915 - Fáein orð um mál málanna

Það er að æra óstöðugan að halda áfram að ræða Icesave hér. Samt ætla ég að minnast á tvennt.

Sé ekki betur en mbl.is og Morgunblaðið hafi skipað sér í sveit með þeim sem umfram allt vilja að Ólafur Ragnar fari eftir þeim áskorunum sem komið hafa fram og undirriti ekki lögin um Icesave-ríkisábyrgðina. Í fyrirsögn á mbl.is segir: „Fjórir stjórnarþingmenn skrifuðu undir." Síðan er viðtal við menn úr Indefense hópnum og sagt nánar frá þessu. Ekki er samt minnst á hverjir þessir 4 þingmenn eru og þessvegna er fréttin ekki nema hálfsögð.

Haft var eftir varaformanni fjárlaganefndar í fréttum á RUV að Ólafur hefði eins og aðrir haft tækifæri til að fylgjast með umræðum um þetta mál og því getað tekið afstöðu strax. Einnig ætti hann að ræða við aðra en talsmenn Indefense hópsins. Þetta finnst mér ómálefnalegt og talsverður auglýsingakeimur af þessu. Ólafur sér hluti sem þetta án þess að vera bent sérstaklega á það.

Ártalið 2010 leggst vel í mig. Einhver sagði að hann mundi áreiðanlega verða fljótur að venjast því að skrifa 2010 í stað 2009. Sem minnir mig á að áður fyrr var heilmikið mál að muna eftir því að skrifa rétt ártal. Nú sjá tölvur um þetta að mestu leyti. Annars er 2010 dálítið vísindaskáldsögulegt ártal.

Reyndar þótti mér árið 2000 alltaf vera í órafjarlægð þegar ég var í skóla. Miðað við þær hugmyndir sem fólk hafði um miðja tuttugustu öldina er mesta furða hve lítið hefur breyst.

Þegar strákarnir mínir fóru í fyrsta skipti til útlanda voru þeir mest hissa á því að göturnar skyldu vera svartar og húsin í útlandinu næstum því eins og húsin hér heima. Í þessu tilfelli var útlandið Glasgow í Skotlandi.

Hefði ég sem skólastrákur átt að spá hvernig Ísland yrði árið 2000 hefði sú spá verið alveg í skýjunum. Eftirá séð er kannski sú framför mest sem orðið hefur í lífskjörum almennt. Tækniframfarirnar eru í raun takmarkaðar að því leyti að hraðinn er afar mismunandi eftir greinum.

Þegar bóndi einn, sem hokrað hafði á einhverju smábýlinu frá því snemma á tuttugustu öld og framundir þá tuttugustu og fyrstu, var spurður að því í hverju allra mestu framfarinrnar hefðu verið fólgnar í hans búskapartíð svaraði hann:

„Það var nú þegar stígvélin komu."


Bloggfærslur 3. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband