880 - Tinna Bjarnadóttir

Í dag (sunnudag) var Tinna Alexandra Sóley Bjarnadóttir skírð í Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Í morgun leit fremur illa út með veður en það lagaðist þegar á daginn leið og nokkuð margir komu í skírnarveisluna. 

Hvort á nafnið Bolunga(r)vík að vera með erri eða errlaust? Í mínum huga er Bolungavík líklega réttara ef málið snýst um hvort vísað sé í einn eða fleiri bolunga hvað sem það nú er. Bolungarvík held ég að sé samt algengara og það nafn prýddi kransaköku þá sem mynd var af á mbl.is í dag í tilefni af gerð jarðganga til Ísafjarðar. Auðvitað eiga íbúar Bolunga(r)víkur að ráða þessu og grunur minn er að endalaust megi um þetta deila.

Vel má líka deila um hvort réttlætanlegt sé að leggja skattpeninga í umferðarmannvirki sem fáum gagnast. Þar lenda menn fljótt í ógöngum ef rætt er um þessi göng sérstaklega því ómögulegt er að verðleggja af skynsemi þægindi og minni slysahættu.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að skattfé skuli í meginatriðum nota í verkefni til jöfnuðar. Mál sem tengjast samgöngum eru þar oft mikið hitamál og skipta fólki jafnvel í fylkingar eftir landshlutum. Ómögulegt er að skipta vegafé eftir einhverjum reiknistokksaðferðum og þess vegna verða ágreiningsefnin þar mörg.

Ekki er á ósamkomulagið meðal þjóðarinnar bætandi þegar hún er í sárum eftir bankahrunið. Að reyna að hlífa þjóðinni við smærri átökum vegna þess er kannski ein versta brotalömin í kerfinu. Rannsóknum á þjófnaði úrásarvíkinganna miðar grátlega hægt og tilfinning margra er sú að þeir séu aftur að ná fantatökum á þjóðfélaginu. Það er hættulegt. Þjóðin er breytt eftir atburði haustsins 2008.


Bloggfærslur 30. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband