809 - Er framtíðin græn?

Horfði um daginn á myndina í Ríkissjónvarpinu um efnahagsböðulinn John Perkins. Myndin er ágætlega gerð þó sumt í henni sé afar ótrúverðugt. Til dæmis voru vindla-atriðin sem voru endurtekin hvað eftir annað beinlínis hlægileg. 

Sumir vilja heimfæra það sem segir í myndinni upp á Ísland í dag. Þeirra á meðal er John Perkins sjálfur. Það er þó af og frá að Ísland sé á sama stigi og Equador og Iran. Viss atriði eru samt umhugsunarverð. Til dæmis er engin ástæða til að ætla AGS einhverja góðsemi í samskiptum sínum við okkur Íslendinga. Stefna þeirra kann þó að hafa breyst frá því sem hún var fyrir aldarfjórðungi.

Er farmiðinn inn í framtíðarlandið grænn? Svo virðist vera. Erfiðara er að mynda sér skoðun á umhverfismálum en ýmsum öðrum. Hvað mig snertir er þar einkum í gildi sú regla að ég er undir mestum áhrifum frá síðasta ræðumanni. Mér finnst að vísu bölvað hve bensínið er orðið dýrt en er samt ekki viss um að aðrir orkugjafar verði samkeppnisfærir alveg á næstunni. Á ég svo bara að hugsa um hvað gerist alveg á næstunni? Það er önnur spurning sem gríðarlega erfitt er að svara.

Svanur Gísli Þorkelsson bloggar um naflaskoðanir bloggara og hæðist að „Sæmundarhætti í bloggi", sem hann kallar svo. Þó ég sé spéhræddur mjög get ég ekki annað en látið sem ekkert sé. Ekki er hægt að ráðast að Svani Gísla eða því sem hann skrifar á sitt blogg. Hann er nefnilega meðal bestu bloggara og veit manna best hvað er við hæfi að blogga um.

Og í lokin nokkrar myndir:

IMG 3922Kaktus í sólskini.

IMG 3931Blómskrúð.

IMG 3948Hér mun Háskólinn í Reykjavík rísa. (Ef Guð lofar - og mótmælendur.)

IMG 3993Úr skólagörðum fullorðinna í Kópavogi.

IMG 4007Regnbogi í Reykjavík. (tvöfaldur)


Bloggfærslur 20. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband