24.4.2025 | 11:49
3246 - Tollar o.þ.h.
Ég er sennilega að koma til. Nú hef ég tekið upp í bili tveggjaputta aðferðina, fingrasetningin kemur ekki.
Hugsa mikið um Trump. Hvílík hringavitleysa. 150% tollur í dag. Enginn á morgun. Er engin leið að stöðva vitleysisganginn?
Annars virðist Trump vera óskaðlegri núna en síðast, þó er greinilegt að það er hægri-bylgja í heiminum nú um stundir. Aldrei heyrir maður um vinstri-bylgju nema eftirá. Þó skyldi maður ætla að hún fari á undan hægri-bylgju.
Þó ýmislegt sé hægt að skrifa um núna ætla ég að sleppa því vegna þess að ég er alls ekki búinn að ná upp æskilegum hraða í vélrituninni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2025 | 22:54
3245 - Bit-coin
Þetta er líklega aprílinnleggið mitt.
Líklega var ég eitthvað að hallmæla bit-coin í síðasta bloggi. Það held ég að hafi verið vegna þess m.a. að eftir allar þær tilfæringar (sem ég hef engan skilning á) sem fram fara á svonefndum gagnaverum, sé illmögulegt eða ómögulegt að rekja uppruna færslanna og þannig komi þær glæpamönnum og hvers kyns vafagemlingum til góða, auk annarra.
Ég er alls ekki búinn að ná mér eftir kóveitið í lok árs 2022 og þessvegna brá mér heil ósköp þegar mér var tilkynnt um daginn að ég væri með kóveit-19, en það er víst næsta meinlaust orðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.3.2025 | 23:06
3244 - Raf-Eitthvað
Sennilega er hægri bylgja í heiminum núna. Samt er ég vinstri sinnnaður, og skammast mín ekkert fyrir það. Auðvelda leiðin er að vera hægri sinnaður. Hægri-sinnar virðast hafa Trump í liði með sér nú um stundir og flestir eru skíthræddir við hann. Ég er það ekki enda býst ég ekki við að hann geti gert mér nokkuð. Eða nenni því.
Hvað er crypto-currency? (eins og til dæmis bit-coin)
Fyrir mér er það fremur gegnsætt pýramítasvindl.
Svindlarar eins og Musk og Trump hugsa ekki þannig. Þarna eru peningar og völd sem hægt er að nýta sér, og þá skal það gert. Þannig hugsa þeir.
Held reyndar að Bandríkjamenn fái bráðlega leið á Trump og hann verði settur af.
Annaðhvort það eða það verður borgarastyrjöld í USA.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2025 | 14:46
3243 - Um mig
Ekki virðist það ætla að ganga. Ég meina regluleg blogg.
Ekkert kemur víst af sjálfu sér.
Veit ekki hvað ég á að skrifa um. Best að ég skrifi sem mest um sjálfan mig. Í því efni ættti ég að vera sérfræðingur. Aðrir hafa ekki áhuga. Hef mikið verið að horfa á youtube að undanförnu. Mest á rússneskt og kínverskt efni. Matarefni allskonar líka. Samt er ég lélegur kokkur.
Um að gera að skrifa ekki mikið til að byrja með. Þegar mér fer fram með fingrasetningu o.þ.h. lagast það vonandi. Ekki ætla ég þó að skrifa pólitíska langhunda.
Er vongóður um að mér leggist eitthvð til.
Hættur í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.3.2025 | 06:26
3242 - Tími til kominn
Ef ég á einhverntíma að fara að blogga reglulega aftur, eins og mig dreymir raunverulega um, er tími til kominn að hefjast handa. Ekki get ég beðið eftir því að fingrasetningin komi af sjálfu sér.
Ég hef ignórerað bæði póstinn og fésbókina að undanförnu og það gengur ekki. Ef ég á að rífa mig upp úr þessum aumingjaskap, verð ég að gera það sjálfur. Get ekki treyst á aðra.
Kannski verður þetta innlegg til þess að ég taki við mér. Það er engin sérstök ástæða fyrir þessum ósköpum, eins og mánaðarlegt blogg til dæmis, að þessu sinni.
Ætli þetta sé ekki nóg núna. Ég hef margt að skrifa um. Kannski ég skrifi mest um sjálfan mig framvegis. Aðrir gera það ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2025 | 11:18
3241 - Heimsmálin og fleira
Já, ég veit vel að það er stefna flestra sveitarfélaga að gamalt fólk sé heima hjá sér eins lengi og kostur er. Samt er það svo að þröskuldar og hvers kyns mishæðir, hurðarpumpur, rok og þessháttar er oft hindrun á vissan hátt.
Þegar maður er kominn á minn aldur (ég verð 83 ára næsta haust) sættir maður sig yfirleitt við það sem maður hefur og gerir sjaldan kröfu um meira, en öll breyting verður fyrirkvíðanleg.
Trump var af nægilega mörgum Bandaríkjamönnum álitinn skárri kostur en Kamala Harris. Hugsanlegt er að tugir þúsunda Demókrata hefðu leikið sér að því að sigra Trump, en á það reyndi aldrei.
Ég skildi aldrei hversvegna Demókratar kusu ruglað gamalmenni til að fara í forsetaframboð fyrir sig á síðasta ári, satt að segja. Þegar Biden þóttist vera að hlaupa var það beinlínis hlægilegt og brjóstumkennanlegt.
Trump stefnir á einangrun að mínu viti, og vel getur verið að honum takist það. Þá er ég hræddur um að Kínverjar muni sigla framúr Bandaríkjamönnum á flestum sviðum fyrr en ella.
Hættur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2025 | 08:46
3240 - Skyldurækni
Ég er andvaka. Klukkan er rúmlega 5 og kannski er ég búinn að sofa nóg. Fór snemma að sofa í gærkvöldi. Hver veit nema ég sé að komast í bloggstuð.
Vona að mér fyrirgefist þó ég skrifi fyrst og fremst um sjálfan mig. Að blogga er það eina sem ég kann.
Er venjulega heltekinn af einni hugsun á hverjum morgni, svo þetta er öðrum þræði dagbók, sem ég get flett upp í þegar ég vil. Kannski ég skrifi reglulega upp frá þessu. Hraðinn er að aukast.
Seinna.
Ekki er miklu við að bæta. Fæ mat á eftir um ellefu. Og Jói kemur liklega á eftir. Veit ekki með Bjarna. Á morgun verður skúrað og þurrkað af hérna. 2 pólskar konur koma hingað væntanlega.
Kannski ég setji þetta upp og hætti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2025 | 20:49
3239 - Árans kóvítið og krabbameinið
Nú má segja að nýtt tímabil hefjist í mínu lífi, því konan mín til meira en 60 ára er látin. Kannski verður þetta tímabil stutt. Ég ræð litlu um það. Á mánudaginn kemur (þann 10. febrúar) verða tvö ár liðin frá því ég endurfæddist til skilnings á því hve þýðingarlaus ég er í samhengi hlutanna, en framað því hafði ég haldið að ég skipti einhverju máli. Þann dag kom ég heim af sjúkrahúsi eftir mögnuð veikindi.
Ekki ætla ég mér þá dul að fara að ræða um konuna mína hérna enda væri það ekki viðeigandi en læt þess að sjálfsögðu getið að hennar er sárt saknað af systkinum sínum, afkomendum og mörgum fleirum.
Er öfgahægrið að ná völdum í veröldinni? Uppgangur Trump-ismans gæti bent til þess. Eins og ég skilgreini öfgahægrið er það andstæðan við villta vinstrið. Alheims-stjórnmál eru ásamt mörgu öðru mitt helsta áhugamál um þessar mundir. Kannski ræði ég það nánar á næstunni.
Nú er ég hættur. Best er að hafa innleggin í bloggið fremur stutt. Þá eru þau frekar lesin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.1.2025 | 09:16
3238 - Skrifað fyrir löngu
Nú er kominn 5. Janúar og ef ég á að bæta mig eitthvað í bloggskrifum er kominn tími til að standa við það. Veit ekki hvort mér tekst það eða ekki, en ég ætla að reyna.
Hvað boðar nýárs blessuð sól?
hún boðar nátúrunnar jól...
Orti Matthías fyrir margt löngu.
Og víst er um það. Sólin er farin að hækka á lofti, þótt ekki sé það mikið.
Ný ríkisstjórn er líka tekin við hérna á ísa köldu landi og vel gæti hugsast að hún fái fleiri hveitbrauðsdaga en algengast er.
Trump tekur við forsetaembættinu í Bandaríkjunum 20. Janúar að ég held og ef hann framkvæmir eitthvað af því sem hann segist ætla að gera er hætt við að hann verði óvinsæll í Evrópu og jafnvel víðar. Kannski ég fari að athuga hvað ég sagði um hann árið 2016. Það hefur áreiðanlega ekki allt verið fallegt. Kannski tek ég minna mark á honum nú en þá.
Nú er ég hættur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2024 | 22:51
3237 - Um heimsmál
Nú er klukkan rúmlega eitt á laugardegi milli jóla og nýárs og árið er 2024. Samt er ég að hugsa um að byrja á næsta bloggi, því ég er í sæmilegu skrifstuði. Kannski er ég að koma til í þessu. Aldrei að vita.
Ég er vinstri sinnaður í pólitík á því er enginn vafi. Og ég skammast mín ekki nokkurn hlut fyrir það þó ég bloggi hér. Þægilegast finnst mér að skipta flokkum eftir þeim línum. Þ.e. í vinstri og hægri. Auðvitað skil ég að sú skipting er dálítið úrelt, en samt hjálpleg. Einnig finnst mér þægilegt að skipta flokkum eftir heimsmálum og oft er það ágætt. Annars er flokkspólitík yfirleitt mannskemmandi.
Nú um stundir finnst mér oft best að skipta flokkum eftir svæðum, ef annað er ekki hægt. Þannig eru, að mér finnst, Vestrurlandabúar yfirleitt einstaklingshyggjumenn en þeir sem búa í Austurlöndum meira fyrir samvinnuna.
Kannski ég láti þetta duga að sinni, enda er ég búinn að vera lengi að þessu og skrifa hægt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)