Bloggfærslur mánaðarins, júní 2017
30.6.2017 | 15:05
2619 - Halldór Armand
Las áðan og hlustaði á ádrepu Halldórs Armand um kjararáð og er sammála honum í öllum atriðum. Sama má segja um það sem Arnþór Helgason frá Vestmanneyjum skrifaði um þetta mál og hef ég engu við það að bæta. Stjórnvöld hafa allan fjandann í hyggju, en gera aldrei neitt.
Hinsvegar þykir mér gaman að fylgjast með bandarískum stjórnmálum og framgöngu Donalds Trumps bandaríkjaforseta. Það er ekki nóg með að hann hafi alla heimspressuna, sem mark er á takandi, á móti sér, heldur er hann bæði lyginn og svikull umfram aðra bandaríkjaforseta og er þá allmikið sagt. Óvinsældir hans um allan heim eru miklar og er það engin furða því stefna hans getur að endingu leitt til styrjaldar.
Aftur á móti virðist hann hafa talsvert fylgi innan Bandaríkjanna og augljóst er að hann hefur komist uppá lag með að notfæra sé andstyggð flestra á stjórnvöldum. Að gagnrýni hans á valdastéttina skuli koma frá hægri er eigilega engin furða. Þannig eru Bandaríkjamenn. Almennt eru þeir mun hægrisinnaðri en aðrir íbúar heimsins. Áhersla þeirra á einstaklingsfrelsið hefur valdið því að þjóðfélagið þar er eins og það er. Stefna Trumps kann á endanum að leiða til einangrunar.
Talað er um að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins komi ávallt standandi niður í hverju sem hann lendir. Mér finnst helsti galli hans vera sá að hann virðist vilja umfram allt þoka okkur Íslendingum í áttina til Bandaríkjanna. Að flestu leyti hugnast mér Evrópa og þó einkum Skandinavía mun betur.
Ástandið innan Neytendasamtakanna er grátlegt. Samkvæmt fréttum ætla einhverjir þar að reka einhverja, en ekki er alveg ljóst hverja. Niðurlæging þessara samtaka er í góðu samræmi við undirlægjuhátt almennings og stjórnsemi allskyns fyrirtækja framyfir félög af ýmsu tagi.
Hvenær hættu menn að tala um milljónir og fóru í staðinn að tala um milljarða. Í mínum huga er talsverður munur á þessu. Man t.d. vel eftir því að ég fylgdist eitthvað með fréttum þegar fjárlög íslenska ríkisins fóru í fyrsta skipti yfir milljarð. Held að núllunum hafi verið fækkað um 1980. Kannski hefur þetta verið eftir þann tíma. Ætli það fari ekki að verða kominn tími til að fækka núllunum aftur. Einhverntíma þegar ég kom til Ítalíu man ég eftir að líran var minna en krónu virði. Það þótti mér óþægilegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2017 | 11:49
2618 - Rangur misskilingur
2618 Rangur misskilningur
Einn brandara kann ég sem beinlíkis krefst enskukunnáttu. Hann er svona:
Af hverju er sexan svona hrædd við sjöuna?
- Because 7 8 9.
Aumlegur útúrsnúningur, kynni einhver að segja. En snýst ekki lífið um eintóman útúrsnúning. Hvað er t.d. pólitíkin annað? Allir vilja gera vel. Það verðum við eiginlega að álíta. Ekki síður pólitískir andstæðingar en aðrir. Auðvitað hugsar fólk eftir mismunandi brautum. En getur það nokkuð að því gert? Hvernig á að láta alla taka eins við upplýsingum. Um það snýst lífið sjálft. Og ekki síður vísindin. Stærðfræðin segir okkur að mínus sinnum mínus sé samasem plús. Er þá rangur misskilningur réttur skilningur?
Það á víst að grafa lík Salvadors Dalis upp til að ganga úr skugga um hvort einhver kona sé dóttir hans. Litla (Ja, eða talsverða) athygli vakti á sínum tíma þegar lík Bobby Fischers var grafið upp hér á Íslandi í svipuðu skyni. Hvergi er friður fyrir þessum dómstólum. Ættum við ekki að geta fengið að vera í friði eftir dauðann? Hingað til hafa dómstólar látið sér nægja það sem skilið er eftir. Nú er það ekki nóg.
Eiginlega er ekkert fréttir nútildags nema hægt sé að sýna nýteknar myndir af því. Helst þurfa það reyndar að vera hreyfimyndir. Sem einu sinni voru kallaðar kvikmyndir. Nú eru það videómyndir. Fátt er fyndnara en Fyndnar fjölskyldumyndir. Hægt er að breyta ljósmyndum og ljúga með þeim ekki síður en með orðum. Kannski hafa það fáir ennþá á valdi sínu að breyta kvikmyndum.
Satt og logið sitt er hvað
sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar allir ljúga?
Þessi gamli húsgangur er því miður ekki eftir mig, en hefur mikilsverðan boðskap að flytja.
Næsta hrun kemur áður en langt um líður. Eins gott að eiga ekki mikið af peningum þá. Betra er að eyða þeim meðan hægt er. Ekki er nauðsynlegt að fara í Costco til að eyða peningum. Vel má gera það annars staðar. T.d. á ferðalögum. En þá verður maður að treysta því að hrunið komi ekki akkúrat þegar það ætti ekki að koma. Næstum öllum kemur saman um að KRÓNAN okkar margfræga sé orðin einskonar myllusteinn um hálsinn á okkur. Þegar henni verður hent og annar gjaldmiðill tekinn upp er sennilega farið að styttast í hrunið. Eiginlega má kenna henni um síðasta hrun, ef endilega þarf að kenna einhverjum um það. Svo eru það útrásarvíkingarnir. Margt gerðu þeir okkur hinum til bölvunar. Kannski var það ekki ætlunin en svona fór um sjóferð þá og fer sennilega eins með næstu.
Sé að Hrannar Baldursson er búinn að gefa út 3 rafbækur á ensku hjá Amazon. Mér finnst þær heldur dýrar og fékk mér bara kynningu á þeim. Hún er ókeypis. Kannski ég hafi bara samband við Hrannar og spyrji hann útí þetta. Einu sinni vildi Benni endilega hjálpa mér við svona útgáfu og satt er það að eitt af því sem ég á eftir að gera er að gefa út bók. Sennilega verður það samt ekki metsölubók. Hægt er að sjá hve margar bækur á íslensku hafa verið gefnar út hjá Amazon. Þær eru orðnar um 1100. Meðan ókeypis bækur þar eru um 80 þúsund og bækur alls nærri 5 milljónir held ég að ekki sé um nein uppgrip að ræða þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2017 | 01:13
2617 - Óttar sálfræðingur
Óttar Guðmundsson sálfræðingur er ekki svo vitlaus. Þetta segir hann t.d.:
Lýsingin gæti verið þessi: Manneskja á aldrinum 30-60 ára í krefjandi starfi. Vinnan verður með tímanum æ flóknari og kröfurnar um alls kyns tæknikunnáttu æ meiri. Fólk verður að tileinka sér tækninýjungar sem smám saman verða yfirþyrmandi. Kröfurnar í einkalífinu aukast að sama skapi. Skutla þarf heimilisfólki í alls konar tómstundastarf og sjá um heimilisstörf, eldamennsku, þvott og bílinn. Og ekki þarf að fjölyrða um það að samlíf hjóna versnar eftir því sem álagið eykst. Heimilið breytist smám saman í fyrirtæki sem verður að halda gangandi og sjá til þess að allir standist kröfur skólans, vinnunnar og einkalífsins. Þessu fylgja ótrúlegar nýjungar í samskiptatækni svo að allir séu alltaf ínáanlegir. Símarnir gelta stanslaust með nýjar kröfur, nýjar myndir og skilaboð. Hraðinn eykst.
Kannski á þetta ekki síður við um þá sem teknir eru svolítið að eldast. Eins og ég t.d. Eiginlega er ég hættur með öllu að fylgjast með tækninýjungum. Snjallsímarnir eru orðnir alltof flóknir fyrir mig. Svo ég tali nú ekki um tölvurnar. Einu sinni voru armbandsúrin það líka. En ég komst framúr því á sínum tíma. Og það er fyrst núna fyrir fáeinum árum sem ég fór að líta til baka. Þetta er alveg rétt hjá Óttari. Kröfurnar eru alveg yfirgengilega miklar. Ætli maður verði bara ekki að fá sér róbot til þess að sjá um þetta allt saman. Það er ekki nóg að bílarnir fari að keyra sjálfir. Kannski sendir maður þá bara á verkstæðið ef þeir bila. Sennilega verða það samt bara þeir ríku sem hafa efni á svona lúxus.
Annars er það íslenskan og framtíð hennar sem á hug minn að mestu þessa dagana. Hann sneri undan sér og braus. Sögðum við krakkarnir um miðja síðustu öld og þóttumst óstjórnlega fyndin. Kannski er íslenskan á þeirri leið að hætta að vera beygingamál og fer bara í þá átt að verða samsafn af orðum, eins og sum önnur tungumál. Einstök orð skipta engu máli. Íslenskan er ekki í neinni hættu þó menn noti slettur í óhófi. Ef þú notar slettur sem fáir skilja þá er það þitt vandamál en ekki þeirra sem lesa eða hlusta. Ætli það hafi ekki verið í Samvinnuskólanum um 1960 sem ég gerði mér grein fyrir því að orðaröð skiptir oft mjög miklu máli í tungumálum. Á ensku er t.d. sagt He works hardly eða He hardly works Með öðrum orðum: setningafræði getur skipt miklu máli. Mér finnst hún samt snúast mest um kommur og punkta. Réttritun þekki ég aftur á móti út og inn.
Allt í einu mundi ég eftir því að ég hafði ætlað að blogga í morgun (laugardag) en svo gleymt því. Ætli það sé ekki best að henda þessu upp núna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2017 | 10:43
2616 - Endurtekið efni - og þó
Nei, ég er eiginlega ekkert hættur að blogga, þó góða veðrið að undanförnu hafi truflað mig dálítið. Samt er fjandi langt síðan ég hef bloggað. Verð víst að bæta úr því þó ég hafi svosem ekkert að segja.
Af hverju eru allir svona uppteknir af fésbókinni? Mér finnst hún hundleiðinleg. Samt á maður erfitt með að slíta sig alveg frá henni. Fréttaflutningur allskonar er þar á víð og dreif. Og hann er ekkert endilega að finna í Fréttablaðinu. Samt fletti ég því flesta daga og skoða líka fréttir sem tölvan vill halda að mér. Mest af því sem þar er að finna (altsvo í Fréttablaðinu og tölvunni.) er óttalega neikvætt og mannskemmandi. Pólitíkin er líka leiðinleg. Fréttir eru flestar óttalega neikvæðar. Af hverju ætli maður sé sífellt að ergja sig á því að fylgjast með þeim? Þeir sem fylgjast sem mest með blessaðri fésbókinni og skrifa jafnvel örstuttar athugasemdir þar, virðast aðallega gera það til þess að fóðra ættingja og vini á persónulegum upplýsingum eða til að hneykslast á stjórnvöldum og þó sérstaklega ríkisstjórninni.
Ríkisstjórnir koma og fara. Þýðingarlaust er að hneykslast á þeim. Kannski ráðherrar vilji oftast gera vel. Auðvitað vilja þeir líka græða á góðseminni. En skelfing eru þeim mislagðar hendur, ef dæma á eftir öllum þeim sérfræðingum sem um störf þeirra fjalla. Oft virðist fólk bara þurfa aðra hlið mála til að taka endanlega afstöðu. Svo eru líka sumir, eins og ég t.d., sem eru ákaflega ákvarðanafælnir. Kannski er það ekkert betra.
Skemmtilegust eru börnin og barnabörnin. Ánægju þeirra (a.m.k. barnabarnanna meðan þau eru ung) getur maður hæglega tekið eignarnámi, ef svo má segja. Eiginlega er ekki lifandi nema fyrir ánægjuna. Hvernig verður hún til? Með því að eyða sem mestum peningum? Kannski? Að lifa sem lengst? Hugsanlega. Af hverju skrifa ég kannski með þessum hætti? Veit það ekki. Minnir að mér hafi verið kennt á sínum tíma að skrifa ætti það með e-i í endann. Hugsunin fer semsagt í sífellda hringi. Nú er ég farinn að hugsa um alltannað.
Kannski íslenskan eigi enga framtíð fyrir sér. Digitally virðist enskan sífellt vera að vinna á. Í tölvuleikjum hverskonar og appalega séð er hún allsráðandi. Hlutlaust séð er íslenskan ekkert merkilegri en önnur tungumál. Samt kann maður ekki sambærileg skil á neinu öðru máli. Hugsanlega komast þær kyslóðir sem eiga eftir að vaxa upp á Íslandi ekki hjá því að kunna fullkomin skil á ensku.
Er þetta bara ekki að verða nokkuð gott hjá mér? Að minnsta kosti nenni ég helst ekki að skrifa meir og segi hér amen eftir efninu einsog séra Sigvaldi forðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2017 | 20:51
2615 - Fólskuverk í fréttum
Hvers vegna eru flugslys og hryðjuverk svona mikið í fréttum? Í fyrsta lagi eru árásir á okkur Vesturlandabúa nær okkur en ef ráðist er á fólk mjög langt í burtu. Svipað má um allskonar slys segja. Einnig virðist skipta máli hve margir týna lífi. Líka held ég að það skipti máli að þarna er um fólk að ræða sem allsekki á að þurfa að búast við einhverju slíku. Saklausir borgarar eru oft drepnir í stríðsátökum og á þeim svæðum þar sem slíkt viðgengst, en það vekur enga séstaka athygli. Samt eru þau líf alveg jafn mikils virði og hin.
Ætla má að meðal takmarka hryðjuverkamanna sé að valda sem mestum ótta meðal almennra borgara. Sjálfsmorðsárásir eru ekki eins sjaldgæfar og stundum er af látið. Þær hafa tíðkast lengi, en eru að sjálfsögðu ekkert betri fyrir það. Fólk umber miklu síður núorðið en áður var að saklaust fólk sé drepið. Það er vel, en óþarfi er samt að afnema öll mannréttindi fjöldans vegna afbrota sárafárra manna. Nauðsynlegt er þó að lögreglan fylgist vel með sumum hópum og reyni að kæfa tilraunir til hryðjuverka í fæðingunni.
Hægri menn vilja afnema allt sem kalla má fjölþjóðamenningu og oft er grunnt á þjóðernisrembinginn hjá þeim. Þar með er alls ekki sagt að þeir séu verra fólk en almennt gerist. Stjórnmálahugsjónir villa mönnum oft sýn í þessu tilliti. Að vinstri menn vilji fyrir hvern mun að flóttamönnum sé sýnd ótakmörkuð virðing er alls ekki rétt. Viðurkenna ber að stundum leynast hryðjuverkamenn á meðal þeirra. Gamalgróin og þjóðernisleg viðhorf eru af ýmsum ástæðum ólíklegri til að hvetja til hryðjuverka, en þau nýju og umburðarlyndari. Svo virðist a.m.k. oft vera.
Ameríkanar eða amk. bandaríkjamenn kunna ekkert annað á íþróttasviðinu en hornabolta, höfðingaleik og körfubolta. Reyndar eru þeir nokkuð góðir í körfubolta og hann er spilaður víða um heim. Þrátt fyrir að fótbolti hafi verið leikinn í margar aldir og sé langvinsælasta íþrótt í heiminum hafa bandaríkjamenn frétt af honum alveg nýlega. Eiga að vísu langt í land með að teljast góðir í honum en eru að koma til.
Sennilega eru þeir sem vinna hjá ríkisútvarpinu óvenju ruglaðir í dag. Ekki hef ég hlustað meira á útvarpið en venjulega en sam verð ég að kvarta yfir þremur vitleysum hjá þeim. Þeir rugluðu saman Bretlandi og Frakklandi í fréttunum rétt áðan. Einnig sögðu þeir í dag að klukkan væri fimm þegar hún var þrjú og kölluðu daginn í dag fimmtudag þó dagatalið segi að það sé miðvikudagur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.6.2017 | 08:48
2614 - 50.000 x 4,800
Það er dálítið óþægilegt að vita að vel yfir 400 manns séu að lesa bloggin manns, eins og var í gær. Vinsamlega hættið þessum óskunda. Mér finnst alveg nóg að svona 30 til 50 manns séu að þessum fjára. Auðvitað eru þetta öfugmæli. Mér finnst þvert á móti mjög svo ánægjulegt að sem flestir lesi það sem ég skrifa. Af hverju þeir eru svona margir um þessar mundir hef ég ekki hugmynd um. Kannski er það fremur fátt sem heillar á Hvítasunnunni. Veðrið er samt alveg ágætt. Einnig tókst mér t.d. alveg í síðasta bloggi að komast hjá því að fjölyrða um Trump og sömuleiðis minntist ég ekkert á hryðjuverkin í London. Um þau má þó að sjálfsögðu margt segja.
Einhvers staðar sá ég því haldið fram að forgjöf sú sem Costco fékk, í æði því sem nú stendur yfir hér á landi, væri fimmtíu þúsund sinnum fjögur þúsund og átta hundruð. Það er samasem tvö hundruð og fjörutíu milljónir reiknast mér til. Veit þó ekki hvort þeir hafi selt 50 þúsund meðlimakort. Hugsanlega hefur það kostað þá meira en þetta að koma hingað enda held ég að þetta sé einskonar tilraunastarfsemi hjá þeim og að jafnvel sé ekki gert ráð fyrir að græða neitt á þessu. Heildaráhrif alls þessa þegar um fer að hægjast held ég að verði þau að íslenskar matvörukeðjur vandi sig aðeins meira, en þær virðast hafa gert fram að þessu. Einnig gætu Bónus og Krónan misst að einhverju marki viðskipti við smærri verslanir, mötuneyti og jafnvel fleiri.
Samkvæmt langri og ítarlegri frétt einhversstaðar tókst þeim í Costco að selja gíraffann sinn fræga þó líklega hafi ekki verið gert ráð fyrir að svo vitlaus Íslendingur væri til. Mjög margir skrifa athugasemd við þessa frétt og vilja greinilega vera taldir með þegar um þetta er rætt.
Ef ég skrifa ekkert um hryðjuverkin í London og Manchester gætu einhverjir haldið að mér stæði nákvæmlega á sama um þau. Svo er þó ekki. Hinsvegar finnst mér að nú þegar hafi svo mikið verið fjallað um þau að ekki sé á bætandi. Á sínum tíma óttuðust margir að Saddam Hússein gæti fundið upp á einhverju svona. Það reyndist ekki vera og ég sé ekkert sem bendir til þess að hryðjuverkamönnunum takist ætlunarverk sitt að þessu sinni. Með áherslu sinni á trúarbrögð í þessu sambandi sýnir öfgahægrið þó svolítil merki um að þetta gæti tekist. Satt að segja má alltaf búast við einhverju svona löguðu þegar stríðsaðili sér framá vonlausa stöðu.
Nú má segja að heldur fari fækkandi möguleikum Trumpista því ekki er annað að sjá en bilun sé að koma upp í þingliði repúblikanaflokksins. Hægristefna Trumps er þó allsekki eins óvinsæl í Bandaríkjunum og raunin virðist vera að sé í Evrópu. Áhugi minn á Bandarískum stjórnmálum hefur þó síst minnkað. Margt er þar mjög merkilegt. Samt held ég að Trump muni ekki reynast farsæll forseti. Til þess er hann alltof ógætinn og þar að auki notar hann Twitter í óhófi, sem bæði getur reyndar verið blessun og bölvun. Allavega er enginn vafi á því að hann bætir ekki ástandið í heiminum. Hugsanlega er einangrunarstefna hans upphafið á endalokum þúsundáraríkisins bandaríska.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2017 | 12:05
2613 - Costco og IKEA
Í gær fórum við hjónin bílandi bæði í Costco og IKEA. Eiginlega var það útaf fyrir sig alveg ágætis dagsverk, enda hryllingurinn, bílafjöldinn og stympingarnar með ólíkindum. Ekki keyptum við mikið í þessari ferð en eftir hana er mér enn ljósara en áður hvers vegna mér líður að mörgu leyti betur hér á Akranesi en fyrir sunnan.
Hraðinn og djöfulgangurinn, túristarnir, umferðin, troðingarnir og lætin á miklu verr við mig en rólegheitin og afslöppunin hér í fásinninu. Kannski er umferðin minni í íbúðarhverfum í borginni, en samt er ófriðurinn og æsingurinn aldrei langt undan. Þakka máttarvöldunum fyrir að þurfa ekki að fara daglega í borg óttans.
Samt er það ekkert skemmtilegt að vera orðinn næstum óþarfur fyrir aldurs sakir. Kannski er það þessvegna meðal annars sem ég er að þessu bloggi. Á margan hátt finnst mér að með því sé ég að leggja einnhvað til málanna. Hef ekki nennt að setja mig nægilega vel inní það sem er að gerast á fésbókinni, enda finnst mér hún á margan hátt endurspegla borg óttans.
Held að þetta með borg óttans hafi ég fengið frá Hörpu Hreinsdóttur eins og fleira gott í sambandi við bloggið. Hún er nefnilega gift náfrænda mínum og ég fylgist að sjálfsögðu með athöfnum þeirrar fjölskyldu á fésbók og annars staðar á netinu.
Annars er netið á góðri leið með að verða ótrúlega stór þáttur í lífi margra. Öll samskipti fólks þurfa nútildags að taka mið af því sem gerist þar. Fyrir okkur gamalmennin þýðir lítið að óskapast útaf því. Þetta er bara staðreynd.
Gera má einnig ráð fyrir því að margt breytist við þetta. Eitt af því sem er fyrir tilverknað netsins er að breytast mikið er málið. Ýmislegt í því sambandi er okkur gamla fólkinu kært. Málfar okkar er sjálfsagt hálfóskiljanlegt unglingum dagsins í dag.
Fyrir sakir tölvubyltingarinnar er enskan sífellt að sækja á. Mörgum virðist fremur ósýnt um að spyrna við fótum í því sambandi. Við því er lítið að gera. Ef við eigum að komast sæmilega af í heimsþorpinu verðum við að skilja fleira en bara íslenskuna. Kannski verður hún með tímanum einskonar sparimál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2017 | 23:43
2612 - Er Trump tómt Prump
Air Iceland Connect Sennilega hefur enskur frasi aldrei farið eins illa í þjóðina og þegar stjórn Flugfélags Íslands ákvað fyrir skemmstu að framvegis skyldi félagið heita þessu hörmulega nafni. Almenningur og fjöldi félagasamtaka reis einfaldlega upp á afturfæturna og mótmælti þessum ósköpum. Líklega hafa þeir sem þessu réðu ekki gert ráð fyrir því. Enda engin furða, því fjöldi fyrirtæka heitir enskum nöfnum. Einhverntíma verður samt að segja stopp. Og þarna er um óvenju grófa og lélega eftiröpun að ræða og ekki nema sanngjarnt að við þessu sé brugðist. Auk þess er það nafn sem með þessu er hent í ruslið þjóðinni kært og minnir hana á þá gósentíma sem eitt sinn voru. Hugsanlegt er þó að fáeinir túristar álykti sem svo að þetta fyrirtæki hljóti að vera náskylt Icelandair. En er það nægileg ástæða? Hugsanlegt er líka að einhverjir túristar vilji heldur komast að því sjálfir að Flugfélag Íslands sé þessu marki brennt.
Trump-pistillinn hjá mér er með allra stysta móti að þessu sinni. Ég segi bara: covfefe og læt það duga.
Samt er mjög erfitt að stilla sig. Einkum þegar langt líður á milli blogga. Sagt er að Trump Bandaríkjaforseti trú því allsekki að neitt sé til sem verðskuldar að heita hnatthlýnun. Það sé tómt bull og kjaftæði að tala um slíkt. Vel er hugsanlegt að hann eigi talsvert marga skoðanabræður að þessu leyti. Auðvitað snerust forsetakosningarnar ekki bara um þetta og vel getur verið að ekki séu nærri allir sem kusu hann þó, sama sinnis og hann að þessu leyti. Að mati Trumps er hnatthlýnun tómt plat sem fundið var upp til þess að Kínverjar gætu gengið af bandarískum iðnaði dauðum. Stóri gallinn við Trump (fyrir utan hve íhaldssamur hann er) er sá hvað hann á auðvelt með að trúa allskyns samsæriskenningum. T.d trúði hann því alveg á sínum tíma að hann væri að segja satt þegar hann ásakaði Obama fyrrverandi forseta um að hafa staðið fyrir símhlerunum gegn sér. Sá flugufótur var e.t.v fyrir því að hann (eða trúnaðarmenn hans) kunna að hafa séð til símhlerara í Trump-turninum, sem að vísu voru Donald Trump alveg óviðkomandi. Einnig hélt hann því fram að Obama væri ekki fæddur í Bandaríkjunum og heimtaði að fá að sjá fæðingarvottorð hans á sínum tíma.
Þeirri einföldu spurningu hvort Trump trúi því enn að hnatthlýnun sé tómt plat hefur allsekki fengist svarað. Ég aftur á móti trúi því að hnatthlýnunin sem vísindamenn og fleiri fjölyrða mikið um, sé staðreynd. Einnig trúi ég því að athafnir mannsins hafi áhrif á þá hlýnun. Hvort þau áhrif eru síðan mikil eða lítil er endalaust hægt að rífast um. Að draga sem mest úr þeim áhrifum er þó allsekki þýðingarlaust og gæti meira að segja verið alveg nauðsynlegt.
Assgoti hvað ég er orðinn lélegur við að blogga. Og oft á tíðum líður alltof langur tími á milli blogga. Þetta er samt allsekki erfitt og satt að segja ætti ég sennilega að setja blogg upp oftar. Bloggin hjá mér eru samt alltaf að styttast og þeir sem álíta það einskonar skyldu sína að lesa þau ættu semsagt að gleðjast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)