Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2021

3086 - Gunnar og Guðmundur

Undanfarið hef ég verið dálítið upptekinn af Gunnari Benediktssyni. Reyndar var ég bara að lesa bók eftir hann sem heitir „Að leikslokum“. Undirtitillinn er „Áhugaefni og ástríður“. Gefin út árið 1978 og hægt er að kalla þetta ævisöguþætti. Mest má segja að það fjalli um pólitísk afskipti hans af hinu og þessu. Afar fróðleg bók og ég man eftir að hafa lesið eitthvað fleira eftir hann. Man samt ekki hvaða bækur. Hann er með minnisstæðustu kennurum sem ég hef haft. Vissi ekki einu sínni að hann hefði skrifað svona margar bækur eins og hann minnist á þarna. Líklega hefur það verið bókin „Stungið niður stílvopni“, sem ég hef áður lesið. Minnir að Guðmundur Ólafsson háskólakennari hafi látið ýms hrósyrði falla í hans garð.

Nú er ég að komast í bloggstuð og ekki ber að forsóma það. Margt get ég sennilega skrifað um frá langri ævi. Ég er að verða áttræður og hef ýmislegt reynt. Ekki finnst mér ég vera alveg að drepast samt. Finn mun á mér með hverju árinu sem líður. Er á margan hátt orðinn hundleiður á þessu sífellda Covid-kjaftæði.

Gunnar Benediktsson og Guðmundur Steingrímsson eru mér minnisstæðastir akkúrat í augnablikinu. Las einhverja hugleiðingu eftir Guðmund nýlega þar sem hann líkir stjórnmálamönnum við bilaðar og gagnslausar loftkælingar. Bæði tilfellin hávær og þýðingarlaus og hann lagði útaf því. Stjórnmálamenn hafa einmitt komið mér oft þannig fyrir sjónir að þeir leggi mesta áherslu á sjálfa sig og að láta taka eftir sér. Samt finnst mér ekki að Gunnar Ben. hafi verið þannig. Man samt vel að hann gat ekki látið hjá líða að minnast á Breta og Frakka þegar hann var að kenna okkur og skorað var á okkur og fleiri að minnast Ungverja með tveggja mínútna (eða einnar) þögn. Þetta hefur verið árið 1956.

IMG 4666Einhver mynd.


3085 - Júlí-skrif

3085 –  Júlí-skrif

Í mínu ungdæmi tíðkaðist að spila á jólunum. Þó mátti ekki spila á aðfangadag, því hann var svo heilagur. Eftir miðnætti mátti það þó. Kannski er ég að rugla þarna saman Jóladegi og Aðfangadegi. Okkur krökkunum þótti aðfangadagur nefnlega mun merkilegri, því þá fengum við gjafirnar. Ólán nokkurt þótti okkur að þurfa að fara niður á Hótel í messu seint á aðfangadagskvöldi, en við því var ekkert að gera.

Af hverju er ég að tala um þetta núna. Kannski er það vegna þess að Covid-þokunni er að létta mikið og því fylgir einskonar jólatilhlökkun.

Í dag er mánudagur og nákvæmlega ein vika síðan við komum úr ferðinni miklu. Um hana ætla ég ekki að fjalla mikið, en kannski geri ég það seinna.

Ekki komum við við í Hveró á heimleiðinni eins og við höfðum þó ætlað okkur. Kannski var það útaf heimfýsi og kannski útaf einhverju öðru. Hef ekki gert mér nákvæma grein fyrir því. Sennilega hefðum við þó tafist nokkuð þar.

Við höfum nóg að gera eftir ferðina. Keyptum tvo stóla (svarta) og eigum eftir að koma þeim endanlega fyrir. Svo keyptum við líka flísar á svalirnar og erum að koma þeim fyrir. Ekki erum við alveg eins fljót að ýmsu og fyrrum, enda erum við að verða áttræð. Kannski höldum við eitthvað uppá það þegar þar að kemur. Veit það ekki.

 

Þetta sem hér er fyrir ofan var ég tilbúinn til að láta á bloggið mitt fyrir nokkru, en þótti það frekar snautlegt. Nú er svo komið að ég þarf eiginlega að setja eitthvað þangað til að mánuðurinn verði ekki tómur. Ef ég læt hjá líða að senda þetta þangað er hætt við að tilkall mitt til fjöldamets í bloggskrifum verði heldur innantómt. Ég er semsagt ekki dauður enn þó ég bloggi æ sjaldnar. Ekki þýðir fyrir mig að lofa uppí ermina á mér að ég skuli verða duglegri við bloggið héðan í frá. Sennilega tekur enginn mark á því. Þar að auki er alls ekki víst að mikil eftirspurn sé eftir mínum bloggum. A.m.k hef ég ekki úr mjög háum söðli þar að detta.

Einhver mynd.IMG 4676


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband