574. - Ég sný ekki roðið tvisvar í tíkina.

Er samt kannski einmitt að því. Þetta er eitt af þeim orðatiltækjum sem ég kann án þess að skilja nokkuð hvað meint er með því. Veit ekki heldur hvernig það er til komið. Samt þykist ég þess umkominn að segja öðrum til í sambandi við málfar.

Einhver fetti fingur útí að ég notaði orðið komment. Auðvitað er það sletta. Vel má segja athugasemd í staðinn. Merkingin finnst mér þó vera svolítið önnur. Mér finnst slettur ekki skipta miklu hvað málfar snertir. Öðrum kann þó að finnast svo. Ef slettur skiljast vel, laga sig sæmilega að beygingum og eru ekki alltof margar tek ég varla eftir þeim. Í setningafræði, kommusetningu og þess háttar, er ég alveg úti á þekju. Veit heldur ekki mikið um litla stafi og stóra. Það aftrar mér þó ekki frá því að láta móðann mása.

Fáir hafa orðið til þess að mótmæla mínum skilningi á því sem Sigmundur Ernir sagði (blogg nr. 571) svo ég tek þögn sem samþykki og held ótrauður áfram.

Einu sinni notaði ég póstforritið Elm. Það var löngu fyrir daga vafranna. Ný og ennþá fínni póstforrit komu og fóru en ég hélt áfram að nota Elm. Svo var mér sagt að ég væri síðasti Íslendingurinn sem notaði þennan forngrip. Þá hætti ég.

Ég er ekki enn farinn að skrá mig á fésbókina og verð líklega síðastur íslendinga til þess ef marka má sjónvarpsfréttir. Hvað er allt þetta fólk annars að gera á Facebook? Væri ekki nær að reyna að blogga smá?

Annars var fésbókaratriðið í áramótaskaupinu með því eftirminnilegasta sem þar var. Svo var zombinn sem vildi fá sætið á bekknum við Tjörnina líka góður.

Af hverju hafa svona margir horn í síðu bloggsins? Kannski er fólk svona góðu vant. Einu sinni var mest af því sem lesið var vandaður texti. Í bókum þar sem textinn var marglesinn yfir og hnökrar sniðnir af og blöðum sem voru prófarkalesin af þaulvönum mönnum. Bloggið er laust við þetta og þessvegna er textinn lélegur. Ætlast er til að fólk taki viljann fyrir verkið. Netskrif má helst ekki gagnrýna.

 

Bloggfærslur 17. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband