3127 - Úkraina

Aldrei í veraldarsögunni hefur stríðshetja orðið til með jafn skjótum og afgerandi hætti og nú á undanförnum dögum. Það getur verið að Rússar leggi undir sig Úkrainu alla og drepi jafnvel Zelensky sjálfan, en með athöfnum sínum síðustu daga hefur hann a.m.k. breytt hugsunarhætti allra Evrópubúa og losað okkur endanlega við svínið Pútín. Sú bylting sem gjörbreytt hefur fjölmiðlun allri á án vafa einhvern hlut að máli, en þáttur Zelenskys er mikill. Hann hefur reynst sannur fulltrúi sinnar þjóðar og engum vafa er undirorpið að varnarviðbrögð Úkraníubúa hafa vakið aðdáun allra Evrópubúa og valdið Pútín og hirð hans miklum vonbrigðum. Margt á að vísu eftir að gerast í þessu stríði en þetta er ljóst nú á þessari stundu, sem er nokkuð snemma á mánudagsmorgni 28. febrúar á Íslandi.

IMG 3988Einhver mynd.


3126 - Ein örsagan enn

Einkennilegt með þetta bloggstand á mér. Örsögurnar virðast njóta mestra vinsælda. Þó legg ég mig ekkert sérstaklega fram við þær. Ef einhverjir bláþræðir koma í ljós við skrifin er einfalt að skrifa sig framhjá þeim. Við yfirlesturinn bæti ég fyrst og fremst greinaskilum og gæsalöppum við en breyti að öðru leyti sem minnstu. Kannski eru þessar svokölluðu örsögur einhvers virði. Hvað veit ég? Það er ekkert erfitt finnst mér að skrifa bæði blogg og dagbókarfærslur um svotil sama efnið. Ef einhver skyldi í framtíðinni lesa þetta gæti orðið mesta gestaþraut að púsla þessu saman. En mér er nú sama um það. Þar að auki skrifa ég ekki um nærri því allt sem mér dettur í hug. Skárra væri það nú.

Eiginlega er hundleiðinlegt að vera gamall. Það er svo margt sem maður gat auðveldlega hér áður fyrr, en getur ekki nú. Samt sem áður er það nú svo að flestir eða næstum allir koma vel fram við mann og af kurteisi og væntumþykju. Ekki er hægt að neita því. Þó á að sleppa veirufjandanum lausum núna og er það í samræmi við óskir þeirra sem mest hafa orðið fyrir barðinu á honum. Nú verðum við gamla fólkið að sjá um okkur sjálf að þessu leyti. Við erum ekki óvön því. Og ekki er til mikils ætlast. Við leikum okkur að því að vara okkur og erum vön því. Einkum með því að gera sem minnst og fara sér sem hægast að öllu. Verst er að sætta sig við að dauðinn situr um mann og ekki má slaka mikið á til þess að hann eiri manni ekki.

Ég er að ég held búinn að skrifa eina örsöguna til. Kannski ég láti þetta verða febrúarskrifin. Ég er ekki vitlausari en það að ég veit mætavel að kominn er febrúar. Á morgun á ég tíma hjá augnlækninum og ég er alveg fær um að aka bílnum til Reykjavíkur. Hér er semsagt sagan:

Guðmundur leit framaf hengifluginu. Alltaf fékk hann núorðið undarlega tilkenningu í hnésbæturnar ef hann leit framaf svölum á háhýsi eða framaf þverhnípri klettasnös. Þetta var ekki svona. Áður fyrr lék hann sér að því að horfa framaf mörg hundrum metra lóðréttum hamravegg án nokkurra aukaverkana. Ellin hafði að þessu leyti náð tökum á honum rúmlega sextugum. Þó fann hann sáralítinn mun á sér hvað þol og snerpu varðaði. Hann hafði jafnvel komið með þá tillögu í góðra vina hópi að vel mætti breyta spakmælinu: „Allt er fertugum fært“ í „Allt er sextugum fært“. Það stuðlaði að vísu ekki eins og hið fyrrnefnda gerði, en við því var lítið að gera.

Nú var hann í fjallgöngu með nokkrum öðrum, sem hann þekkti ekki mikið. Útivistarklúbburinn sem hann var þátttakandi í hafði fyrir skemmstu auglýst ferðalag á Öræfajökul og þar sem Guðmund hafði lengi langað að fara þangað ákvað hann að slá til. Honum til nokkurra vonbrigða voru félagar hans uppteknir við annað á þeim tíma sem ferðin var ákveðin. Hann ákvað nú samt að fara.

Hópurinn taldi samtals 13 manns. Auðvitað vissi Guðmundur að margir litu á það sem óhappatölu, en hann taldi sig allsekki vera hjátrúarfullan. Þegar hann var markmaður í fótboltanum í eldgamla daga vildi hann helst vera númer þrettán. Það fékk hann nú ekki nema stöku sinnm. Að vísu náði hann aldrei neitt sérlega langt í markvörslunni. Það taldi hann þó ekki stafa af skyrtunúmerinu, heldur áleit hann sig ekki nærri nógu góðan í markinu. Og hætti því.

Það voru semsagt þrettán alls sem ætluðu sér að ganga á Öræfajökul að þessu sinni. Guðmundur áleit sig allsekki sísta göngumanninn þó hann væri sennilega elstur. Einn af ungu mönnunum var svo glænepjulega klæddur að Guðmundur var viss um að hann mundi gefast fljótlega upp.

Þeir þrömmuðu nú af stað og eftir 10 tíma voru þeir komnir ansi hátt. Þá varð á vegi þeirra jökulsprunga bæði stór og mikil. 

Sá glænepjulegi var þegar þarna var komið fremstur, aldrei slíku vant. Hann stökk léttilega yfir sprunguna og beið svo eftir hinum. Þeir komu ekki en reyndu hver á eftir öðrum að stökkva yfir, en hurfi jafnskjótt í hyldýpi sprungunnar. Að lokum var enginn eftir nema Guðmundur, sem eftir langt tilhlaup stökk vandræðalaust yfir sprunguna.

Nú voru þeir bara tveir eftir; Glænepjan og Guðmundur. Þeir héldu nú áfram því þeir töldu sig engan tíma mega missa. Fyrr en varði komu þeir á topp jökulsins. Eftir myndatökur og ýmislegt sýsl sneru þeir við og fóru í slóðina sína, sem var vel sjáanleg, þrátt fyrir svolítinn skafrenning.

Þegar þeir komu að sprungunni biðu þeirra ellefu draugar og tóku þá og hentu þeim ofan í jökulinn og lýkur þar með þessari sögu, enda var enginn eftir.

IMG 3989Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband