547. - Áframhaldandi pælingar um DV-málið og ýmislegt fleira

Fæ oftast ekki mikið af athugasemdum með gagnrýni á mig og mín skrif. Við BenAx ( líklega Benedikt Axelsson) vil ég bara segja að ég veit ekkert hvernig kaupin gerast á DV-eyrinni. Bara að spögulera. 

Sisi sem ég veit ekkert hver er skilur mín skrif á sinn hátt og ég get ekkert að því gert. Hef áður skrifað um sjálfsgagnrýni á fjölmiðlum og held að hún sé jafnvel verri en önnur. Miklu algengari líka. Baldur fullyrðir líka eitthvað sem ég held að hann viti ekki fyrir víst.

Eitthvað er að breytast varðandi mótmæli og þessháttar. Fréttir eru líka orðnar talsvert öðruvísi en var. Ég er ekki frá því að alvarleiki fjármálakreppunnar sé farinn að renna upp fyrir fjölmiðlungum. Stórlega skertum lífskjörum almennings næstu árin er ekki hægt að stinga undir stól.

Þegar íslenska sjónvarpið hóf göngu sína árið 1966 spáðu margir illa fyrir öðrum fjölmiðlum. Það hefur ekki nema að hluta komið fram. Bækur virðast til dæmis halda hlut sínum allvel og gera ef til vill líka gagnvart Netinu. Að fólk borgi peninga fyrir að fá fréttir og að njóta froðuskemmtunar er alveg fráleitt. Auglýsendur eru smám saman að uppgötva Netið og þegar fjármagn þeirra er farið frá hinum miðlunum er lítið eftir.

Ástandið í Zimbabwe er skelfilegt. Öðru hvoru birtast tölur um verðbólguna sem þar ríkir. Þær tölur breytast ört og segja í rauninni lítið. Um daginn var í ríkissjónvarpinu enn og aftur sagt frá ástandinu þar. Þar kom fram að einn maður af hverjum tíu hefði atvinnu. Það finnst mér vera nokkuð sem betra er að átta sig á en verðbólgutölunum.

Einu sinni var það svo að þegar komið var í Tíðaskarð á leiðinni að norðan blasti ljósadýrðin í höfuðborginni við. Nú fara næstum allir í gegnum rörið undir fjörðinn. Við borun ganganna var gert ráð fyrir að sumir þyrðu ekki að fara í þau og færu frekar fyrir Hvalfjörð. Í eldgamla daga lá vegurinn fyrir Hvalfjörð rétt hjá Staupasteini sem hlýtur að vera þarna ennþá. Mig minnir endilega að hann sé ekki langt frá Tiðaskarði.

 

Bloggfærslur 19. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband