Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015
25.8.2015 | 21:49
2358 - RJF
Líklega hef ég ekki lesið eins mikið um nokkurn einn mann einsog Robert James Fischer. Á stundum hefur mér fundist ég skilja furðuvel athafnir og gerðir jafnfullkomlega asocial persónuleika. Samt eru nokkur atriði í æfi hans sem ég hef allsekki getað skilið. Í gærkvöldi komst ég að því að ég hef ekki lesið af mikilli athygli bókina Bobby Fischer goes to war þegar hún kom út árið 2004. Fékk hana lánaða hjá syni mínum og er að lesa hana núna ásamt með bókunum A short history of nearly everything og Atomic Times, sem mig minnir að ég hafi minnst á hér á blogginu mínu. Já, áhugamál mín eru undirfurðuleg.
Oft hef ég fleiri en þrjár bækur í takinu í einu, svo það er alls ekkert merkilegt þó ég minnist á þessar bækur allar. Fór að mig minnir á bókasafnið hérna á Skaganum annaðhvort í gær eða fyrradag. Það getur vel verið að ég gluggi í þær bækur sem ég fékk þar lánaðar. Held að þær hafi verið sex talsins. Þar sá ég meðal annars hnausþykka og níðþunga bók sem fjallaði bara um landsleiki Íslands í fótbolta. Kannski væri óvitlaust að glugga í þá bók á staðnum. En að fara að rogast með hana út í bíl datt mér ekki í hug. Bækur af þessu tagi finnst mér eiga betur heima á Internetinu. Sennilega er ég að tala um þessa bók vegna þess að mér blöskraði þyngdin og fyrirferðin á Sögu Akraness sem kom út í nokkrum bindum fyrir skömmu. Er hugsanlegt að einhverjir gefi út bækur aðallega fyrir bókasöfnin í landinu? Svona þykkar og þungar bækur hljóta að kosta eitthvað.
Get ekki almennilega varist þeirri hugsun að kalda stríðið og allt sem því fylgir sé að koma aftur. Auðvitað verður það samt ekki eins. Nýja hrunið verður það ekki heldur. Óttinn við notkun kjarorkuvopna gæti þó komið aftur. Útbreiðsla þeirra hefur ekki orðið eins ör og sumir óttuðust. Ekki hefur þó tekist að banna þau með öllu. Stórveldin hafa bæði leynt og ljóst gert tilraunir með áhrif geislunar á fólk. Þó ekki sé hægt að segja að friðvænlegt sé í heiminum núna hafa þó átakapunktarnir færst til og jafnvel má halda fram að framfarir hafi orðið, þegar á heildina er litið.
Útgerðarauðvaldið hefur sennilega skotið sig í fótinn með því að ýkja væntanleg áhrif af viðskiptabanni Rússa. Ákvörðunin um að fylgja fremur NATO og EBE en Sovétríkjunum og Rússum var tekin fyrir löngu (þegar gengið var í NATO árið 1949) Þó sú ákvörðun hafi verið umdeild á sínum tíma finnst mér ekki ástæða til að breyta því þó fáeinir stórútgerðarmenn væli svolítið. Íslendingar eru samt vanir að elta peningana hvar sem þá er að finna. Ekki kæmi mér á óvart þó framsóknarmenn reyni að notfæra sér makríl-sönginn og íslam-óttann eins og þeir geta í næstu kosningum. Hræðilegt hlutskipti fyrir flokk sem einu sinni var bændaflokkur umfram allt annað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.8.2015 | 00:28
2357 - Bill Bryson
Af einhverjum ástæðum hef ég ekki lesið af athygli fyrr en núna nýlega bókina A short history of nearly everything eftir Bill Bryson þó mér hafi einhvernvegin áskotnast hún. En hún liggur í mesta sakleysi á kyndlinum mínum og hefur sennilega verið þar alllengi. Sé að ég get ýmislegt á þessari bók lært. Bryson þessi er ágætis höfundur nonfiction verka og ég hef lesið þónokkrar bækur eftir hann. Ástralíumaður sem fluttist búferlum til Bandaríkjanna ef ég man rétt.
Í þessari bók ræðir hann bæði um það stærsta í kosmólógíunni og það smæsta í atómvísindum dagsins og gerir það á mjög svo skiljanlegu máli þó efnið sé rammflókið.
Ekki fer mikið fyrir menningarnóttinni (sem stendur allan daginn) hér á Akranesi, en fréttatímarnir í sjónvarpinu eru fullir af þessu. Enda mikil gúrka núna og rigning að auki.
Ekki hef ég mikla hugmynd um hvers vegna fólk les bloggið mitt. Verið getur að einhverjir lesi það af áhuga fyrir heilsurækt minni. Þó er það vafamál. Samt sem áður ætla ég að lýsa hér að nokkru gönguferðum sem ég stunda af þónokkrum krafti. Viðmið mitt er 400 metrar á hverjar 5 mínútur. (Caledosið mitt er nefnilega stillt á það og ég þori ekki að breyta því.) og ég fer í u.þ.b. klukkutíma gönguferð flesta morgna. Viðmiðunin gerir 4,8 kílómetra á klukkutímann og er afar létt hugarreikningsdæmi að reikna út hve mikið maður er yfir eða undir viðmiðunarmarkinu á 5 mínútna fresti. Í gærmorgun (laugardag) var ég aðeins undir viðmiðunarmarkinu, enda stundaði ég lítið göngur meðan ég var í Ölfusborgum í viku. Þyngdin skiptir líka máli. Undanfarið hef ég stundum verið vitlausu megin við 105 kílóin og í morgun var ég 106 kíló. Þarf að taka mig svolítið á í þeirri deild. Í morgun var ég svo aðeins yfir viðmiðunarmarkinu í göngunni, en þó ekki nóg til þess að fara á 5 km hraða á klst. Hitt aðalmarkmiðið er að fara snöggvast undir 100 kg, en halda mig svo við 100 105 kg.
Píratar vilja að útvegsmenn bjóði í aflaréttinn. Hvers vegna hefur þetta ekki komist til framkvæmda fyrir löngu? Augljóslega er mikill stuðningur við eitthvað svona meðal kjósenda. Því verður þó varla komið á samstundis. Minnir að um þetta hafi oft verið kosið en útvegsmenn alltaf komið í veg fyrir framkvæmd málsins. Kannski er því ofbeldi að linna. Hugsanlegt er að Rússamakríll verði aðalkosningamálið í næstu kosningum.
Mér finnst best að segja fáein orð um sem flest og er fastur í blogginu. Fésbókin höfðar minna til mín. Þó er oft gaman að lesa það sem þar er sagt og skoða myndirnar þar.
Þó ég horfi yfirleitt lítið á sjónvarp fyrir utan fréttir, horfði ég af einhverjum ástæðum á þáttinn um Gylfa Þ. Gíslason í kvöld. Man vel eftir komu handritanna. Flatöbogen, vær saa god. Mogginn birti sína fyrstu fréttamynd í lit af löggubílnum sem flutti skruddurnar (sennilega á þjóðminjasafnið) þar sem hann var að aka yfir brúna á Skothúsveginum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2015 | 01:41
2356 - Um pútínska keisaradæmið o.fl.
Ríkisstjórnin íslenska er í ítarlegu sumarfríi. A.m.k. hef ég sannfrétt að ríkisstjórnarfundir hafi fáir verið haldnir að undanförnu. Það er líka óþarfi hinn mesti því rífandi uppgangur er um allt samfélagið, braskarar vaða uppi og verða áreiðanlega ekki lengi að setja allt á hausinn aftur með hjálp bankanna, sem láta eins og þeir hafi aldrei séð peninga áður. Mestmegnis eru þeir náttúrulega bara tölur á blaði en ef þú ert nógu ófyrirleitinn dugar það alveg.
Eiginlega var ég í talsvert ítarlegu sumarfríi einnig. Vikudvöl í sumarhúsi í Ölfusborgum, jafnvel þó rigni flesta dagana, er alveg á við miðlungsutanlandsferð.
Seðlabankinn er máttlaust apparat og gerir bara það sem honum er sagt. Mest er deilt um vændi og ríkisstjórnin reynir að styðja þjóðrembu alla en situr sem fastast á kassanum að öðru leyti. Svik og prettir af öllu tagi þykja sjálfsagðir. Verkamenn þora ekki í verkfall vegna hótana. Skólarnir hefjast.
Og svo er Palli kominn í ruglið, segir Jónas. Það vill svo til að ég þekki bæði Pál Magnússon og Jónas Kristjánsson persónulega og minn Palladómur (rödduð eða órödduð ell, eftir atvikum) er sá að báðir hafi nokkuð til síns máls. Báðir eru þeir fyrrverandi fjölmiðlamenn og teknir að gamlast nokkuð. Auðvitað eru þeir að rífast um hana Páleyju í Eyjum (pun intended) Mér finnst Jónas vera of mikill orðhákur og Palli fullgætinn og hallur undir yfirvaldið. Pólitískt séð eru þeir báðir þó hægrikratar að ég held. Mér ætti að líða bara nokkuð vel mitt á milli þeirra. Næst fara þeir sennilega að rífast um Amnesti International og vændi í stað nauðgana. Það er þó allavega tilbreyting og auk þess hæstmóðins þessa dagana.
Þegar alþingi kemur saman í haust verður haldið áfram þar sem frá var horfið við að koma öldruðum og öryrkjum fyrir kattarnef.
Svo er það þetta með Rússana. Málið allt saman gæti orðið ríkisstjórninni skeinuhætt. Hver veit nema þarna sé komið málið sem framsóknarmenn allra flokka geta sameinast um. Þjóðrembingslega séð er þetta alveg upplagt til að græða atkvæði á. Jafnvel eru líkur á að gamla skiptingin í hægri og vinstri, frá kaldastrísðárunum dugi ekki alveg. Ef Rússar hafa einhverntíma komist uppá að kaupa af okkur Íslendingum ónýtt drasl þá skulu þeir veskú halda því áfram. Annars er sjálfum Sigmundi að mæta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.8.2015 | 20:48
2355 - Tyrfður innipúki
Ekki vissi ég að það þyrfti að setja torfur á malbik (eða parkett) þar sem innipúkamenn ætla að skemmta sér. Upphaflega held ég að þessi innipúkahátíð hafi verið tilkomin vegna þess að ekki nenntu allir í útilegu um verzlunarmannahelgina (með setu). Nú er svo komið samkvæmt fréttablaðinu (ekki lýgur það) að nauðsynlegt er að tyrfa svæðið þar sem hátíðin er haldin svo það líkist sem mest venjulegri útihátíð.
Tvennt er það sem ég hef lagt sérstaka áherslu á í heilsuátak því sem ég ákvað að fara í fyrir um það bil ári. Sykur hef ég alveg leitt hjá mér því hann er ekkert annað en eiturlyf. Hann læðist að vísu stundum að manni í mjókurvörum, ávöxtum og þess háttar. Annars eru hvítur sykur, hvítt hveiti og þar af leiðandi flestar kökur og brauð á hálfgerðum bannlista hjá mér. Að vera katólskari en páfinn í þessum efnum dettur mér þó ekki í hug. Ég vigta ekki það sem ég læt ofan í mig og borða stundum mikið. Gengur þó illa að komast niður fyrir 100 kílóa múrinn. Hef undafarið haldið mig í kringum 105 kílóin.
Hitt atriðið er að ég las í fyrrahaust bók sem minnir að heiti: The heeling power of walking og var ókeypis á Amazon eins og 50 til 60 þúsund aðrar bækur. Bókin sem ég er að lesa um þessar mundir er um vetnissprengjutilraunir Bandaríkjamanna á sjötta áratug síðustu aldar og heitir: The Atomic Times og er eftir Michael Harris. Bók þessi vakti talsverða athygli í Bandaríkjunum þegar hún kom fyrst út fyrir nokkrum árum, en er ókeypis núna á Amazon. Höfundur dvaldi í raun og veru í herbúðum á þessu svæði á þeim tíma. Bókin er einkennilega fyndin og sorgleg í senn. Lýsingarnar á sprengingunum ógleymanlegar.
Ég er svo gamall að ég þarf ekkert að borga í bókasafninu, sem virðist vera alveg ágætt hér á Akranesi. En ég hef látið boðskapinn í göngubókinni ná þvílíkum tökum á mér að ég fer út að ganga næstum alla daga ársins og hefur á þann hátt (ásamt öðru) tekist að ná af mér kviðfitunni eins og heimilislæknirinn minn orðaði það svo fagurlega.
Ósköp er hann orðinn þreytulegur þessi hænsnatreiler hjá RUV. Hef ekki haft neina nenningu til að horfa á hraðfréttabræður þjóta um landið. Horfði að ég held á tvo fyrstu þættina og fannst þeir óttalega vandræðalegir og hef ekki horft á þá síðan. Fréttirnar nægja mér alveg.
Það sem gerist í heiminin skiptir mig sífellt minna máli. Sennilega er þetta ellimerki. Konan mín og krakkarnir, afastelpurnar tvær og allt sem þeim tengist og nánustu ættmennum mínum skiptir mig meira máli en hvað rússneska ríkisstjórnin gerir. Á ekki von á að að hún þrengi þumalskrúfurnar á okkur meira. Líklega er bara verið að hræða útgerðarmennina.
Við vörðuna sný ég oftast við á morgnana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)