916 - Beðið eftir Bessastaðabóndanum

Ég vil gjarnan líta svo á að Icesave-málið snúist ekki fyrst og fremst um krónur og aura. Ekki heldur um hvort aðrar þjóðir beri virðingu fyrir okkur Íslendingum og vilji leyfa okkur að vera memm. Og ekki ræður það úrslitum um sjálfstæði okkar eða örlög ríkisstjórnarinnar. 

Það hvort Ólafur Ragnar Grímsson undirritar Ísbjargarlögin eða ekki getur samt haft áhrif á stjórnskipan okkar Íslendinga til langs tíma. Undirriti hann lögin er forsetaembættið marklaust og þýðingarlaust í stjórnmálalegu tilliti eins og það var áður en Ólafur varð forseti.

Sameiningartákn þjóðarinnar verður það þegar best lætur. Þannig er það víðast hvar er í löndunum í kringum okkur.  Konungar og forsetar eru þar einkum til skrauts. Framkvæmdavaldið er hjá þinginu og það fer einnig með löggjafarvald.

Neiti hann að undirrita lögin aukast áhrif forsetaembættisins. Hvort svo verður til langframa er óvíst. Þeir sem ákafast biðla til Ólafs nú um að undirrita ekki lögin munu ekki heldur kæra sig um nýtt og breytt stjórnskipulag. Að minnsta kosti á þetta við um stjórnmálaflokkana, þeim vantreysti ég alltaf. Beint lýðræði gæti að vísu skotið rótum þá og auknar líkur væru á stjórnlagaþingi og þjóðaratkvæðagreiðslur gætu orðið algengari en verið hefur.

Þjóðin mænir í ofvæni á Bessastaði þessa dagana. Ætli Grímssyni líki það ekki bara vel?

Hörmulegt er að ekki skuli hafa náðst samstaða um ríkisábyrgðina á Icesave-skuldunum.

Það er varla viðeigandi að vera að tala um ESB núna en ég ætla samt að gera það.

Ég er fylgjandi því að Íslendingar gangi í ESB. Hef lengi verið það og mun ekki breyta um skoðun svo auðveldlega. Niðurstaðan úr samningaviðræðunum um aðild sem væntanlega fara af stað bráðlega skiptir þó vissulega máli. Fæ reyndar ekki séð hvernig ríkisstjórnin ætlar að koma aðildarfrumvarpi gegnum þingið í andstöðu við Steingrím sjálfan.

Hugsanlega þarf ekki að treysta á þingmenn í sambandi við ESB. Kannski er hægt að senda niðurstöðuna úr samningaviðræðunum rakleitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Allmargir virðast telja að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að ESB verði ekki haldin. Útilokað er að ríkisstjórnin telji sig geta komist upp með að sleppa henni.


Bloggfærslur 4. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband