914 - Ólafur Ragnar Grímsson

Menn rugla gjarnan saman forseta og forsetaembætti. Það er eðlilegt. Forsetar sitja venjulega svo lengi að tiltölulega fáir muna eftir öðrum en þeim sem forseti er hverju sinni og ef til vill þeim sem á undan var.

Ólafur Ragnar Grímsson á erfitt með að ákveða sig núna. Ekki vorkenni ég honum það. Hann kom sér sjálfur í þessa stöðu og virðist ekki vera ýkja vinsæll meðal þjóðarinnar.

Líklegast er að hann hagi sér á þann hátt sem pólitísk fortíð hans bendir til og skrifi undir lögin. Geri hann það er hann þar með orðinn áhrifalítill og tilgangslaus forseti. Embættinu er kannski bjargað um sinn en áhrifamáttur forsetans í stórmálum framtíðarinnar er stórlega skertur.

Áhrifaleysi hans sjálfs hefur lítið að segja. Hann mun ekki bjóða sig fram oftar og hefur litlu að tapa. Upphrópanir æsingamanna um borgarastyrjöld og aðrar kárínur eiga ekki mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar og munu ekki rætast.

Neiti hann að skrifa undir mun hann verða vinsæll hjá mörgum þeirra sem hingað til hafa haft lítið álit á honum en vinátta þeirra mun ekki rista djúpt og þeir munu afneita honum við fyrsta tækifæri.

Líklega segir ríkisstjórnin af sér ef hann skrifar ekki undir. Það er þó alls ekki víst. Hún hefur mörg fleiri úrræði. Hætt er þó við að áfram verði deilt um þetta mál ef svo fer og á einhvern hátt verði hægt að kenna því um að ekki sé mikið gert í öðrum málum.

Alls ekki er fyrirséð hvort, hvenær eða hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla muni fara fram ef undirskrift verður neitað. Sigmundi Davíð og Bjarna Benediktssyni mundi kannski líka vel að fiska í því grugguga vatni sem stjórnmálin gætu lent í. Hugsanlegt er að þeim tækist að mynda ríkisstjórn en líklegra er þó að kosningar yrðu fljótlega og þá gæti skipt máli hvar þingrofsrétturinn er. Samkvæmt venju ætti hann að vera hjá forsætisráðherra.

Örleikrit í einum þætti

Persónur: Hann og hún.
Staður og tími: Reykjavík vorra daga.

Hún kemur með konfektskál og otar að honum: Hérna. Fáðu þér konfektmola. Hún Una frænka sendi þetta og ég er að velta því fyrir mér hvort hún hafi búið þetta til sjálf eða keypt það.

Hann: Takk. (stingur einum mola upp í sig annars hugar)

Hún: Hvurslags er þetta maður. Þú átt að bíta í molann en ekki stinga honum upp í þig.
(Hugsar: Hann er eins og hungraður úlfur.)

Hann: Nú, það vissi ég ekki.
(Hugsar: Ekkert má nú. Maður fær ekki einu sinni að borða sitt konfekt eins og manni sýnist.)

Hún: Hvernig á ég þá að komast að því hvort hann er heimatilbúinn eða ekki?

Hann: Mér finnst hann verksmiðjulegur á bragðið.

Hún: Það er nú lítið að marka. Ég verð líklega að fá mér sjálf.

Hann: Já, gerðu það.

Tjaldið fellur.


Bloggfærslur 2. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband