878 - Bloggið bætir, hressir og kætir

Í vaxandi mæli hef ég á tilfinningunni að ég sé að blogga fyrir þá sem ég veit af ýmsum ástæðum að lesa skrif mín reglulega. Í gegnum samskipti mín í kjötheimum veit ég um suma. Aðrir kommenta öðru hvoru og svo framvegis. Flestir hafa einhver áhrif á hvernig ég skrifa. Líka þeir sem aldrei heyrist frá en þeir hljóta að vera þónokkrir. 

Áhrif þeirra sem kommenta eru stundum augljós. Til dæmis hefur Steini Briem afar góð áhrif á hagyrðingstaugina í mér. Oft má sjá áhrif kommentanna bæði í bloggum og svörum við athugasemdum og þau samskipti eru næstum alltaf á léttu nótunum. Að minnsta kosti svara ég kommentum oftast með því sem mér dettur fyrst í hug. Stundum er það svolítið út úr kú eða jafnvel asnalegt en við því er ekkert að gera.

Freistandi er að halda að því fleiri sem lesendurnir eru samkvæmt Moggabloggsteljaranum því betri séu skrifin. Svo er þó ekki. Það eru fyrirsagnirnar, efnið sem um er fjallað og fyrstu línurnar sem skipta mestu máli. Oft heldur maður að tiltekin skrif veki mikil viðbrögð í teljaramálum en hefur svo eftir allt saman alrangt fyrir sér. Ekki er með neinu móti hægt að sjá þau fyrir.

Ef ég blogga ekki finnst mér eins og ég sé að bregðast mínum föstu lesendum. Kannski eru þeir samt bara fegnir og þessvegna er ég að hugsa um að hætta núna.


Bloggfærslur 28. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband