Bloggfærslur mánaðarins, mars 2023
22.3.2023 | 22:57
3165 - Ýmislegt o.fl.
Ég er að hugsa um að fara að blogga oftar en ég hef gert að undanförnu. Ég er búinn að skila göngugridinni sem fékk lánaða á sjúkrahúsinu. Samt er ég hálfragur við að fara langt án stuðnings. Fór t.d. ekki í sjúkraleikfimi í dag (þriðjudag) því mér fannst fullmikill vindur.
Í dag er miðvikudagur og ekkert sérstakt liggur fyrir. Kötturinn er hálfóánægður núna því hann fékk ekki flóaða mjólk í gærkvöldi eins og hann er vanur. Gaf honun pínulítið af harðfiski í staðinn.
Kannski ég hafi þetta einsog einskonar dagbók, en þá verð ég að passa að skrifa bara um það sem allir mega vita. Um daginn (sennilega á mánudaginn) komu systur Áslaugar þær Hafdís og Kiddý ásamt Þór og Sollu í heimsókn hingað. Hafdís og Jói komu svo líka og svo þurfti Áslaug að fara og sitja yfir á sýningu listfélagsins í björgunarfélagshúsinu. Þangað konu dálítið margir og kannski hefur Áslaug nælt sér í veikindin þar.
Bjarni kom svo í snögga heimsókn í gær og skilaði skyrtum og þ.h. sem Tinna vildi ekki nota.
Eitthvað miðar mér við vinsældirnar, það er samt litið að marka slíkar vinsældir. T.d. held ég að Palli falli eitthvað í vinsældum þegar Samherjamálinu lýkur, sem væntanlega verður einhverntíma.
Annars er þetta pólitískt mál og ég hef ekki mikinn áhuga á því. Þó get ég alveg reynt að spá um hvernin það endar. Kata bjargar sennilega sínu fólki hverjir sem það eru.
Ég get líka reynt að spá um hverning Ukrainustríðið muni enda. Pútín bjargar sennilega andlitinu með því að semja um smávægilegan ávinning. Aðalspurningin er hvernig Bandaríkjamönnum gangi að fá Selenski og Co. til að gefa pínulítið eftir. Pútín þarf nefnilega að geta sýnt framá árangur sem hann líklega mun mikla sem mest.
Kalt stríð milli Rússa og Kínverja annars vegar og Nato og einkum Bandaríkjamanna hinsvegar er liklegt að geysi næstu ár og allir gleymi svonefdri hnatthlýnun á meðan.
Einhver mynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2023 | 15:53
3164 - Ýmislegt
Ég sé að einhver ruglingur er á myndunum, sem ég læt yfirleitt fylgja bloggum mínum. Það stafar af því að ruglingur hefur verið á þeim við upphaflega notkun. Ég held að ég hafi látið þess getið að allar þessar myndin eru endurnotaðar.
Ekki hefur margt gerst í mínu lífi síðan siðast.Tinna kom hingað í gær á föstudagskvöldi og fór svo og hitti vinkonu sína. Bjarni kom svo úr vinnunni um tólfleytið og kom skikki á sjónvarpið, en okkur hafði með fikti tekist að fokka því upp og kunnum ekki að lagfæra það. Bjarni sótti nýtt RUV-app og þar með var það komið í lag.
Áslaug er veik. Veit ekki hvað það er. Hugsalega er það flensa.
Mikið gengur á útaf rafbyssum fyrir lögguna. Heldur er ég á móti þeirri aðferð sem notuð er. Ef löggunni finnst hún öruggari með rafbyssur og þær eru notaðar skynsanlega finnst mér það komi til greina að fá þeim þannig byssur. Að hægt sé að möndla þetta með einfaldri reglugerðarbreytingu sýnir vel hve vald ráðherra er mikið. Með þessu verður vald forsætisráðherra minna en áður. Það skiptir líka máli. Annars hef ég ekki sterkar skoðanir á þessu öllu saman. Samskipti mín við lögregluþjóna hafa hingað til verið hnökralaus. Þeir geta samt gert vitleysur eins og aðrir.
Menntamál og öldrnarmál eru mér mun hugleiknari. Eftir nýjust breytingu hef ég um 400 þúsund á mánuði fyrir það eitt að vera til. Ríkið og VR hefðu semsagt grætt ef ég hefði drepist um daginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2023 | 17:27
3163 - Er kovítið búið?
Ekki er ég alveg frá því að einhverjir séu búnir að fá leið á fésbókinni og jafnvel komnir aftur hingað á Moggabloggið. Þetta er bara tilfinning og kannski er ekkert að marka hana.
Sko mig, fingrasetningin er að koma til baka og ég var ekki nema 2 mínútur eða svo að skrifa klausuna hér á undan. Annars er ekki rétt að gera þetta blogg of pesónulegt. Kannski er það samt einmitt rétta ráðið. Stórhausunum fjölgar ekki og það virðist vera erfitt að komast í 50 manna hópinn. Ef ég les rétt þá er ég númer 69 í vinsældum núna.
Verst er að ég er ekki sérhæfður í neinu. Gurrí skrifar ansi persónulega, enda býr hún á Akranesi eins og ég. Flestir virðast skrifa um pólitík, en mér leiðist hún fremur en hitt og svo skrifa sumir um popp og það sem þeir finna á Internetinu (Jens Guð).
Þessum skrifun byrjaði ég á aðfaranótt föstudagsins 17. Mars og ætla að klára þetta annað kvöld. Þetta er nefnilega í styttra lagi.
Fékk í jólagjöf ísmolavél. Kötturinn hefur mikinn áhuga fyrir henni og situr og bíður eftir því að ísmolarir detti. Hefur líka komist upp á lag með að lyfta plastlokinu með trýninu og láta það skella aftur. Óþolandi hegðun.
Er farinn að geta gengið um innanhúss án þess að nota göngugrindina. Fullur máttur í fótunum er þó ekki í boði. Konan mín gengur um með hækju eða hækjur. Hún fékk senda göngugrind sem dugar mér ágælega og er talsvert bílvænni en skrímslið sem ég var með í láni frá sjúkrahúsinu hér á Akranesi. Verst er jafnan að standa upp og ef ég dett er ég alveg bjargarlaus.
Þetta er nú orðið nægilega langt og ef ég fer ekki uppúr 69da sæti á vinsældalistanum við þetta, verð ég reiður. Samt ekki eins reiður og ég varð einu sinni á öndunarvélinni. En sleppum því. Ég ætla ekki að skrifa um allar ímyndanirnar og ranghugmyndirnar sem ég fékk þar. Það er lífsreylsla sem ekki verður frá mér tekin. Ég vissi vel að ég var við dauðans dyr.
Nú er ég hættur. Í dag eru 61 ár frá því við trúlofuðum okkur ég og Áslaug.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2023 | 21:44
3162 - Enn um Covid
3162 Enn um Covid
Sannarlega er kominn tími til að skrifa mars-blogg og ekki er örgrannt um það að ég fari hvað líður að blogga reglulega. Þó er engu að treysta um það.
Hef undanfarið verið að fylgjast með STORM-þáttunum í sjónvarpi allra landsmanna. Þar er látið eins og Covid-19 tilheyri fortíðinni. Sjálfsagt er svo fyrir mörgum. En ekki mér. Fyrir mér er þessi drepsótt að byrja núna. Sóttkvíin hentaði mér ágætlega.Var rétt dauður að þessu sinni. Fékk þennan andskota ofan í lungnabólgu fyrir jól og er svotil nýsloppinn út af spítala og hvergi nærri búinn að jafna mig. Skilst að læknar hafi deilt um hvort ég ætti mér lífsvon eða ekki. Fór að ég held þrívegis í öndunarvél er mér sagt, og gerður var á mér barkaskurður, lagað magasár o.s.frv. Og ekki nóg með það, heldur datt konan min og lærbrotnaði. Nelgd saman í Rvík og lá um hríð á sama spítala og ég. Þ.e.a.s. á Akranesi. Þar með var kettlingurinn orðinn einn eftir á heimilinu og gat ómögulega séð um sig sjálfur, svo honum var komið í fóstur. Þar voru kettir fyrir. Þó hann sé mannelskur þolir hann ekki aðra ketti, svo finna varð annað fóstur. Það tókst og nú erum við öll saman aftur.
En fjölyrðum ekki un þetta. Þið verðið enn um sinn að sjá bloggið mitt og jafnvel lesa það, þó ég hafi ekkert að segja.
Mikið er talað um Nígeríu þessa dagana og sögu þess ríkis, en hvergi hef ég séð minnst á Biafra sem hlýtur þó að vera elstu kynslóðinni ofarlega í huga þegar minnst er á sögu Nígeríu. Kannski var það bara á Íslandi sem þetta stríð vakti athygli, en mig minnir að fjölmiðlar hafi verið ákaflega uppteknir af því.
Einhver mynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)