799 - Úr einu í annað

Sparisjóðsstjórinn sat á stjórnarfundi þar sem mikilvægar og leynilegar ákvarðanir um framtíð fyrirtækisins voru teknar. Eiginkona hans seldi nokkrum dögum seinna bréf í fyrirtækinu. Auðvitað bjó hún ekki yfir neinum innherjaupplýsingum. Slíkt er aðeins mögulegt að sanna ef upptökur eru til af öllum samskiptum þeirra hjóna á tímabilinu. Þær eru víst ekki til.

Mikið er fjargviðrast í fjölmiðlum og fésbókum útaf Helga Hóseassyni. Nær hefði nú verið að gera eitthvað fyrir kallinn meðan hann lifði. Kannski hefði hann ekki einu sinni þegið það. Skilst að hann hafi verið sérvitur með afbrigðum. Nú vantar sárlega mann sem kann að hanna skilti. Hóseas-hönnunin er dálítið gamaldags.

Nú man ég eftir öðru sem Stiglitz sagði. Hann sagði að flatur niðurskurður af öllum skuldum væri della. Sigmundur Davíð sagði 20 prósent, Lilja sagði 4 milljónir, einhver sagði meira og sumir slógu úr og í og sögðu að skera mætti smá eða jafnvel mikið, þó ekki of mikið o.s.frv. Fátækir skulda lítið og fá lítinn afslátt. Ríkir skulda mikið og fá mikinn afslátt.

Það voru neyðarlögin svokölluðu sem fóru verst með okkur. Að tryggja hundrað prósent eina tegund af skuldum var fáránleg vitleysa. Hvernig hægt var að telja þingheimi trú um að skynsemisvottur væri í þessu skil ég ekki. Ekki þurfti annað en að seðlabankinn tryggði Visa-greiðslur að vissu hámarki til að ekki færi allt í kaos. Svo máttu allir fara á hausinn sem voru á leiðinni á hausinn.

Auðvitað er ekki erfitt að vera gáfaður eftirá. Það geta allir. Bæði Alþingismenn og aðrir. Fyrirfram og meðan á málum stendur er þetta oft mun erfiðara.

Í forsíðufyrirsögn í Mogga sjálfum segir í dag: "Fátt skemmtilegra en að fara á fjöll." Ég er nú svo takmarkaður að þetta minnir mig á vísuna:

Skólapiltar fara á fjöll
og faðma heimasætur.
Ungar stúlkur elska böll,
einkanlega um nætur.

Þarna skiptir máli röddun eða ekki röddun og er oft gaman að leika sér að slíku. Önnur vísa sem gaukað var að mér um daginn er svona:

Hef ég alltaf á því gát
yfirsjónir bæta.
Þegar tungan mín er mát
mun ég kverkar væta.

Sagt hefur verið að íslensk vísnagerð rísi hæst í drykkjuvísum, hestavísum og klámvísum. Líklega er það rétt.

Gísli Ingvarsson er ekki skráður sem bloggvinur minn þó Moggabloggari sé. Hann bloggar sjaldan en um daginn skrifaði hann ágæta grein um ESB á bloggið sitt og kallar hana "Þetta eru "engin rök" Fyrir Birgittur Borgaranna. Lesið hana ef þið eruð að velta ESB fyrir ykkur. Já, hann er meðmæltur aðild.

Og fjórar myndir.

IMG 3928Blómstrandi kaktus.IMG 3955

Stökkpallur.

IMG 3956Landslag í Reykjavík.

IMG 3978Sólarlag í Reykjavík.

 

Bloggfærslur 10. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband