608. - Auðvitað eru bloggarar bloggurum verstir

Ég hef sjaldan skrifað eins langa athugasemd á blogg eins og í gær hjá Sigurði Þór Guðjónssyni. Hann var að hallmæla blogginu eins og hann gerir oft og ég reyndi að bera svolítið í bætifláka fyrir það og held því kannski áfram hér eftir nennu.

Alltaf eru einhverjir sem halda framhjá blogginu. Eiður Guðnason gerði það um daginn. Heldur víst að það sé eitthvað merkilegra að skrifa grein í Moggann. Segi svona. Auðvitað lesa fleiri Moggagreinina hans en bloggið. Skil þetta vel. Ef mönnum líður sæmilega vel með sín skrif þá sé ég ekki að það skipti miklu máli um hvað er skrifað né hvar. Gott samt að hafa aðgang að því ef maður skyldi hafa áhuga. Mín vegna má Sigurður Þór skrifa eins og hann vill um veðrið. Ég les það stundum. Finnst ég samt ekki vera neitt skyldugur til þess. Það er ég einn sem ákveð hvað ég les af bloggum.

Ég fylgist yfirleitt með Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni fornleifafræðingi í danaveldi þó sumum finnist hann ekki skemmtilegur. Fyndið fannst mér þegar einhver var í athugasemdum að kalla hann vinstrisinnaðan. Hann var einmitt eitthvað að agnúast út í Eið Guðnason. Þess vegna minnist ég á hann hér.

Það sem ég hef einkum áhyggjur af í sambandi við mína eigin bloggnáttúru er að ég er sífellt að festast meira og meira á Moggablogginu þó ég viti mætavel að prýðilega og forvitnilega er bloggað víða annars staðar. Moggamenn reyna líka eins og þeir geta að hlaða undir einhverja samkenndartilfinningu meðal sinna bloggara og vilja um leið stjórna hvernig bloggið er hjá sér.

Með því að Moggabloggast erum við auðvitað að auglýsa Moggaræfilinn sem er á hausnum eftir því sem sagt er. Ég veit að ég er í vinnu hjá Moggamafíunni án þess að fá nokkuð borgað fyrir það. Þjónustan er bara góð hjá þeim og meðan mér býðst ekki jafngóð eða betri ókeypis þjónusta annars staðar held ég áfram að blogga hér. Á sama hátt og Sigurði Þór finnst ekkert blogg vitrænt nema veðurblogg þá þykir mér skemmtilegast að blogga um blogg. Þar má alltaf finna umræðuefni.


Bloggfærslur 19. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband