599. - Það er tungunni tamast sem er hjartanu kærast

Geir Haarde var í imbakassanum í kvöld og sagði óvart að allt snerist um kosningabaráttu hjá Sjálfstæðisflokknum. Meinti reyndar stjórnarandstöðu og leiðrétti sig. Allir stjórnmálaflokkar eru komnir í bullandi kosningabaráttu. Ekki síður Samfylkingin en aðrir. Kannski vilja þeir gera eitthvað almennilegt líka en kosningabaráttan er númer eitt.

Það er enginn vafi í mínum huga að bloggið er komið til að vera. Það getur þó eflaust breyst og mun gera það. Áfram munu margir vilja tjá sig á þennan hátt. Sumir þykjast aldrei lesa blogg en flestir bloggarar finna að minnsta kosti fáeina lesendur. Annars væru þeir ekki að þessu.

Hvernig á að blogga? Það er spurningin. Sjálfur er ég alltaf í vafa. Á ég að linka? Á ég að myndskreyta bloggið og reyna að láta það líta sem best út? Á ég að blogga langt eða stutt? Um hvað á ég að blogga?

Sumir blogga bara fyrir fjölskyldu og nána vini og þá gjarnan ekki nema öðru hvoru. Aðrir eru alltaf að þessu. Jafnvel oft á dag.

Já, spurningarnar eru endalausar. Lausnirnar sem ég hef fundið eru einkum þær að blogga frekar stutt í hvert skipti. Blogga reglulega og frekar oft. Um það bil daglega. Linka aldrei í fréttir. Og svo framvegis.

Allt er þetta samt breytingum undirorpið. Einu sinni notaði ég ekki einu sinni fyrirsagnir. Ég númera bloggin mín alltaf og hef ekki séð aðra gera það. Sérviska í sérflokki. En hefur þetta áhrif? Ég veit það ekki. Kannski. En meðan mér finnst gaman að þessu og það truflar mig ekki við annað held ég því áfram.

Að koma hugsunum sínum í orð með sæmilegum hætti er fyrst og fremst æfing. Að kalla lesendur sína fávita eins og sumir gera er oflæti. Pólitík snýst um skoðanir. Sínar eigin og annarra. Stjórnmál eru trúboð. Stjórnmálamenn og útrásarvíkingar hafa svikið okkur illilega undanfarin ár. Góð hugmynd er að gefa öllum þeim sem um stjórnmál og efnahagsmál hafa vélað að undanförnu langt frí.

Hvað stjórnmálamennina varðar getum við gert það í komandi kosningum. Ekki með því að kjósa réttan flokk. Heldur með því að kjósa ný öfl. Stuðla að því að stjórnlagaþing verði haldið fyrr en seinna og að það fái raunveruleg völd. 

 

Bloggfærslur 10. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband