Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
1.7.2007 | 01:15
65. blogg
Svona byrjaði bragur einn sem ég af einhverjum ástæðum man eftir úr Speglinum gamla. Mynd sem fylgdi sýndi Bjarna Benediktsson sem síðar varð forsætisráðherra halda utanum míkrófón og hrista hann til og segja já, en mikrófónninn var hinn þverasti og sagði nei. Undir myndinni stóð að mig minnir sagði Bjarni já eða sagði hann nei?"
Myndin hefur næstum áreiðanlega verið teiknuð af Halldóri Péturssyni og þetta hefur eflaust verið þegar verið var að byrja að taka ræður þingmanna upp á segulband. Þingmenn hafa þá eins og nú áreiðanlega viljað túlka ummæli sín í samræmi við breyttar aðstæður.
Margt var um skemmtilega bragi í Speglinum. Ógleymanlegt er ljóðið um Stóru Bombuna. (Hver veit nær söðlar Daníel?) Faraldur var líka skemmtileg týpa. Ég man að ég las alltaf þáttinn hans sem ég held endilega að hafi verið nefndur: Rakarinn minn sagði:"
Baggalútur er um margt arftaki Spegilsins, þó mér finnist nú fyndni þeirra oft nokkuð einhæf og svo hafa þeir ekki þessa ógleymanlegu bragi.
Jarmið í Stebba Páls um Moggabloggið virðist vera að ná nýjum hæðum. Hann er nú tekinn upp á því, skilst mér, að reyna að rökstyðja þessa vitleysu sína. Á sama tíma er hann tekinn að hasast upp á því að finna nýja bölbæn um Moggabloggið í sérhverju af sínum bloggum.
Eiginlega nenni ég ekki að fjölyrða að neinu ráði um þetta en satt að segja hefur Stefán lækkað talsvert í áliti hjá mér við þetta allt saman. Ég les samt bloggið hans alltaf reglulega enda er hann fínn bloggari.
29.6.2007 | 19:39
64. blogg
Já, og svo blogga ég og satt að segja fer stundum nokkur tími í það því ég er talsverður stickler for" texta og nostra því stundum svolítið við hann. Ekki er ég sammála því sem ég las einhvers staðar á bloggi að bloggskrif væru einskonar talmálsritmál. Annað hvort skrifa menn læsilegan texta eða bulla bara.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _
Búið er að kalla út björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar vegna manns sem féll fram af klettum við brúnna við Laxárvirkjun. Féll maðurinn í ánna en náðist að komast upp á bakka hennar af sjálfsdáðum en kemst ekki alla leið upp vegna kletta. Sigmenn frá Björgunarsveitinni Garðari á Húsavík og Hjálparsveit skáta í Aðaldal eru á leið á staðinn til aðstoðar lögreglu og sjúkraliði.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _
Þetta er nýlegur texti af mbl.is og mikið skelfing er þetta lélegur texti. En svona er þetta yfirleitt á mbl.is. Það virðist sem liðléttingar sem ekki hafa einu sinni nennt að læra einföldustu stafsetningarreglur séu látnir um að skrifa fréttir þarna. Það er svo alveg undir hælinn lagt hvort þessi ósköp eru löguð til síðar eða ekki. Segi ekki meira.
Eitt af því merkasta sem við bar á heimleiðinni frá Fljótavík á þriðjudagskvöldið var tækifærið sem gafst til þess að sjá óviðjafnanlegar skýjamyndanir sem vindurinn hafði sorfið til og gert úr allskyns ótrúleg form sem sólin lýsti síðan upp með sínum einstæða hætti. Reyndar var minnst á þetta í sjónvarpsfréttum og það var satt að segja samfelld skemmtun alla leiðina að vestan að virða þetta fyrir sér.
29.6.2007 | 01:14
63. blogg
Einmitt þegar ég hélt að ég væri loksins búinn að ná einhverjum tökum á greinaskilum og þess háttar þá fer allt í fisk. Líklega hafa snillingarnir sem hér ráða ríkjum verið að laga einhvern andskotann. Meira að segja fonturinn er vitlaus.
En svo lengist lærið sem lífið eins og kerlingin sagði og vonandi gengur þetta betur næst.
Datt svo skyndilega í hug að reyna að breyta færslunni og það virðist hafa gengið bærilega.
Aldrei held ég samt að ég verði svo forframaður að ég skrifi beint á bloggsíðuna. Ég treysti einfaldlega ekki á að sambandið haldi eins lengi og ég vil vera að ganga frá skrifunum. Kannski væri ráð að fá sér bara sem einfaldastan ritil (edlin var þó í gamla daga einum of asnalegur fyrir mig) og reyna að setja sem ómengaðastan texta inn og breyta honum on line" eins og þarf. Athuga það.
Benni fékk íbúðina afhenta í dag og við Áslaug fórum með honum að skoða hana í kvöld. Hann þurfti líka að mæla ýmislegt og þessháttar. Á morgun ætlar hann að fá lánaðan sendiferðabíl og byrja að keyra dótið sitt í íbúðina.
Bloggskrifin hafa verið ansi gloppótt undanfarið og kannski verða þau það áfram. Það verður bara að hafa það, einhverjir virðast líta hingað öðru hvoru hvort sem er og er það vel.
Þegi þú, Niörðr, / þú vart austr heðan / gíls um sendr at goðom; / Hymis meyiar / höfðo þik at hlandtrogi / ok þér í munn migo.
Svo kvað Loki í Lokasennu sem ég var að enda við að lesa. Ég kannaðist svosem við þessa vísu en var búinn að gleyma henni. Svo segja menn að nútíminn sé kinky. Sumum kann að finnast þetta illskiljanlegt, en niðurlagið þar sem segir að Hymis meyjar höfðu þig að hlandtrogi og þér í munn migu," er ekki erfitt að skilja. Kannski höfðu menn áður fyrr annan skilning á klámi en í dag (eða ætti ég kannski að segja í gær") samanber Bósa sögu og Herrauðs og ýmsa kafla í Njálu og Grettlu sem frægir eru.
28.6.2007 | 14:00
62. blogg
Það var ekki fyrr en um ellefuleytið á föstudagsmorguninn sem við komumst af stað frá Reykjavík á þremur bílum. Fremst fóru Jói og Hafdís og var Benni með þeim. Síðan komu Guðmundur og Guðrún og við Áslaug ásamt Bjarna rákum lestina. Ferðin til Ísafjarðar gekk vel og ekki var stoppað nema á fáeinum stöðum. Þegar til Ísafjarðar kom þurftum við að bíða svolitla stund eftir fluginu en von bráðar fóru Jói, Guðmundur, Áslaug og Benni af stað til Fljótavíkur og nokkru seinna við hin.
Ferðin þangað gekk vel og ekki bar á flughræðslu að neinu ráði, en þó var sagt að Áslaug hefði haft augun lokuð allan tímann þrátt fyrir hjartastyrkjandi meðöl. Farangurinn var hinsvegar með mesta móti og varð að hluti af honum eftir en kom síðan norðureftir seinna um nóttina.
Náttúrufegurð er mikil í Fljótavík og ekki truflar áreiti dagblaða, sjónvarps og farsíma því ekkert slíkt þekkist þar. Strax á laugardag var haldið til veiða og veiddist fljótlega nóg til matar af silungi í sjónum þar. Einhverjir veiddu þar sína fyrstu fiska og allir fengu að prófa veiðiskapinn.
Á laugardagskvöldið (að mig minnir) fóru þeir hraustustu í fjallgöngu á Kögrið og komust Jói, Guðmundur, Bjarni og Benni alla leið upp til að virða fyrir sér miðnætursólina.
Næstu dagar liðu síðan við aðgerðarleysi og afslöppun, veiðiferðir eftir þörfum, gönguferðir, myndatökur og svefn. Veðrið var allan tímann skínandi gott og tóku sumir lit. Ekki gaf til göngu á Straumnesfjall því þar virtist þrálátur skýjahattur hafa tekið sér bólfestu.
Það var síðan seinni part þriðjudags sem við Áslaug ásamt Bjarna og Benna fórum að hugsa okkur til hreyfings. Flugvélin var pöntuð og kom um sexleytið.
Hliðarvindur, þyngd farþega, bleyta á flugvellinum og þess háttar olli því svo að við lá að illa færi eins og lýst var hér að framan, en allt fór þó vel að lokum og eftir tíðindalitla ferð suður á Subarunum komum við svo til Reykjavíkur um miðnættið en Hafdís og Jói ásamt Guðmundi og Guðrúnu ætla að dvelja í Fljótavík fram að næstu helgi.
UM NETÚTGÁFUNA (framhald)
Niðurhal á efni af Netinu mun án efa aukast á næstu árum hvað snertir tónlist, sjónvarpsefni og kvikmyndir. Væntanlega ná höfundar slíks efnis og dreifendur samkomulagi um fyrirkomulag sem verður neytendum til hagsbóta. Ég er sannfærður um að þeir sem sækja sér slíkt efni yfir Netið vilja fremur nota löglegt efni en ólöglegt.
Ein ástæða fyrir því að efni eins og kvikmyndir og tónlist á greiða leið að neytendum um Netið er eflaust sú að þar fær fólk efnið á líku formi og það er vant, það er að segja þess verður ekki neytt nema tæknin komi til aðstoðar.
Um bækur gegnir allt öðru máli, þær hafa fylgt manninum um aldir og munu gera lengi enn. Auðvitað er það samt svo að í raun eru bækur samsettar úr textaskrá sem hefur að geyma efni það sem er í bókinni og síðan tækinu til að koma efninu á framfæri sem er bókin sjálf.
Á sama hátt eru kvikmyndir og tónlist bara skrár sem hafa inni að halda upplýsingar um hvernig koma eigi efninu til skila. Af hverju hefur bókin fest sig svona í sessi að henni verður varla hnikað þaðan? Því er erfitt að svara en þó hefur mjög mikið af efni sem er tæknilegs eða vísindalegs eðlis að mestu hætt að koma út á bókum og blöðum en farið í þess stað á Netið.
Kannski munu bækurnar einhvern tíma verða úreltar en örugglega ekki nærri strax. Uppflettibækur og ýmsar handbækur munu þó eflaust eiga erfitt með að keppa við Netið, en bækur til skemmtunar, barnabækur og þær bækur sem kalla má prentgripi, munu eflaust halda gildi sínu enn um sinn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.6.2007 | 01:05
61. blogg
Fórum í gær upp að Drumboddsstöðum til að heimsækja Benna. Komum við í Hveragerði en hvorki Ingibjörg og Hörður eða Bjössi og Lísa voru heima svo við héldum bara áfram. Frá Drumboddstöðum fórum við að Skógum undir Eyjafjöllum til að skoða safnið þar.
Mikið hefur það safn stækkað síðan ég kom þangað síðast fyrir svona þrjátíu og eitthvað árum. Þórður Tómasson er þar samt ennþá og á margan hátt það merkilegasta sem þar er að sjá. Annars er samgöngusafnið að taka á sig skemmtilega mynd. Virkilega gaman að sjá alla þessa bíla og merkilegu vélar sem þar eru.
Að Skógum hittum við Guðmund, Hafdísi, Henry og Elínu ásamt fríðu föruneyti. Fylltum m.a. nokkurn veginn skólahúsið sem þar er til sýnis fyrir myndatökur af hópnum.
Íbúðin hjá Bjarna er komin í sölu og hann er strax farinn að fá fólk til að skoða. Charmaine er búin að taka á leigu íbúð á Bahamas.
Á föstudaginn förum við væntanlega 8 saman áleiðis í Fljótavík. Vonandi verður veðrið gott.
UM NETÚTGÁFUNA (framhald)
Bókaútgáfa fer vaxandi hér á Íslandi og þó dýrt sé að prenta bækur fer tækninni í því efni sífellt fram og prentvélarnar verða stöðugt fullkomnari. Nú er svo komið að vélar þurfa ekki annað en tölvuskrá með handriti bókarinnar til að geta búið til bækur.
Þetta er kallað "print on demand" eða "publish on demand" og hefur rutt sér nokkuð til rúms í Bandaríkjunum og víðar undanfarin ár.
Það eru einkum lítil útgáfufyrirtæki sem nýta sér þessa þróun og svo höfundar sem vilja af einhverjum ástæðum gefa út bækur sínar sjálfir, hvort sem það er af einhvers konar metnaði, eða þá að þeir telja sig einfaldlega geta haft meiri tekjur af skrifum sínum með þessu móti.
Kosturinn við þessa aðferð er sá að það er ekkert sem heitir startgjald og bækurnar sem gerðar eru með þessari aðferð kosta jafnmikið í prentun hvort sem prentuð eru tvö eintök eða tvö þúsund, eða jafnvel tvö hundruð þúsund.
Fyrirtæki í Bandaríkjunum bjóða t.d. höfundum að prenta fyrir þá bækur fyrir 500 dollara eða svo. Þá fær höfundurinn svona 50 bækur sjálfur og 30 % af útsöluverði bókarinnar í sinn hlut og allskonar þjónustu og aðstoð frá fyrirtækinu, auk þess sem verkið tekur ekki langan tíma.
(niðurlag næst)
17.6.2007 | 09:09
60. blogg
Benni er í bústaðnum á Drumboddsstöðum. Fór þangað á Volvoinum á föstudaginn því Toyotan er með bilaðan vatnskassa en var reyndar alveg til friðs ofan frá Húsafelli.
Í lok næstu viku stendur til að við förum í Fljótavík. Bjarni er að ljúka við að setja íbúðina í stand og í gær fór ég og hjálpaði honum að setja upp hurðina fyrir baðið. Á mánudaginn er væntanlegur maður frá fasteignasölunni til að taka myndir.
Á þriðjudaginn var fundur hjá okkur upp í Mjólkursamsölu þar sem við fórum yfir mæladót og þess háttar sem fylgjast þarf með. Annars er ég kominn í sumarfrí og vinn ekki í næstu viku. Um mánaðamótin byrja ég svo aftur að vinna og á inni afganginn af sumarfríinu.
Veðrið er svosem ágætt um þessar mundir. Ekki sólskin og lítill vindur en heldur kalt. Vonandi verður gott veður í næstu viku, svo er mér sama þó fari að rigna og kólna. Guðmundur Grettisson sagði mér að hann hefði siglt framhjá Fljótavík um daginn og þá hefði verið þar snjór alveg niður í fjöru.
Vorum í grillveislu í garðinum hjá Hafdísi og Guðmundi í gær. Þar var stærðar tjald og logandi í tveimur ofnum. Samt sem áður var hálfkalt þar. Benedikt Henry er á Íslandi um þessar mundir og margir mættu í veisluna. Benni kom frá Drumboddsstöðum og hann og Bjarni fóru dálítið á undan okkur. Ég drakk þar marga bjóra og var farinn að finna svolítið á mér undir lokin svo Áslaug keyrði heim.
Í dag er sunnudagur og á eftir förum við Áslaug sennilega til þess að hjálpa Bjarna að koma íbúðinni í stand fyrir morgundaginn.
UM NETÚTGÁFUNA (framhald)
Þó saga Netútgáfunnar sé merkileg í sumra augum þá bendir hún svosem ekki á neinn hátt til framtíðar. Það er mála sannast að víða um lönd eru á Internetinu söfn þjóðlegra bókmennta sem komin eru úr vernd höfundarlaga.
Netútgáfan var að mörgu leyti einstakt framtak á sínum tíma og ég er dálítið hissa á því að ekki skuli hafa komið fram neitt hliðstætt á þeim 5 árum sem Netútgáfan hefur ekki starfað.
Margt hefur þó gerst í sambandi við bóka- og tímaritaútgáfu á Netinu, en flest er það tengt vísindum og fræðum. Varahlutalistar og allt þess háttar er eiginlega alfarið komið á Netið líka, en bókaútgáfa fyrir almenning hefur alls ekki færst þangað.
Margar tilraunir hafa verið gerðar til þess víða um lönd að selja bækur á lágu verði sem tölvuskrár en þær tilraunir hafa ekki tekist ýkja vel. Það er ekki nóg að hafa yfir merkilegu efni að ráða, ef fáir eða engir vita af því. Kynningarmálin hafa oftast nær verið erfiðast hjallinn hjá þeim sem vilja hasla sér völl án þess að leita til hinna hefðbundnu bókaforlaga.
Einnig er það óneitanlega svo, að enn þykir flestum betra að lesa sér til skemmtunar á bók heldur en á tölvuskjá og ef prenta á út þær tölvuskrár sem keyptar eru er sparnaðurinn enginn orðinn hjá neytendunum. Einnig hefur tilfærsla fjármuna á Netinu alltaf verið dálitlum erfiðleikum háð og mörgum finnst enn eins og á árdögum Netsins að þar eigi allt að vera ókeypis.
Þegar við vorum að hefja starfsemi Netútgáfunnar var það ofarlega í huga margra að bækur og bóklestur væri heldur á undanhaldi. Netið mundi að miklu leyti taka yfir hlutverk bókanna og fólk mundi sækja sínar bækur og tímarit í sívaxandi mæli af Netinu.
Svo hefur þó alls ekki farið, bókin heldur svo sannarlega velli. Oft hefur það verið svo að menn hafa illa séð fyrir hvert tækninýjugar stefna. T.d. álitu sumir símann ekki vera merkilega uppfinningu á sínum tíma.
Ég held að bókin (og blöðin) haldi einkum velli vegna þess að prentað mál hefur beinan og milliliðalausan aðgang að lesendum. Allir aðrir miðlar þurfa að einhverju marki að leita á náðir tækninnar og þar eru sífellt að koma fram nýjungar sem á stundum gera það sem eldra er úrelt.
13.6.2007 | 17:56
59. blogg
Aftur á móti hendi ég gömlum blöðum alveg villi vekk ef ég kæri mig ekki um að eiga þau. Einu sinni þegar ég var á Vegamótum henti ég mörgum árgöngum af Time magazine og var eiginlega hálfskammaður fyrir það af einhverjum Strymplinganna því þeir vildu gjarnan eiga þau. Einu gömlu blöðin sem ég vil ekki eiga og hika við að henda eru National Geographic. Myndirnar í þeim eru oft nokkuð góðar.
Að sumu leyti er Moggabloggið eins og ruslakista. Ég hef t.d. gert það nokkrum sinnum að henda þangað inn skrám eða hlutum af skrám sem ég hef skrifað áður og af öðru tilefni. Þannig var það t.d. með frásögnina af því þegar Bláfell brann, sem einhverjir af lesendum mínum muna kannski eftir. Hana hafðí ég skrifað nokkru áður en ég byrjaði að blogga en ekki gert neitt við, svo það var upplagt að nota þá frásögn í nokkrum pörtum í bloggið.
Sama sagan er núna. Ég tók saman í fyrra svolitla frásögn um Netútgáfuna fyrir fund eða einskonar ráðstefnu á Selfossi og nota hana núna sem uppistöðu í frásögn mína um það fyrirbrigði.
Þetta sé ég að fleiri gera og auðvitað er ekkert athugavert við þetta. Ef lesendur taka þessu með jafnaðargeði getur þetta sparað mörg lyklaborðs-slög.
UM NETÚTGÁFUNA (framhald)
Það var um haustið 2001, sem Netútgáfan hætti að gefa út nýtt efni. Ástæðan fyrir því var einfaldlega sú að við gátum ekki lengur séð af öllum þeim tíma sem í þetta fór. Allan þann tíma sem Netútgáfan starfaði fékk hún aldrei neinn annan styrk en þann sem fólginn var í þeim ókeypis aðgangi að Netinu sem Snerpa ehf. á Ísafirði veitti okkur og veitir enn.
Þau ár sem við stunduðum útgáfu á Netinu kom okkur á óvart að rithöfundar virtust ekki hafa áhuga á að setja gömul verk sín á Netið til kynningar. Okkur fannst það blasa við að hjá langflestum rithöfundum væri höfundarréttur að löngu útgefnum verkum orðinn harla lítils virði.
Ég hef nokkrum sinnum reynt að stuðla að því að endurvekja Netútgáfuna í svipuðu formi og hún var. Nægilegt efni er til þó ekki sé hugsað til þess að gefa út annað efni en það sem höfundarréttur er runninn út á eða hefur af einhverjum ástæðum aldrei verið nýttur. Netútgáfan hefur unnið sér nokkurn sess einkum meðal skólafólks og ef haldið yrði áfram á svipaðri braut og gert var mundi það eflaust auka veg hennar. Nauðsynlegt er þó að bæta á allan hátt útlit vefsins, koma upp leitarvél og gera ýmislegt fleira. Gæta þarf þess þó, eins og við höfum alltaf gert, að aðgangur blindra og sjónskertra að efni útgáfunnar versni ekki.
Ekkert er því til fyrirstöðu að endurvekja starfsemina. Það eina sem þarf er tryggt fjármagn eða að einhverjir einstaklingar eða hópar séu tilbúnir til að leggja fram þá vinnu sem til þarf.
9.6.2007 | 21:37
58. blogg
Ætli þetta hafi ekki verið 1962 eða svo. Við borguðum 72 þúsund krónur gamlar fyrir þennan eðalvagn. Fyrst var rætt um 70 þúsund en þegar Gunnar sagði að einhver annar hefði viljað kaupa hann á það hækkuðum við tilboðið um heilar tvöþúsund krónur.
Seinna meir keypti ég hlut Vignis í bílnum og eftir árekstur var bíllinn sprautaður beige-litur en hafði upphaflega verið grár.
Vignir var næstum kominn útaf á bílnum í fyrsta sinn sem við fórum í reynsluakstur á honum. Hann gleymdi að rétta bílinn af þegar hann beygði inn á Breiðumörkina eftir að við höfðum farið í smáferðalag upp í Kamba.
Eitt sinn tók ég eftir því á Selfossi að loftlítið var orðið í einu dekki undir bílnum. Ég tók mig þá til og bætti lofti í dekkið, en það hefur eflaust verið of mikið, því það var eins og ég væri kominn á járnhjól þegar ég keyrði af stað.
Þennan bíl átti ég í nokkur ár. Yfirleitt keyrði ég hann með bensínið í botni enda var vinnslan ekki mikil. Þegar best lét tókst mér að koma honum í svona 120 á beinum og breiðum vegi. Athuga ber að á þessum tíma voru allir þjóðvegir malarvegir.
Næsti bíll sem ég eignaðist var Moskovits og hann keypti ég 1969 eða 1970 skömmu áður en við fluttumst á Snæfellsnesið.
UM NETÚTGÁFUNA (framhald)
Á árunum 1993 og 1994 gaf ég út tímaritið Rafritið sem var einkum merkilegt fyrir þá sök að það var næstum aldrei prentað út, heldur aðeins dreift sem tölvuskrá. Rit þetta er að sjálfsögðu að finna á vef Netútgáfunnar. (www.snerpa.is/net)
Á árunum 1994 til 1996 var unnið að undirbúningi Netútgáfunnar og var það einkum dóttir mín Hafdís Rósa sem það gerði. Hún átti einnig hugmyndina að nafninu. Upphaflega ætluðum við okkur að koma Netútgáfunni á fót í samstarfi við Ísmennt, sem var eitt af allra fyrstu Internetfyrirtækjum landsins. En um þetta leyti var skipulagi þess fyrirtækis breytt og ákveðið að það yrði eingöngu fyrir skóla landsins.
12. janúar 1997 tók Netútgáfan til starfa. Internetfyrirtækið Snerpa á Ísafirði sem Björn Davíðsson rak þá, veitti okkur netaðgang og netpláss eftir þörfum án endurgjalds. Nútildags þykir ekki mikið að hafa aðgang að nokkrum tugum megabæta á Netinu en á þessum tíma var það nokkurs virði.
Þegar Netútgáfan hóf starfsemi áttum við orðið í fórum okkar 4 íslendingasögur, 5 fornaldarsögur Norðurlanda, ýmis fornkvæði, Rafritið allt, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og einar 8 þjóðsögur.
Ég man að 16. nóvember (á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar) árið áður en Netútgáfan hóf starfsemi sína var heilmikið húllumhæ og stofnað til svokallaðs dags íslenskrar tungu. Það munaði ekki miklu að við værum tilbúin með að starta Netútgáfunni þá, en það tókst ekki alveg.
Allan þann tíma sem Netútgáfan starfaði, gáfum við út eitthvert efni um hver mánaðamót. Stundum meira og stundum minna eins og gefur að skilja. Meðal verka sem komu út á þessu tímabili má nefna: Biblíuna (í samstarfi við Hið íslenska biblíufélag) Njáls sögu og mikinn fjölda íslendingasagna og ýmissa fornrita, Pilt og Stúlku og Mann og Konu efir Jón Thoroddsen, Höllu og Heiðarbýlið og raunar mikið af verkum Jóns Trausta, en hann dó eins og kunnugt er, langt um aldur fram í spænsku veikinni árið 1918. Passíusálmana, Ljóðasafn Jónasar Hallgrímssonar og svo mætti lengi telja.
Framhald síðar.
8.6.2007 | 23:27
57. blogg
Þetta eru skondin ummæli, því Egill Helgason er einn af þekktustu bloggurum landsins og hefur bloggað árum saman. En nóg um það.
Á Morgunblaðsvefnum var í gær skýrt frá því að Konungsglíman hefði verið rifjuð upp á Þingvöllum.
Frá því er sagt í ævisögu Jóhannesar á Borg að Lárus Rist (sem lengi var sundkennari í Hveragerði) og fleiri hafi í árdaga Ungmennafélags Akureyrar í byrjun tuttugustu aldar stigið á stokk og strengt heit. Lárus mun hafa strengt þess heit að synda yfir Eyjafjörð (sem hann og gerði) Einhver ónafngreindur á að hafa stigið þar á stokk og strengt þess heit að verða 100 ára gamall eða liggja dauður ella.
Minnugur þessa strengdi Jóhannes þess heit að sigra í konungsglímunni árið 1907eða heita minni maður ella. Það var Hallgrímur Benediktsson sem vann eftirminnilegan sigur í konungsglímunni og Jóhannes var lengi eftir þetta kallaður Jóhannes minni maður.
Annars var konungskoman árið 1907 um margt merkisatburður. Í tilefni af henni var svokölluð "Konungsbrú" gerð yfir Brúará til að kóngur gæti séð merkisfyrirbrigði það sem Geysir nefnist. Ruddur var sérstakur vegur frá konungsbrú að Geysi og sér hans enn stað. Brúin stendur einnig ennþá og er nokkrum kílómetrum ofar við ána en brúin er yfir hana þar sem þjóðvegurinn er núna.
Fyrir fáeinum árum var ég á þessum slóðum og fór meðal annars um "Konungsveginn" svokallaða sem nú er aðeins notaður sem reiðgata. Við dvöldum í sumarhúsi á þessu svæði og vegurinn þangað lá yfir konungsveginn.
Daginn eftir að ég lagði leið mína þarna um rakst ég á japanskan ferðamann á rangli um veginn að sumarhúsinu. Hann spurði um konungsveginn og sýndi mér kort þar sem hann var merktur inn á. Þegar ég sýndi honum hvar vegurinn var ætlaði hann ekki að trúa mér, því ekki sáust mikil merki um hann í landslaginu þar sem við vorum.
UM NETÚTGÁFUNA
Þó margir virðist álíta að það sé tiltölulega nýtilkomið að bækur séu gefnar út á Netinu, fer því fjarri að svo sé.
Það var árið 1971 sem Project Gutenberg hóf starfsemi sína og þó hægt hafi gengið til að byrja með, er það magn bóka sem nú er gefið út á vegum Gutenberg gríðarlega mikið.
Eins og mörgum er kunnugt gefur Gutenberg út bækur, sem ekki er lengur virkur höfundarréttur á, í tölvutæku formi á Netinu og eru þær tiltækar hverjum sem er án endurgjalds. Margir leggja þar hönd á plóg og eru tugir ef ekki hundruð bóka á ensku og ýmsum öðrum tungumálum gefin út í hverjum mánuði.
Uppruna Netútgáfunnar má má rekja til ársins 1990, en þá ákvað sonur minn að slá Bandamannasögu inn á tölvuna sína. Það gerði hann einkum til að æfa sig í fingrasetningu. Bandamannasögu var síðan dreift með efni sem við dreifðum á vegum PC-tölvuklúbbsins. Þar var einkum um að ræða Shareware leikjaforrit og ýmislegt þessháttar.
Árið 1992 tók vefsetrið Runeberg til starfa og einbeitti sér að útgáfu norrænna rita með svipuðum hætti og Gutenberg gaf út enska texta. Fljótlega sendi ég Bandamannasögu til Runeberg og nokkru seinna sló dóttir mín Hafdís Rósa Grænlendingasögu og Grænlendingaþátt inn á tölvu og þær sögur voru einnig sendar til Runeberg.
Framhald síðar.
7.6.2007 | 19:39
56. blogg
Að þessu sinni var séra Magnús ríðandi á brúnum hesti. Með í flokki var brún hryssa sem líktist nokkuð hesti Magnúsar. Eitt sinn þegar áð hafði verið settist Magnús í ógáti á bak merinni. Samferðafólkið lét kyrrt liggja en skömmu síðar þegar stansað var og sumir hestanna þurftu að kasta af sér vatni gellur í Magnúsi: "Hér þarf eitthvað við að athuga. Sjáið hvernig sá brúni mígur" og er það haft að orðtaki síðan.
Borgarbarn nokkurt í sveit var að lýsa hestum sem það hafði haft einhver afskipti af og lýsti einum hestanna þannig að hann hefði verið skjöldóttur. Þessi fráleita orðnotkun varð til þess að umræddur hestur var alsaklaus uppfrá því aldrei kallaður annað en "Skjöldótta merin!"
Þeim sem lítið vita um litarlýsingar gripa skal bent á að aðeins kýr geta verið skjöldóttar. Séu hestar þannig á litinn eru þeir skjóttir. Þegar ég fór í sveit í fyrsta sinn var mér sagt að aldrei væri sagt að hestar væru hvítir eða svartir heldur alltaf gráir eða jarpir. Hestarnir tveir á bænum hétu auðvitað Gráni og Jarpur og var annar þeirra hvítur en hinn svartur.
Ég hef ekki oft komið á hestbak og líklega dottið næstum því eins oft af baki. Mér er þó minnisstætt að þegar ég fór fyrst á bak var það fyrir framan strák sem útskýrði fyrir mér hvað gangtegundir hestsins hétu. Það endaði auðvitað með því að við duttum báðir af baki.
Einu sinni ætlaði ég að stela mér hesti og ríða eitthvert út. Gerði einskonar beisli út snærisspotta og fann heppilegan og óhvumpinn klár. Þegar ég var kominn á bak ákvað hesturinn að fá sér smávegis að bíta og þarsem þetta var í nokkrum bratta gat ég ekki með neinu móti stöðvað mig þegar hesturinn beygði sig fram og rann framaf honum.
Eitt sinn kom ég á hestamannamót á Hvítárbökkum í Borgarfirði og hitti þar Ingólf á Flesjustöðum sem þar var drukkinn með tvo til reiðar. Hann vildi endilega að ég færi á bak aukaklárnum og ætlaði sjálfur á bak hinum og tók undir sig stökk en fór því miður yfir hestinn og niður hinum megin. Ég man að það sem vakti hvað mesta athygli mína á þessu hestamannamóti var hve mikill fjöldi manna var þar mígandi út um allar jarðir.