1157 - Mótmæli mótmælanna vegna

Nú er ég svo illa staddur að ég á engar fyrningar til að pósta upp á Moggabloggið. Venjulega luma ég á einhverjum málsgreinum sem ekki hafa komist að næstu daga á undan. Nú er ekki svo. Þessvegna verð ég að reyna að skrifa og skrifa hvernig sem það gengur. Vonandi vel. Svo er alltaf hægt að hafa þetta í styttra lagi. Kannski ég geri það bara ef mér dettur ekkert í hug.

Var að fésbókast áðan og þar er allt komið í hálfgert rugl. Bið fólk afsökunar fyrirfram á undarlegum hlutum. Held ég nái aldrei að skilja til fulls alla leyndardóma þeirrar bókar.  Leyndardómar bloggsins eru mér samt meira og minna ljósir þó ég fikti sem allra minnst í stjórnborðinu þar.

Í dag á víst að setja nýtt Alþingi enda er kominn október. Einhverjir skilst mér að ætli að nota tækifærið og mótmæla niðri á Austurvelli. En mótmæla hverju? Það er spurning dagsins. Ég mótmæli allur. Hefði alveg verið til í að sofa þar ef þægindin væru aðeins meiri. En í myrkri og vætu. Ómögulega, takk.

Tölum um að vera húkkt á blogg annarra. Er nýbúinn að uppgötva blogg Atla Týs Ægissonar og þar er bloggari sem er allrar athygli verður. Bloggar einfaldlega mjög skemmtilega. Kryddar frásögnina með persónulegum hætti og gerir það óvenju vel. Segi kannski nánar frá honum seinna. Svo er Harpa Hreinsdóttir alltaf hressandi. Sérstaklega þegar hún er með gagnrýnisgleraugun á nefinu.

Sá fyrirsögn í blaði réttáðan. Hún var svona: „Dómsmál gæti þurrkað út Icesave-skuld þjóðarinnar". Þetta er alveg rétt en geta mætti þess að slíkt dómsmál gæti líka margfaldað hana eða hækkað mjög. Verst að það skuli ekki vera sjálfskipaðir sérfræðingar á borð við Sigmund Davíð sem líklegastir eru til að dæma í dómsmáli af þessari gerð.

Já og svo hefði ég getað haldið áfram með hundasöguna. Var alveg búinn að gleyma því. En látum hana hvíla í friði.

IMG 3134Endur og steinar í Kópavogi.


Bloggfærslur 2. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband