við þá umfjöllun að athuga.
Þó finnst mér vel mega taka undir þá kröfu að hinum alþjóðlegu greiðslukortafyrirtækum sem hafa tekið að sér að valda almenningi erfiðleikum við að koma styrktargreiðslum til WikiLeaks verði gert sem erfiðast að starfa hér á Íslandi.
Auðvitað getur það komið almennum kortanotendum illa og ekki er hægt að gera ráð fyrir að Ísland skipti miklu máli í þessu tilliti. Afstöðu stjórnvalda mætti þó vel láta í ljósi við forsvarsmenn þessara fyrirtækja. Íslenska ríkisstjórnin gæti jafnvel áunnið sér virðingu einhverra með því.
Hér er það víst sem vegurinn endar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)