575. - Um Samfylkinguna og Evrópubandalagið

Skúli Helgason framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar ritaði nýlega pistil um bankakreppuna á vef flokksins. Undir lok pistilsins segir Skúli:

Þá þarf að gefa þjóðinni skýr fyrirheit um framtíðina, ákvörðun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu skiptir þar verulegu máli en jafnframt þarf að móta nýja atvinnustefnu, hefja markvissa gagnsókn gegn atvinnuleysinu, forgangsraða í þágu velferðarþjónustu og almannahagsmuna  í ríkisfjármálum og leggja fram raunhæfar tillögur um sparnað í ríkiskerfinu sem fékk að blása út í góðærinu.

Eins og í pistlinum öllum er þarna um almennt snakk að ræða sem ekki er átakamikið að taka undir. Ég vil þó gera athugasemd við eina setningu þarna. Talað er um að aðildarumsókn að Evrópusambandinu skipti verulegu máli. Þetta er tóm vitleysa. Aðildarumsóknin skiptir engu sérstöku máli í þessu sambandi og þetta er bara sett þarna vegna þess að það er í samræmi við stefnuskrá flokksins.

Þetta segi ég þó ég sé í öllum meginatriðum fylgjandi aðild að Evrópusambandinu og hafi kosið Samfylkinguna í síðustu kosningum. Ef raunverulega á að ná einhverri samstöðu meðal þjóðarinnar um siðbót í stjórnmálum er engin ástæða til að auka á sundrungina með svona flokkspólitísku japli. 

Meirihluti þjóðarinnar er búinn að fá nóg að duglausum stjórnmálamönnum. Ef nota á tækifærið til að koma pólitískum hugðarefnum í gegn þegar nauðsynleg siðbót á sér stað er eins gott að vera án flokkanna. Það er rétt hjá Helga að lagalega séð er engin nauðsyn fyrir núverandi ríkisstjórn að fara frá fyrr en kjörtímabilinu er lokið árið 2011. Hins vegar er alveg öruggt að næsta vor verður krafan um kosningar orðin svo hávær að enginn flokkur getur staðið þar á móti.

Það getur vel verið að þá verði aðildarviðræður við Evrópusambandið hafnar en það verður ekki vegna þess að það sé nauðsynlegt siðbótarinnar vegna heldur vegna breyttrar stefnu ríkisstjórnarinnar. Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamning mun örugglega fara fram síðar en næstu Alþingiskosningar og þessvegna er óþarfi fyrir flokksbroddana að láta svona. Þeir eru bara að reyna að dreifa huga fólks frá efnahagsþrengingum komandi mánaða.

 

Bloggfærslur 18. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband