1178 - Skák og stjórnlagaþing

Skilst að vesalingum þeim sem bjóða sig fram til þjónustu á stjórnlagaþinginu sé úthlutað 700 slögum (með bilum) til að koma boðskap sínum á framfæri í kynningarefni því sem dreift verður. Þetta er ekki langt. Ætli hvert og eitt blogg hjá mér sé ekki meira en 700 slög. Þegar búið verður að margfalda þetta með 500 held ég samt að þetta verði svo langt að enginn nenni að lesa ósköpin. Mogginn setur engin svona takmörk á okkur stórhausana. Við megum rausa eins mikið og okkur lystir og reyndar allir Moggabloggarar. Sumir gera það líka svikalaust.

Margt má um trúboð í skólum segja. Sumir rífast um slíkt núna af mikilli hind. Umræða sem þessi blossar alltaf upp öðru hvoru og meðan ríkiskirkja er við lýði má alltaf búast við því. Það er langt frá því að ég sé sérfræðingur í þessum málum þó ég hafi einhverntíma verið formaður foreldrafélags. Auðvitað drap ég það foreldrafélag og hélt aldrei fundi í því en það er önnur saga. Ef einu trúfélagi er veitt sérstök aðstaða í skólastarfi í andstöðu við einhvern hluta foreldra þeirra barna sem aðstöðunnar eiga að njóta finnst mér að stjórnendur skólans eigi að stöðva slíkt og gæta jafnræðis. Samanburður við íþróttafélög er ekki sannfærandi. Auðvelt er um þetta að tala en verið getur að erfiðara sé í að komast. Ef trúfrelsi á að ríkja í landinu ber að virða það.

Dreymdi í nótt sem leið að ég væri að stjórna hraðskákmóti. Mér þótti ég vera á ferðalagi með fjölda fólks og við þurftum að bíða heillengi. Vorum í einhverjum sal þar sem fullt var af töflum og klukkum og ég tók að mér að stjórna hraðskákmóti. Umferðatöflur fann ég en erfiðlega gekk með stjórnina. Vissi aldrei almennilega hverjir voru með og hverjir ekki. Þekkti ekki alla. Útlendingar voru þarna og ég óviss á framburði nafnanna og stafsetningu. Menn að hætta og bætast við og allt í rugli. Áhorfendur voru allmargir og teflendur gjarnan á meðal þeirra. Krakkar voru þarna fjölmargir og fólk að reyna að skemmta þeim með allskyns dóti.Varð á endanum öskureiður út af sífelldum truflunum og reyndi að reka mestu truflanavaldana út. Eftir 2 eða 3 umferðir var allt í tómri vitleysu og þá vaknaði ég sem betur fór því annars hefði ég verið í meiriháttar vandræðum. Fékk mér kaffi og svefntöflu, settist aðeins við tölvuna, og fór svo aftur að sofa.

Ástæðan fyrir þessu var eflaust sú að ég var búinn að skrá mig á hraðskákmót úti í Viðey. Þangað fór ég svo eftir hádegi og þar gekk stjórn mótsins mun betur enda kom ég þar hvergi nærri. Taflmennskan hjá mér var alveg sæmileg og ég held að ég hafi fengið 50% vinninga. Meðal keppenda voru margir fyrrverandi Íslandsmeistarar og mótið var bara fyrir eldri borgara og líklega fyrsta alvarlega skákmótið sem haldið er í Viðey.

IMG 3518Bær hjá húsi.


Bloggfærslur 23. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband