Bloggfærslur mánaðarins, júní 2019
26.6.2019 | 12:05
2860 - Kanarí og Japan (af hverju Japan?)
2860 Kanarí og Japan (af hverju Japan?)
Fylgist afar vel með öllum hryllingssögunum um lúsmýið en hef sem betur fer ekki orðið var við það ennþá á þessum breiddargráðum. Læt ykkur góðir lesendur samt vita þegar ég sannspyr að það sé komið hingað á Akranes. Ef dæma má eftir því sem sagt er á fésbókarsíðu Akurnesinga eru þó allar líkur á að það sé komið hingað. Annaðhvort er ég svo hátt uppi (4. hæð) eða ég er ekki nógu eftirsóknarverður fyrir þessi stórhættulegu villidýr. Þau hafa semsagt ekki bitið mig ennþá. Hugsanlegt er líka að lúsmýflugurnar hafi haft svo mikið að gera útaf Norðurálsmótinu að þær hafi ekki haft tíma til að bíta mig. Þetta þarf alltsaman að rannsaka miklu betur.
Eftir mikið japl og jaml og fuður er búið að ákveða (eða svona næstumþví) að við förum til Kanaríeyja (nánar tiltekið til Tenerife) næsta haust. Þetta var svolítið erfið ákvörðun því ferðaskrifstofan hélt því fram öðru hvoru a.m.k. að uppselt væri í ferðina sem við vildum fara í. Svo er líka á það að líta að ekki er mjög langt um liðið síðan við komum úr mikilli og ævintýralegri Ítalíuferð. Þó ég hafi gert henni lítil (eða næstum engin) skil hér á blogginu mínu, er því ekki að neita að hún var eftirminnileg í mörgu tilliti. Samt er ég að hugsa um að hlífa væntanlegum lesendum við nánari lýsingum á því ferðalagi.
Ef ég ætti að gera grein fyrir öllu sem fyrir mig kemur hér að blogginu er ekki sjálfsagt að jafnmargir mundu lesa þau ósköp. Er ég þá að stefna að því að sem flestir lesi það sem ég skrifa hér? Það hef ég hingaðtil ekki verið tilbúinn til að viðurkenna. Auvitað er það samt svo að skemmtilegra er að skrifa það sem margir lesa, en það sem fáir eða engir nenna að lesa. Hvað er það þá sem fær mig til að fullyrða þetta. Mér finnst bara að líf mitt sé um þessar mundir sérlega óspennandi. Hefur það ekki alltaf verið það?
Blessuð rigningin er loksins komin aftur. Annars er mér hálfilla við alla rigningu og súld, því mér finnst vera fullmikið af slíku hér á Akranesi. Líklega er það svipað annarsstaðar ekki veit ég um það. Sú riging fellur a.m.k. ekki á mig. Kannski á bændur, þeir vilja alltaf hafa passlega mikið af öllu og virðast alltaf vera óánægðir. Kannski þeir ættu að hætta að framleiða allt þetta rolluket. Gott ef gróður landsins verður ekki fyrir barðinu á dilkunum. Hvað veit ég?
Eiginlega ætti ég að hætta núna. En það er svo erfitt að hætta þegar maður er kominn á ferð. Endalaust gæti ég haldið áfram að þusa, en einhversstaðar verður að hætta. Hví ekki hér?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.6.2019 | 21:25
2859 - Trump og Íran
Það eru víst einir 20 demókratar eða rúmlega það sem langar til að verða forsetar í Bandaríkjahreppi og eru að keppa um útnefningu flokksins þó enn sé meira en ár þangað til forsetakosningarnar sjálfar fara þar fram. Í mínum augum er þó aðeins um þrjá að ræða í þessu sambandi og ég held að þau raði sér í efstu sætin þar nú um stundir. Það eru: Joe Biden, fyrrum varaforseti, Bernie Sanders, sem reyndi sig með góðum árangri árið 2016 og Elizabeth Warren, öldungardeildarþingmaður.
Held að ég hafi spáð Joe Biden sigri um daginn. Svolítið er ég farinn að hasast upp á honum. Vissulega er hann langefstur núna, en það er ekki að marka. Á flestan hátt er um langhlaup frekar en spretthlaup að ræða í þessu efni. Bæði Biden og Sanders eru fullgamlir til að standa í svona löguðu og jafnvel of þekktir. Hver veit nema Warren komi á óvart og sigri í þessari löngu rimmu. Og svo eru allir hinir. Einhver þeirra gæti sem best átt eftir að bæta sig verulega. Resistance is futile. You will be assimilated. Var svokallað battlecry hjá Cyborg í eldgamla daga. Milljarðamæringarnir munu sjá um sína. Allt eru peningar í Guðs eigin landi.
Færa má sannfærandi rök fyrir því að við Íslendingar séum með öllu þýðingarlausir í alþjóðlegu samhengi. Auðvitað lítum við alltaf fremur stórt á okkur, en í raunveruleikanum erum við afar þýðingarlitlir. Það var hlegið að Bush Bandaríkjaforseta þegar hann tilkynnti við hátiðlega athöfn að við Íslendingar værum meðal hinna viljugu þjóða. Aftur á móti nenntu fáir að hlæja þegar Halldór fann sinnepsgasið sællar minningar, enda voru margir marktækari búnir að leita án þess að finna. Oft höfum við Íslendingar orðið að gjalda fámennis okkar, þó okkur finnist sjálfum að við eigum heimsmet í flestu ef tekið er tillit til fólksfjölda. Svo er þó sjaldan, en þó kemur það fyrir ef við veljum sjálf í hverju það á að vera.
Nú þegar heimsfriðurinn virðist í þónokkurri hættu, vill Trump Bandaríkjaforseti gjarnan láta líta á sig sem boðbera friðar. Ekki fer honum það sérstaklega vel, þó hugsast geti að hann græði fáein atkvæði á því. Leiðtogar heimsins og vinstri sinnar um allan heim kunna að taka því fagnandi en óvíst er að það verði honum til framdráttar á heimavelli. Kin Jong Un ætti að kætast, því sennilega gæti hann aukið óþekktina án þess að óttast innrás ef eitthvað er að marka þessa nýjustu ásjónu Trumps.
Að troða illsakir við Íran kann að reynast Bandaríkjamönnum dýrt, einkum vegna þess að helstu bandamenn þeirra á þessu svæði eru Saudi-Arabar og Ísraelsmenn. A.m.k. er ekki annað að sjá en Saudar vilji fyrir hvern mun taka þátt í einhverskonar hefndaraðgerðum gegn Íran.
Alltaf eru það alþjóðamálin sem vefjast fyrir mér þó ég hafi afar takmarkað vit á þeim. Satt að segja virðast fáir hafa mikið vit á þeim a.m.k. eru þeir ekki sammála mér þó mér finnist það sem ég hef að segja um þau mál vera afskaplega gáfulegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2019 | 15:49
2858 - Heimsfriðurinn
Íslendingar eru Norðurlandameistar í bridds. Einu sinni voru Íslendingar nokkuð góðir í skák líka. Sama er að segja um boltaíþróttir eins og handboltann. Ef við Íslendingar einbeitum okkur að örfáum eða a.m.k. ekki of mörgum hlutum í einu, getur við alveg náð þokkalegum árangri miðað við fólksfjölda. Um leið og áhuginn eykst um allan heim getum við pakkað saman. Það sem við getum einkum státað okkur af er að þrátt fyrir fámennið hefur okkur tekist að halda uppi ríki sem getur borið sig saman við fjölmörg önnur, ef tillit er tekið til fámennisins. Einhvers staðar sá ég því haldið fram nýlega að við stæðum öðrum þjóðum að baki í Olympíugreinum íþrótta. Ég held að þetta sé mesta vitleysa. Þó við höfum aldrei unnið til gullverðlauna á Olympíuleikum höfum við síður en svo verið okkur til einhverrar skammar þar. Og landsliðið okkar í knattspyrnu hefur undanfarið staðið sig með prýði. Auðvitað lýkur þessum árangri einhvertíma, en er á meðan er.
Hvað loftlagsvá varðar, sem ég trúi ekki að öllu leyti á, erum við á Íslandi betur sett en flestir aðrir. Ég held að sumt af því sem haldið er fram af vísindamönnum um loftslagsmál sé óttaleg vitleysa. Sú heimshlýnun og það hallæri sem boðað er af hennar völdum held ég að sé að verulegu leyti byggt á ágiskunum. T.d. er ég viss um að þessi skurðaofanímokun hér á landi er stórlega ofmetin. Annað mál er það að ruslasöfnun sú sem um þessar mundir er stunduð á Vesturlöndum er alltof mikil. Að ráðast á sóun af öllu tagi er vissulega hið besta mál. Þó frárennslismál og hreinlæti geti verið dýrt, segir mér svo hugur um að við Íslendingar getum bætt okkur mikið þar. Í þeim efnum stöndum við nágrönnum okkar langt að baki.
Eiginlega eru bloggskrif af þessu tagi sem ég hef vanið mig á, marklaus að mestu. Ef að því er keppt að sem flestir lesi þessi ósköp væri sennilega best að setja þetta á fésbókina. Ég er bara svo mikið á móti henni þó ég geti alveg fallist á yfirburði hennar að þessu leyti. Kannski vil ég ekki að sem flestir lesi þetta og kannski er mér alveg sama. Afskiptaleysi Morgunblaðsins af því sem hér er skrifað hentar mér að mörgu leyti ágætlega. Afskiptasemin og nýjungagirnin hjá fésbókinni fer mest í taugarnar á mér. Með því móti er kannski hægt að fá fleiri til að skrifa, en mér finnst bara stór hluti af því sem skrifað er á fésbókina vera argasta bull.
Í dag er víst 17. Júní. Þ.e.a.s. þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Ekki hef ég hugsað mér að halda að neinu leyti uppá daginn. Er ég þá minni Íslendingur en þeir sem það gera? Ekki finnst mér það. Eiginlega finnst mér þetta þjóðhátíðarstand vera mest fyrir börn. Auðvitað er það ekkert verra fyrir það. Mér finnst bara útúr korti að meira eða minna leyti fyrir okkur gamlingjana að vera að sperra okkur af þessu tilefni.
Ekki fer hjá því að einhverjir (fjölmiðlamenn) álíti það hættulegra fyrir heimsfriðinn að kveikt sé í fáeinum olíuflutningaskipum en að þúsundir manna séu drepnar. Útskýri þetta ekki nánar enda veit ég svosem ekkert hvað ég á við með þessu. Mið-Austurlönd hafa lengi verið álitin sú púðurtunna sem hæglegast gæti komið heimsófriði af stað. Stórveldin hafa öll einhverja hagsmuni að olíu og þessvegna er heimsfriðnum kannski meiri hætta búin nú en oft áður. Samt er það svo að eftir því sem heimsstyrjöldin síðari fjarlægist meira því hættara virðist þessum svokallaða friði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2019 | 21:34
2857 - Heimsendir
Bandaríska alríkisstjórnin ætlar á næstunni að athuga starfshætti tæknirisanna Amazon, Apple, Google og Facebook. Aðrir eru ekki á þessum lista. Væntanlega eru þeir ekki nógu stórir eða þá að þeir hafa verið rannsakaðir áður. Ekki held ég að þetta sé runnið undan rifjum Trumps, en sumir (þar á meðal ég) virðast hafa fyrir reglu að kenna honum um allt sem aflaga fer. Lítið álit mitt á og stöðug gagnrýni á Facebook er heldur ekki úr Trump-skúffunni. Eða það held ég a.m.k. að sé ekki. Að setja sjálfan sig á stall með öllum þessum risum er auðvitað sjálfhælni á hæsta stigi, en ég get ekki að því gert.
Forseti Íslands lætur sig hafa það að grilla til góðs. Sagt er að þessi heimsviðburður muni eiga sér stað á Kótilettunni, sem einu sinni var og er kannski enn nafnið á bæjarhátíðinni á Selfossi. Þeir voru svo seinir að koma sér upp einni slíkri að þeir fundu ekki betra nafn. Kannski ber að þakka Sláturfélagi Suðurlands þessa nafngift. Forsetinn lætur hafa sig út í allskyns vitleysu eins og að segjast ætla að banna ananaspizzur. Reyndar held ég að þessi grillun hans sé allra góðra gjalda verð. Einu sinni gengu menn til góðs, en það er víst liðin tíð. Næst verður sennilega annaðhvort gutlað eða gjammað til góðs og væntanlega mun ég ekki taka þátt í því frekar en öðrum forsetaviðburðum.
Loftlaus dekk sem geta ekki sprungið. Michelin hefur kynnt slík dekk, en þau verða ekki til sölu í verslunum fyrr en svona árið 2024. Hver nennir að bíða eftir því. Eiginlega finnst mér sem næstum því sé það orðið óþekkt fyrirbrigði að springi dekk. Öðruvísi mér áður brá. Einu sinni voru punkteringar svo algengar að engir voru svo vitlausir að leggja í langferð án varadekks. Nú heyrir maður varla minnst á punkteringar. Hætt er með öllu, held ég, að nota slöngur innan í dekk og þar með hafa hinar eiginlegu dreifbýlistúttur misst sjarma sinn og eru víst löngu orðnar ófáanlegar. Man að eitt sinn eignaðist ég einar slíkar. Hvítbotnuðu gúmmískórnir þóttu þó flottari.
Listrænar ambisjónir eru hættulegar. Kannski getur stundum gengið í íþróttum að gera það sem maður heldur að viðhlæjendur vilji en slíkt gegnur ekki í listum og bókmenntum. Þar dugar ekkert annað en þrautseigja og hæfileikar að viðbættri ótakmarkaðri ástundun. Ef listamenn ímynda sér að einhverju takmarki sé náð þá er eins gott að hætta strax. Að vera að streða við það alla ævi, að bæta sig í einhverju er til harla lítils ef hæfileikarnir eru ekki fyrir hendi. Ef sóknin eftir bætingu er ekki altumlykjandi er lítil von til þess að streðið sé til nokkurs.
Í sumum ríkjum Bandaríkjann hafa að undanförnu verið samþykkt margvísleg lög sem þrengja verulega að þeim sem vilja hafa fóstureyðingar sem frjálsastar. Viðurlög hafa sumsstaðar verið hert verulega og jafnvel engar undantekningar leyfðar. Margir búast við að Hæstiréttur Bandaríkjanna muni ógilda þessi lög og þeim hefur víða verið mótmælt. Saksóknarar margir hafa og lýst því yfir að þessum lögum verði ekki framfylgt.
Búist er við enn einum heimsendi 9. september næstkomandi en þá er búist við að allstór loftsteinn eða smástirni muni heimsækja okkur. CNN telur þó að ekki sé mikið að óttast. Kannski það sé enn ein falsfréttin þar að áliti Trumps. Þær eru víst nokkuð margar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.6.2019 | 16:16
2856 - Enn um málþófið
Að minum dómi er þess ekki að vænta að málþófið mikla sé á leiðinni í burtu. Að miklu leyti má líta á þetta sem einskonar störukeppni á milli Sigmundar Dvíðs og Steingríms Jóhanns og þar sem báðir eru þverhausar hinir mestu er þess ekki að vænta að þófinu linni alveg á næstunni. Þetta þykist ég skilja því ég er sjálfur þverhaus mikill og ég get alveg sett mig í þeirra spor. Ríkisstjórnin getur ekki hvitþvegið sjálfa sig og ætlast til þess að aðrir leysi málin fyrir hana. Að svo mæltu mun ég ekki tala meira um þetta málþófsmet, en fróðlegt verður að sjá hvor vinnur. 9 þingmenn geta hvenær sem er bundið enda á þessa vitleysu, en vilja það ekki.
Að kæra Trump Bandaríkjaforseta til embættismissis (impeach) er vitatilgangslaust, því ef hann hagar sér ekki þeim mun asnalegar á næstunni en hann hefur þó gert higað til, er engin von til þess að öldungadeildin fallist á embættismissi hans. Þvert á móti má gera ráð fyrir að sigurlikur hans í kosningunum næsta haust aukist umtalsvert ef hann verður kærður. Þó Demókratar hafi meirihluta í fulltrúadeldinni dugar það ekki til. Stjórnmál í Bandaríkjunum hafa oft verið minna flokkspólitísk en þau eru um þessar mundir. Framgöngu Trumps er að miklu leyti um að kenna. Hann hefur á ýmsan hátt aukið viðsjár milli manna, ekki síst á þingi og meðal stjórnvalda. Segja má ennfremur að framganga hans í alþjóðamálum hafi aukið stríðhættu í heiminum. Nú hefur hann boðað nýjar tillögur um lausn Palestínuvandamálsins og satt að segja búast menn ekki við miklu úr þeirri átt.
Kannski er hættan af skipulagðri glæpastarfsemi ofmetin hér á landi og kannski ekki. Ekki skil ég samt í að margir finni muninn á því að verða fyrir skipulagðri glæpastarfsemi og óskipulagðri. Óskipulagða (= innlenda - sbr. helvítis utanbæjarmennina) glæpastarfsemin held ég að sé alveg eins hættuleg og hin. A.m.k. fyrir okkur pöpulinn, en kannski ekki löðlegluna og þessvegna þurfum við að passa okkur sérstaklega á henni. Annars held ég að ríkislögreglustjóri sé allra manna hættulegastur. Ég átta mig bara ekki á því hvort hann er skipulagður eða óskipulagður.
Þrjár klausur í hverju bloggi er algjört lágmark að mínu viti. Samt er ég ekki meðmæltur því að tala bara og tala til þess eins að tala. Alveg sama máli gegnir um skrif hvers konar. Ekki er sniðugt að skrifa bara til þess að skrifa. Þessvegn er ég að hugsa um að hætta núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)