1210 - Stjórnlagaþing VI

Hin sögufræga stjórnlagaþingskosning nálgast óðfluga. Fésbókin er varla lesandi lengur og bloggið litlu betra. Þar er þó frekar hægt að forðast ósköpin finnst mér. Auðvitað koma allar þessar kynningar einhverjum til góða og óþarfi að vera að vorkenna sjálfum sér útaf fyrirferð kosninganna. Hefðbundnir fjölmiðlar vilja helst ekkert af þeim vita. Ríkisútvarpið var þvingað til að sinna þeim svolítið. 

Sögufrægu segi ég og meina það. Þjóðaratkvæðagreiðslan fyrir nokkru var auðvitað söguleg líka. Þar voru þó greidd atkvæði að mestu í tilgangsleysi og þar að auki í óþökk sumra stjórnmálaafla. Ekkert slíkt er til staðar nú og ég á von á að kjörsókn verði mikil. Flokkarnir eru orðnir verulega hræddir sýnist mér flest benda til. Hættan á því að allt fari í rifrildi og vitleysu á stjórnlagaþinginu sjálfu er þó vissulega fyrir hendi.

Kristján Óli Hjaltason sendi mér eftirfarandi áminningu. Auðvitað var ég búinn að taka eftir því að Baldur er í framboði og ætla að kjósa hann. Góð vísa er samt aldrei of oft kveðin:

„Eins og fram hefur komið þá er bekkjarbróðir okkar Baldur Óskarsson í framboði til Stjórnlagaþings.  Baldur sendi mér þennan pósti sem ég áframsendi til ykkar með hvatntingu að styðja Baldur en með því vitum við að "rödd okkar" verður á Stjórnlagaþingi."

„Þessi póstur" er svona:

„Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til stjórnlagaþings. Með þessum pósti er ég að leita eftir  stuðningi  ykkar við framboðið með því að kjósa mig til þingsins.  Ég er sá eini úr hópi Bifrestinga sem útskrifuðust úr Samvinnuskólanum eins og hann var og hét sem býður sig fram. Hér er því tækifæri til að fá fulltrúa okkar hóps á hið merkilega þing. Ég vek athygli ykkar á að því ofar sem ég er á seðlinum ykkar, þeim mun þyngra vegur atkvæðið.  Með von um góðar undirtektir."

Mér finnst þessi fésbók vera algjörlega rugluð. Er stundum að reyna að skilja hana en þeim mun dýpra sem ég fer í stillingar og annað þessháttar því óskiljanlegri verður hún (bæði á ensku og íslensku). Svo sé ég ekki betur en sífellt sé verið að breyta henni. Annars er ég kannski bara svona vitlaus. Aðrir virðast geta skrifað allan fjandann þarna.

Bráðum getur fólk bara setið við tölvuna allan daginn og haft margfalt betri samskipti við ættingja og vini en nokkurntíma var mögulegt í kjötheimum. Meira að segja kaffið er betra þegar maður hellir sjálfur uppá svo tími kaffikerlinganna er eiginlega liðinn. Aumingja Ketilríður hennar Guðrúnar frá Lundi. Ekki hafði hún síma eða tölvu en komst þó af. Drapst að vísu fyrir rest en það gerum við víst öll.

Er ekki kominn tími til að segja allri þessari tölvuvitleysu stríð á hendur? Mér finnst það. Var einu sinni áskrifandi að blaði sem barðist gegn notkun tölva í skólastarfi og fann þeim ýmislegt til foráttu. Já, og auðvitað var því dreift á Internetinu, meira að segja á póstlista, svo gamalt er þetta mál.

IMG 3772Svanur á steini.


Bloggfærslur 24. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband