911 - Pælingar

Að sumu leyti hef ég orðið íhaldssamari með aldrinum. Ekki þó að öllu leyti og til dæmis finnst mér stefnur og ismar miklu fremur breytast en mínar skoðanir. Skil til dæmis vel þá sem halda því fram að kapítalisminn nútildags sé eiginlega eins og sósíalismi án réttlætis. Það er markaðurinn sem stjórnar framleiðslutækjunum í kapítalískum kerfum en misvitrir og oft misheppnaðir menn í sósíalískum. Meðan ekki komast þar brjálaðir fjöldamorðingjar til valda tekur sósíalisminn þó á margan hátt kapítalismanum fram. 

Þar er blessaður hagvöxturinn ekki dýrkaður á sama hátt og í markaðsdrifnum kerfum en bara eitthvað annað. Jöfnuður meiri þó velmegun dragist gjarnan aftur úr í sósíalískum ríkjum. Við því er ekkert að gera. Peningar eru ekki allt. Kreppur þekkjast ekki í sósíalismanum en stöðnun getur verið hrikaleg. Stefna sem inniheldur það besta úr báðum kerfum er að komast á legg.

Syntesan ESB er von margra. Mun betri en sósíalisminn í Sovétríkjunum og snöggtum skárri en kapítalisminn í Bandaríkjunum. Þjóðríkið er á undanhaldi og ekki lengur almenn trú á því að ríki skuli vera sem flest. Bandalög um tiltekin málefni er dagskipunin.

ESB er öflugasta viðskiptabandalagið í heiminum um þessar mundir og engin goðgá að tengjast því sterkari böndum en verið hefur. Allt frá þáttöku okkar Íslendinga í EES með Viðeyjarstjórninni forðum höfum við Íslendingar í raun verið að æfa okkur fyrir inngöngu í ESB. Fengið óheftan eða lítt heftan aðgang að mörkuðum bandalagsins og notið margs af gæðum þess, en sloppið að mestu við ókostina.


Bloggfærslur 30. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband