570. - Um árangur í stjórnkerfismálum, skák og sálfræðing í Silfrinu

Til að árangur náist í stjórnkerfismálum þarf að einhenda sér í þau. Leggja smámál eins og bankahrun, aðild að Evrópusambandinu, kvótamál, stóriðju og þessháttar til hliðar í bili. Margir virðast sammála um að stjórnkerfisbreytingar séu nauðsynlegar. Jafnvel virðist talsverð samstaða um hvernig þessar breytingar skuli vera. Til að árangur náist líst mér best á tillögu Egils Jóhannssonar í Brimborg um Sjálfseyðingarflokkinn. Verði tryggt að flokkurinn stefni eingöngu að stjórnkerfisbreytingum og verði örugglega lagður niður mjög fljótlega þegar búið er að ákveða aðrar kosningar eftir þær fyrstu er von til þónokkurs fylgis. Að stofna nýja flokka til að koma mönnum á þing og vasast í allskyns málum eykur bara ruglið. 

9-year-old Hetul Shah (India) youngest ever to beat a GM. (Fyrirsögn í skákfréttablaði)

Níu ára gutti vinnur stórmeistara í skák. Ótrúlegt. Nú má Maggi litli Carlsen frá Noregi fara að vara sig. Nánar um þetta á blogginu hjá Hrannari Baldurs.

Sálfræðingur í Silfrinu hjá Agli á sunnudaginn sagði að kreppan hefði komið eins og þjófur úr heiðskíru lofti. Þarna er blandað saman tveimur þekktum orðtökum. Að koma eins og þruma úr heiðskíru loft og að koma eins og þjófur á nóttu. Kannski gerði sálfræðingurinn þetta viljandi og þótti fyndið. Þá var hann líka viljandi að rugla þá sem tóku eftir þessu. Þessi sálfræðingur hafði annars margt gott til málanna að leggja en talaði alltof hratt og var of óskýrmæltur.

Egill hefur bætt sig að undanförnu og er farinn að losa sig meira og minna við stjórnmálamennina sem áður voru eins og gráir kettir í þættinum hjá honum.

 

Bloggfærslur 13. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband