Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2016

2405 - Óða fólkið

„Hollustan býr í hringnum“, segir í auglýsingunni. Þetta er dæmigerð auglýsingavitleysa. Þeir sem samið hafa þetta dettur varla í hug að nokkur trúi þessu, en þetta hjómar ágætlega og mjög hátt hlutfall fullyrðinga í auglýsingum er einmitt þessu marki brennt. Þær hljóma vel en oftast er ekkert á bakvið þær og jafnvel er augljóst frá upphafi að um tóma vitleysu er að ræða. Nenni ekki að fjölyrða um þetta en ágætis dægrastytting er að koma auga á augljósar vitleysur í auglýsingum.

Gleypist með glasvatni. Hmm. Er það líkt og kranavatn? Eða kannski eldvatn? Eða stöðuvatn? Nú er ég kominn á það stig í mínu bloggveseni að ég er farinn að safna góðum replikkum. Hver gerir það svosem ekki. Ég hef gert það áður. Eða a.m.k. reynt það. Sennilega gleymt þeim þrátt fyrir það jafnóðum. Sumir setjast bara við ritvélina eða tölvuna og reyna að láta engar sleppa. Það hef ég ekki reynt. Og margar (replikkur) þarafleiðandi týnst. Ein hugmynd er að láta á blaðið það sem manni dettur í hug aðra hverja mínútu. Skyldi það vera skynsamlegt? Ein er sú saga sem ég hef oft sagt. Sú er að jafnan sé ég með einhverja vísu í huganum. Þetta er reyndar alveg satt. Sú sem ég er með núna er svona:

Áður hafði áforn glæst
engin þó að hafi ræst.
Nú er það mín hugsjón hæst:
„Hvenær verður étið næst?“

Einu sinni einsetti ég mér að geyma þessa vísu í huganum þangað til ég væri kominn á elliheimili. Nú er ég semsagt ekki eins viss um að ég endi mína ævidaga á slíkri stofnun. Hvað skyldi þá vera hægt að gera við þessa vísuskömm? Auðvitað er þetta upplagt bloggstöff. Margt verður þannig með tímanum að þó ég hafi ætlað að geyma það þangað til á banastundinni – eða nálægt henni - að það verður ansi lítilvægt að lokum. Nú er ég að verða búinn að skrifa skammtinn minn, segir wordið, svo ég fer bara að hætta.

Nú, er það ekki góða fólkið sem er óða fólkið, er það vonda fólkið? Þetta fer nú að verða svolítið flókið. Hvað ef fólk er nú bara pínulítið gott? Ég skil þetta ekki. Ég verð bara að segja það.

WP 20141227 10 33 27 ProEinhver mynd.


2404 - Sannleikurinn um Bessastaði

Ekki má Uninn sjálfur segja að hann hafi sprengt vetnissprengju, það er bara strax farið að efast um það. Hann má varla segja að hann hafi skitið í klósettið. En það getur Simmi alveg.

Já, bloggpistlarnir hjá mér eru orðnir fjandi margir. Einhverra hluta vegna hef ég alla þessa tíð (alveg frá 2006 – minnir mig) engu logið, heldur ávallt sagt satt frá öllu. A.m.k. að mínum eigin dómi. Vissulega hef ég sagt frá ýmsu bæði frá sjálfum mér og öðrum. Sumt af því kann að hafa verið lygi. En vísvitandi hef ég aldrei logið neinu í þessum bloggum mínum. Ekki segi ég þetta vegna þess að ég ætli að taka mér eitthvert sérstakt skáldaleyfi núna. Nei, ég hef ekkert slíkt í hyggja. Samt sem áður fannst mér rétt að hnykkja á þessu. Auðvitað hef ég oft lesið allskyns lygi (sem venjulega er kölluð skáldskapur). Ég hef samt aldrei fundið hjá mér hvöt til að leggja lóð mitt á þær vogarskálar. Þegar ég var í Barnaskóla skrifaði ég stundum sögur sem voru tóm lygi. Man vel eftir einni sem fjallaði um það að ég hefði mætt á Breiðumörkinni ljóni á stærð við belju og það hefði ráðist á mig en ég bara stungið hendinni upp í það og í gegnum það allt og komið hendinni út um endann á því og gripið í rófuna og snúið því við. Kennaranum þótti þetta ákaflega fyndið og mig minnir að hann hafi lesið söguna upp og hrósað henni mikið. Samt sem áður hefur skáldskapur aldrei legið fyrir mér. Það litla (eða alltof mikla þó) sem ég hef skrifað um dagana hefur verið sannleikanum undirorpið. Þó hef ég auðvitað sagt frá honum á þann hátt sem mér sýnist. Og leynt sumu. Verst er að skrifa um aðra. Maður veit aldrei á hverju maður á von frá þeim.

Kannski er það einmitt vegna þessarar sannleiksástar minnar sem ég hef ekki orðið vinsælli fyrir skrif mín, (hef skrifað ýmislegt annað en þessi blogg) en raun ber vitni. Sumt af því sem ég hef skrifað um hefði sennilega orðið mun betra með svolítilli skreytni. Af hverju er ég að fjölyrða um þetta hér og nú? Mér bara datt það allt í einu í hug. Ég er nefnilega andvaka og klukkan er að verða fimm.

Eitthvað smávegis minnir mig að ég hafi skrifað um væntanlegar forsetakosningar um daginn. Sennilega er vel hægt að bæta einhverju við þær hugleiðingar. Ég átti svosem von á því einsog margir aðrir að ÓRG mundi ekki bjóða sig fram einu sinni enn. Af þeim sem minnst hefur verið á í sambandi við væntanlegt forsetaframboð líst mér einn best á Stefán Jón Hafstein. Aðallega er það vegna þess að ég kannast örlítið við hann. Man að hann hóf eitt sinn vinnu á Stöð 2 og hafði þá aðsetur í herbergi við hliðina á mínu. Ekki þekki ég hann samt að neinu ráði, en stjórnmálaskoðanir hans falla nokkuð vel að mínum.

Einhver hefur sagt að forsetaframbjóðendur mættu ekki vera fleiri en eitthvað ákveðið. Þar var held ég miðað við að ekki væri hægt fyrir neina að mæla með fleiri en einum slíkum. Þessu er ég alfarið andvígur. Að sjálfsögðu ætti að vera leyfilegt að mæla með mörgum. Því ekki það? Enginn hefur samt ennþá beðið um meðmæli mín en þau ættu að verða auðfengin. Og þegar ég mæli með þeim þrjúhundruðasta, skal ég láta forsetaritarann vita.

Rís þú unga Íslands merki,
þrátt fyrir verki.

IMG 1541Einhver mynd.

 


2403 - Megi aparnir þagna

Síðasti forsetinn sem ég man eftir að hafi flutt virkilega góðar ræður var Kristján Eldjárn. Þá var engin fésbók og ekki neitt og maður hafði nóg að gera fram eftir nýársdegi við að melta ræðuna. Þó hann véraði og ossaði bæði sig og aðra þá var tungutak hans þannig að þar fannst manni ekki vera hægt um að bæta. Aftur á móti finnst mér ræður ÓRG, einkum núna í seinni tíð, einkennast af heimskuþvaðri og þjóðernisrómantík. Get ekki að því gert að mér finnst sumt af því sem hann segir skýra vel af hverju HKL sagði að rjómatíkin væri jafnvel betri en pólitíkin. Enginn slær hann út í þjóðernisrembingi nema ef vera skyldi SDG, sem varla opnar munninn án þess að setja svona tvö eða fleiri heimsmet. Og svo þegar kemur nýr Sigmundur Davíð, þá þarf að slá öll þessi heimsmet uppá nýtt.

Er hugsanlegt að það verði banksterarnir sjálfir sem tapi mest í næsta bankahruni? Eflaust tekst að koma einhverju af því á ríkið, en varla öllu. Þeir hljóta að vara sig aðeins. Sama eða svipað er að segja um útlenda vogunarsjóði og þá eru bara löreglukórarnir í Bretlandi eftir. Kaupaukasjóðirnir íslensku eiga sér tæpast viðreisnar von núorðið. Það er varla spursmál lengur að nú er af alvöru mikilli stefnt á nýtt hrun. Mollið stóra við hringtorgið hjá Keflavík verður varla fullbyggt áður en hrunið kemur. Annars á ég varla von á að þetta nýjasta Keflavíkurævitýri verði að veruleika frekar en önnur.

Megi aparnir þagna á komandi ári. Já, það er ekki annað hægt finnst mér en að kalla þá apa, sem mest hafa sig í frammi á flestum fjölmiðlum og vilja helst ekki ræða við eða um aðra en félaga sína sem eins er ástatt um. Ansi er það orðið lítið þetta samfélag sem þrífst á fjölmiðlunum. Ætli þetta lið fái svona lágt kaup að ekki sé hægt að fá almennilegt fólk í þetta? Sjóndeildarhringurinn er a.m.k. ákaflega lítill. Kannski sum þeirra fari í forsetann. Það væri þá landhreinsun. Verst ef einhverjir láta glepjast til að kjósa þau.

Satt og logið sitt er hvað
sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar allir ljúga?

Þetta er vísan sem ég er að velta fyrir mér um þessar mundir. Mér finnst ég alltaf vera að velta fyrir mér einhverjum árans vísum. Ekki velti ég svona fyrir mér þeim fáu sem ég geri sjálfur, enda tekur því ekki. Mér finnst þær nefnilega aldrei neitt góðar. En velti ég kannski bara fyrir mér góðum vísum? Það er ég allsekki viss um. Kannski ég láti bara nótt sem nemur hérna og hætti snimmhendis. Er ekki komið gott?

IMG 1625Einhver mynd.


2402 - Bessastaðir

Eitthvað verð ég víst að blaðra. Lengist nú tíminn á nýju ári og ég hef ekki bloggað að ráði á því. Verst að ég skuli ekki hafa neitt að segja. Mér leiðist ákaflega að endurtaka í sífellu það sem aðrir hafa sagt og sömuleiðist er ég á móti þessum sífellda fréttaflutningi á blogginu. Aðalvinna fréttamann virðist vera að vaka nógu vel yfir bloggum, fésbók, twitter og þessháttar og ekkert virðist vera frétt nema það hafi fyrst komið fram þar. Að sumu leyti er þetta auðvitað ágætt en að hinu leytinu hundleiðinlegt því á annað en það sem fréttafólkið hefur áhuga á er ekki minnst og það getur sem hægast farið framhjá manni.

Hlustaði af gömlum vana á nýárávarp forsetans. Man vel eftir ávörpunum hjá Kristjáni Eldjárn sem véraði sig og ossaði í bak og fyrir þó allir aðrir væru löngu hættir því. Minnir að ræðurnar hjá honum hafi samt verið ágætar og þjóðremban var a.m.k. allt öðruvísi. Nú virðist ekki að marka nokkurn hlut nema það sé a.m.k. heimsmet. Þannig er það hjá Sigmundi og eftir höfðinu dansa limirnir. Sigmundur hugsar bara um sjálfan sig, en Bjarni um Sjálfstæðisflokkinn.

Ekki skil ég í þeim sem eyða offjár í að sprenja í loft upp gamla árið. Mér finnst nær að eyða þeim peningum í matvæli og aðrar nauðsynjar. Björgunarsveitirnar spjara sig. Margir afsaka sig þó gagnvart sjálfum sér og öðrum með því að þeir séu að bjarga þeim. Með þessari heimskulegu ákvörðun eru þeir þó fyrst og fremst að styðja við ríkisstjórnina. Hún þarf þá engu að eyða í björgunarstörf.

Auðvelt er að gagnrýna. Erfiðara að sjá það jákvæða. Þó margir verði af aurum apar er samt greinilegt að meiri peningar eru í spilinu en verið hafa frá hruni. Verst að við ellibelgirnir fáum lítt að njóta þeirra og engan höfum við verkfallsréttinn, sem hægt væri að veifa eins og slöngvivað yfir höfði sér. Ekki hafa lögreglumenn hann og samt stunda þeir veifingarstarfsemi eins og ekkert sé. Auðvitað gætum við gamlingjarnir gert það líka.

T.d. gætum við hæglega tafið fyrir ýmsu og valdið allskyns vandræðum ef við kærðum okkur um. Jafnvel látið Sigumund og Bjarna hlusta á okkur. Þingið ræður greinilega engu en Sigmundur og Bjarni öllu. ÓRG vill ráða hinu og þessu en verður í aðalatriðum að sætta sig við allan fjárann.

Ég er alvarlega að hugsa um forsetaframboð. A.m.k. að hugsa um það, enda held ég að margir séu að því þessa dagana. Nær hinu venjulega held ég varla að komist verði en með því að kjósa mig til starfans. Eiginlega er mér slétt sama um hvort þetta er gott djobb eða ekki. Bara ef ég fæ kaupið mitt.

Læt ég svo lokið þessum fávíslegu hugleiðingum en vona að árið 2016 verði gott og gjöfult fyrir sem flesta, nema hin helvítin.

IMG 1281Einhver mynd.


2401 - Snjólétt er á Akranesi

Var búinn að skrifa eitthvað sem ég ætlaði að senda í eterinn á síðasta ári, en ætli ég noti það ekki bara til að hafa nýársbloggið mitt dálítið veglegt.

Ég geri mitt til að minnka áramótakveðjufarganið og óska engum gleðilegs árs. Finnst líka dálítið seint að þakka fyrir viðskiptin á gamla árinu núna. Nær hefði verið að gera það þegar þau áttu sér stað. Árið heilsar með kulda og snjó, sýnist mér. Annars svaf ég óvenju lengi núna.

Veit ekki hversvegna í ósköpunum síðasta blogg hjá mér var að hluta til rautt. Ekki var það ætlunin.

Snjólétt með afbrigðum virðist mér vera hér á Akranesi (knock on wood). Kannski er vindur í meira lagi en það gerir nú lítið til. Trén hér í kring mættu að vísu alveg vera stærri og þá kann að vera að skjól yrði af þeim. Umferðin er bara alveg eins og hjá siðuðu fólki. Ekkert lík því sem tíðkast á Reykjavíkursvæðinu.

Þar er engu líkara en allir séu að farast úr æsingi og bílaröðin er óslitin a.m.k. á aðalleiðum. Út fyrir þær treystir maður sér helst ekki því þá á maður á hættu að lenda í hringtorgavillu og vita þá ekkert hvar maður er staddur eða hvert maður ætlar. Kenningin um að hringtorgin séu upphaflega blettir eftir kaffibolla er alls ekki fráleit. Fjöldi hringtorga á höfðuðborarsvæðinu er legíó og ég ekki frá því að bæjarstjórnin hér hafi einhverntíma fengið snert af hringtorgasóttinni. Venjuleg umferðarljós eru þó ekki mörg hérna og erfitt að villast.

Ég á því ekki að venjast núorðið (á þessum fésbókar og twittertímum) að athugasemdir séu gerðar við bloggið mitt. Það er ótrúlega hressandi að fá slíkt. Ég svaraði áðan þessum athugasemdum og það er alveg rétt að ég lít á alla trú sem nokkurs konar hindurvitni. Ber samt virðingu fyrir skoðunum fólks í þessu efni. Móðir mín og móðuramma voru að ég held báðar mjög trúaðar og boðskapur margra vísna og sálma sem maður var látinn læra þegar maður var barn, hefur sennilega síast meira og minna inní mig samt. Það er langt frá að ég telji kristna fræðslu hafa yfirleitt valdið miklum skaða. Samt eru allar þessar biblíusögur óvísindalegar í meira lagi í mínum augum. Allan ofsa í trúarlegum efnum tel ég þó vera til skaða.

Nú er ég farinn að blogga nokkuð reglulega aftur sýnist mér. Kannski fækkar lesendum mínum við það. Við því er ekkert að gera. Ég reyni bara að hafa þau ekki of löng. Erfitt hugsa ég að það sé að fella mín blogg í einhvern ákveðinn flokk, þó kann hann að vera til. Stöku sinnum les ég gömul blogg eftir sjálfan mig og undrast yfirleitt hve vel þau eru skrifuð. Oftast nær er samt ekkert að marka fyrirsögnina. Moggabloggsguðirnir heimta bara einnhvað slíkt. Myndavélina tekur ekki að virkja fyrr en dagur fer aðeins að lengjast. Skammdegið er erfitt.

Sagt var frá því í einhverjum miðli, að 21 árs gamall maður hefði drukknað við að reyna að synda sem lengst í kafi (100 m) Sjálfur man ég eftir því að hafa synt í kafi 4 ferðir þversum í Laugaskarði og spyrt mér af stað í fimmtu ferðina (Samtals rúmlega 50 m) Svo gat ég líka haldið niðri í mér andanum í tvær og hálfa mínútu. Einu sinni (líklega á Vífilsgötunni) var ég að grobba af þessu og Benni sem er keppnismaður hinn mesti ákvað að gera betur og hélt niðri í sér andanum í þrjár og hálfa mínútu, ef ég man rétt. Hann var líka hálfmeðvitundarlaus fyrst á eftir.

IMG 1560Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband