781 - Um bloggið mitt

Veit vel að ekki nenna margir að lesa bloggið mitt að staðaldri. Verð að una við það og er ekkert óhress með. Samt eru furðumargir sem skoða það. Ef dagar falla niður hjá mér fækkar lesendum mjög. Af því dreg ég þá ályktun að þónokkuð mikilll fjöldi skoði bloggið mitt einkum fyrir tilverknað RSS-strauma og þeirrar auglýsingar sem fólgin er í stórhausahugmyndinni hjá þeim Moggamönnum og ef til vill líka í bloggvinaæðinu hjá þeim. Já, ég velti mikið fyrir mér hvers vegna í ósköpunum fólk er að lesa þetta.

Vildi að ég gæti skrifað um eitthvað bitastætt á hverjum degi en svo er ekki. Stundum stend ég sjálfan mig að því að reyna að gera eitthvað bitastætt sem í rauninni er það alls ekki. Til dæmis held ég að vísurnar hjá okkur Hilmari séu ekki spor merkilegar þó ég hafi leiðst útí að segja frá þeim í síðasta bloggi. Don Hewitt var þó merkilegur og Hólmfastur Guðmundsson líka.

Í kvöld er víst menningarnótt í Reykjavík en ég nenni ekki að fara. Of margir á ferðinni og of mikið vesen. Skárra að sitja hér og skrifa einhverja vitleysu.

Konan mín er nýbúin að auglýsa til sölu nokkrar myndir eftir sig á etsy.com og setja upp einskonar verslun þar.  asben.etsy.com - er urlið. Þar eru nokkrar fínar vatnslitamyndir og á eflaust eftir að fjölga. Etsy.com er annars ágætur vefur. Sérhæfir sig í öllu „handmade" og er greinilega nokkuð vinsæll. Einkum í Bandaríkjunum. Þar er margt að skoða hafi menn áhuga.


Bloggfærslur 23. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband